Peningamál - 01.02.2003, Blaðsíða 8
PENINGAMÁL 2003/1 7
Húsnæðisverðbólga enn á uppleið
Húsnæðisliður vísitölu neysluverðs hefur hækkað
meira en aðrir þættir vísitölunnar undanfarna tólf
mánuði. Húsnæðisverðbólgan hefur jafnvel ágerst
síðari hluta tímabilsins. Svokölluð reiknuð húsaleiga
í húsnæðislið vísitölunnar, sem endurspeglar breyt-
ingar á markaðsverði húsnæðis, hækkaði um 1,6%
milli desember og janúar, 3,2% undanfarna þrjá mán-
uði og 7,7% undanfarna tólf mánuði. Að meginhluta
virðist mega rekja verðhækkun húsnæðis undanfarna
mánuði til verðhækkunar eigna í fjölbýli á höfuð-
borgarsvæðinu, þ.e.a.s. lítilla íbúða. Því hefur verið
haldið fram að framboð á þeim hafi verið of lítið og
virðist verðþróunin styðja þá skoðun. Vísitala fer-
metraverðs í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hafði í
desember hækkað um 4,7% á þremur mánuðum og
8,3% á tólf mánuðum. Velta á húsnæðismarkaði var
mikil á síðasta ári, sérstaklega um miðbik ársins, sem
líklega má rekja til aukins framboðs á lánsfé sem og
aukinnar eftirspurnar.4 Á síðasta fjórðungi ársins
2002 voru hins vegar afgreidd færri lán hjá Íbúða-
lánasjóði en á sama tíma árið áður, sem bendir e.t.v.
til að eitthvað sé farið að draga úr umsvifum á hús-
næðismarkaði. Ef svo er gæti dregið úr húsnæðis-
verðbólgu á næstunni.
Lítið hefur dregið úr hækkunum á verði þjónustu
undanfarna mánuði
Lítið hefur dregið úr tólf mánaða verðhækkun þjón-
ustu að undanförnu. Opinber þjónusta í vísitölu
neysluverðs hækkaði um 4,8% á sl. ári og þjónusta
einkaaðila um 4,9%. Þessar hækkanir þjónustuliða
vísitölunnar hafa leitt til 1,5% hækkunar vísitölu
neysluverðs undanfarið ár. Verð opinberrar þjónustu,
sem hækkar jafnan mest um áramót, hækkaði um 3%
milli desember og janúar. Launakostnaður vegur
þungt í kostnaði við ýmsa þjónustu, og má líta á
verðhækkun þjónustu umfram vöruverð sem vís-
bendingu um að hækkun launa umfram framleiðni
undanfarin ár sé enn að koma fram í verðlagi. Í ljósi
þess að umsamin laun hækkuðu um 3%-3,4% í byrj-
un ársins má telja líklegt að enn verði bið á því að
verðbreytingar á þjónustu verði í samræmi við aðrar
verðlagsbreytingar. Að því marki sem framleiðni
breytist hægar í þjónustugeiranum getur þó verð
þjónustu hækkað umfram vöruverð til lengri tíma.
Gengishækkun krónunnar leiddi til töluverðrar verð-
lækkunar innfluttrar vöru á sl. ári
Gengi erlendra gjaldmiðla lækkaði, sem fyrr segir,
um 12% gagnvart krónu á síðasta ári, og kom tölu-
verður hluti breytingarinnar fram í verðlagi inn-
fluttrar vöru. Helstu undantekningarnar eru bensín-,
áfengis- og tóbaksverð. Verð áfengis og tóbaks hélst
nær óbreytt allt sl. ár, þótt gengisbreytingar gæfu til-
efni til lækkunar, en hækkaði um tæplega 7% í kjöl-
far hækkunar skatta á tóbak og sterk vín. Heims-
markaðsverð bensíns hefur hækkað undanfarið hálft
ár vegna óvissu í Miðausturlöndum og verkfallsátaka
í Venesúela. Undanfarna tólf mánuði hefur innlent
bensínverð hækkað um 2,2%. Að bensíni, áfengi og
tóbaki undanskildu, lækkaði verð innfluttrar vöru um
rúmlega 5% á sl. ári. Verð innfluttrar matvöru lækk-
aði mest, eða um tæplega 10%.
Áhrif gengisbreytinga koma hraðast fram í verði
vöru þar sem lagervelta er hröð. Verð stærri varan-
legra neyslumuna aðlagast gengisbreytingum ekki
jafn hratt, enda má gera ráð fyrir að lagervelta sé
hægari og næmni gagnvart hagsveiflunni meiri. Nýir
bílar og varahlutir hafa lítillega hækkað í verði
undanfarna þrjá mánuði en lækkað um rúm 2%
Heimild: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands.
1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003
80
90
100
110
120
130
Innfluttar mat- og drykkjarvörur
Innflutningsgengisvísitala
Mynd 4
Verð innfluttrar vöru í vísitölu
neysluverðs og gengi krónunnar 1997-2003
Meðaltal tímabils =100 (verð)
31. desember 1991=100 (gengi)
Nýr bíll
og varahlutir
4. Eins og fram kom í Peningamálum 2002/4 stafar uppsveiflan á hús-
næðismarkaði sennilega að töluverðu leyti af auknu framboði á lánsfé
til húsnæðiskaupa. Í maí hafði þak á lánveitingum verið hækkað og
heimildir til að hækka veðmörk vegna viðbótarlána hafa verið túlkaðar
rúmt. Einnig var kaupskyldu sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins á
félagslegu húsnæði aflétt um mitt sl. ár og eigendum slíks húsnæðis
heimilað að selja eignir sínar á markaðsverði. Gera má ráð fyrir að
meiri efnahagslegur stöðugleiki, minni verðbólga, lægri vextir og
hækkun raunlauna síðari hluta sl. árs hafi ýtt undir eftirspurn.