Skáldskaparmál - 01.01.1997, Blaðsíða 106
104 Guðrún Ingólfsdóttir
taki moturinn upp úr hinni lokuðu kistu (þ.e. úr örygginu) og faldi sér með
honum, beri hann í augsýn manna þar sem öfundaraugun geta gleypt hann í sig
(sbr. orð Hrefnu: „Margir menn mæla það að eigi sé örvæna að eg komi þar að eg
eigi færri öfundarmenn en að Laugum" {Islendinga sögurll 1986:1608)). Kjartan
reynir að koma í veg fyrir þetta. Líkt og Guðrún álítur hann hana réttan eiganda,
enda þótt Guðrún gegni ekki þeirri stöðu sem moturinn er tákn fyrir. Þótt Hrefna
gegni hinu eftirsótta hlutverki og moturinn sé henni sannanlega búningsbót, þá
minnir hann menn einungis á samband Kjartans og Guðrúnar þar sem hann
trónir á höfði hennar.
I Laxdœlu er mikil áhersla lögð á visku og málsnilld Guðrúnar, enda þykir
körlunum gaman að tala við hana og helstu spekingarnir eru í vinfengi við hana,
svo sem Gestur Oddleifsson og Snorri goði:
Gestur tók henni [þ.e. Guðrúnu] vel og taka þau tal saman og voru þau bæði vitur og
orðig (Islendingasögurll 1986:1579).
Allra kvenna var hún kænst og best orði farin. Hún var örlynd kona (íslendinga sögur
111986:1578).
Þótti Kjartani gott að tala við Guðrúnu því að hún var bæði vitur og málsnjöll
(íslendinga sögur II 1986:1592).
Þótt samskipti Guðrúnar og Bróka-Auðar og Hrefnu fari ekki fram á vígvelli
orðanna, þá reynir Guðrún, eins og áður sagði, að hafa áhrif á líf þessara kvenna
með orðum sínum og gerðum. Hún kann með öðrum orðum að beita tungumál-
inu á sama hátt og karlar.7 Það gildismat sem fram kemur í máli Guðrúnar fer
saman við gildismat samfélagsins og karlanna. Guðrún beitir t.d. sömu aðferð við
að hnekkja á Auði og Þórður notar til að svívirða Þorvald Halldórsson fyrsta
eiginmann Guðrúnar. Táknrænt gildi motursins er einnig það sama í huga
Guðrúnar og Kjartans. Viðhorf Hrefnu gildir einu, enda breytist raunveruleg
staða hennar ekkert. Við hvarf motursins er hún jafn snauð af ást og fyrr. Og þegar
hún leitar hefnda með því að stríða Kjartani, skrúfar hann niður í henni. Guðrún
tekur af henni moturinn, Kjartan málið.
7 Catarina Röjder Papmehl (1996) fjallar í nýlegri grein um kvennatal og karla í Gísla sögu, en
rannsóknir sínar byggir hún m.a. á rannsóknum í félagslegum málvísindum. Á þeim vettvangi
er það nú viðurkennd staðreynd að karlar og konur beiti tungumálinu á ólíkan máta (sbr.
Papmehl 1996:23-29). Niðurstöður hennar staðfesta þetta einnig (sbr. Papmehl 1996:53-54).
- Skýringuna telur hún ekki einungis að finna í ólíku kynferði, heldur og ólíkri valdastöðu karla
og kvenna, þ.e. á miðöldum voru konur undirokaðar af manninum. Hún bendir þó einnig á að
tal Auðar, konu Gísla, breytist í sögunni. Þegar Gísli er ger útlægur og hún verður að standa
fyrir búinu, þá: „blir hon i sitt förhállande till andra alltmer „manlig" och sjálvstandig, vilket
tydligt kan avlásas av hennes sprak" (Papmehl 1996:54). - I Laxdœla sögu hefur Guðrún aðra
stöðu en flestar konur sögunnar. Vilji hennar er og sterkari sem helgast bæði af málsnilld hennar
og því að hún er ein af aðalpersónum sögunnar. Tungumál hennar tekur þó ekki síður en
tungumál Auðar í Gisla sögu mið af stöðu hennar í það og það sinnið (sbr. hér að framan).