Skírnir - 01.04.1989, Síða 35
SKÍRNIR STAÐFESTI í FLÖKKUSAMFÉLAGI?
29
Niburlag
Þótt þessi athugun veiti aðeins mjög ófullkomna innsýn í efni sem
hefur verið lítt kannað til þessa, má freista þess í lokin að draga
nokkrar ályktanir af niðurstöðum og tengja þær um leið við þjóð-
félagsgerð samtímans, bæði hér og í grannlöndunum.
Athugun á ábúðarháttum á Islandi fyrr á tíð er þeim mun for-
vitnilegra viðfangsefni sem hér voru ekki í gildi nein lagaákvæði er
takmörkuðu frelsi húsráðenda til að skipta allt að árlega um ábýl-
isjörð. Að þessu leyti voru aðstæður á íslandi vitaskuld mjög ólíkar
því sem gerðist í Danmörku, ekki síst eftir að átthagafjötur var þar
lagður á landseta á fjórða áratug 18. aldar.58 En jafnvel samanborið
við önnur Norðurlönd, þar sem slíkri átthagabindingu var ekki til
að dreifa, hafði íslenskt þjóðfélag á 18. öld sérstöðu að því leyti að
þorri búandi manna voru leiguliðar.59 Og sé nú gengið út frá því að
hvorttveggja, lögformleg lífstíðarábúð og sjálfsábúð, stuðli að því
að halda búendum við torfuna, má ætla að ábúðarskipti hafi verið
tíðari á íslandi en á öðrum Norðurlöndum.
Undanfarandi athugun gefur vitaskuld aðeins lauslega vísbend-
ingu um hvað kunni að vera hæft í þessari tilgátu. Ennfremur ber
að hafa hugfast, þegar lagt er út af henni, að Reykh.prk. var land-
búnaðarsamfélag þar sem ábúðarfesta var eflaust meiri en gerðist í
sjósóknarbyggðum. Aftur á móti bendir samanburðurinn við
Grímsnes ekki til þess að ábúð í Reyk.prk. hafi verið óvanalega
staðföst, af slíku samfélagi að vera.
Þegar reynt er að bera dæmi Reykh.prk. saman við niðurstöður
rannsókna á tilteknum góssum eða staðfélögum á öðrum Norður-
löndum, gerir ólík framsetning á niðurstöðum nokkuð óhægt um
vik. Hvað Danmörku áhrærir hefur verið sýnt fram á að um alda-
mótin 1700 var „lífstíðarábúð“ (þ.e. ábúandi hélt jörðinni til
dauðadags) við lýði á 40-50% býla á Fjóni og Jótlandi. Og á síðar-
nefnda svæðinu reynist hátt í helmingur ábýlisjarða hafa verið í
„familiefæste“, þ.e. gengið beint frá föður til sonar (32%), dóttur
(6%) eða ekkju hans (8,5%). Á Sjálandi, þar sem sk. „vornedskab“
gerði gósseigendum kleift að skylda nánasta erfingja landseta til að
taka við ábýli sem losnaði á landareign þeirra, var „familiefæste“
mun fátíðara; en ábúðartími landseta þar (á góssinu Herlufsholm
1696) var miklum mun lengri að meðaltali en gerðist í Reykh.prk.