Skírnir - 01.04.1989, Síða 50
44
GUÐBERGUR BERGSSON
SKÍRNIR
af guði) að það hlyti að reka að því að jafnvel kristnum líkama færi
að þykja hann vera afskiptur og heimtaði sitt líka. Enda var þá farið
að efast um hvar mörkin væru milli sálar og líkama. Við kröfugerð-
ina og könnun á fortíðinni, einkum þeirri grísku, urðu svonefndar
erótískar bókmenntir til; eins og við þekkjum þær núna. Hugurinn
fór að leita frá vissu dulrænu bænaklámi að botnlausum þörfum
líkamans. Að vísu höfðu erótískar bókmenntir verið til, eins og
gríska skáldsagan og sú býsanska, en ásthneigðin í þeim var að
mörgu leyti ólík þeirri sem varð kveikjan að nútímaskáldsögunni,
sem tók stærstu breytingum hvað kynhegðun varðar eftir iðnbylt-
inguna. Með henni fóru menn eðlilega að gefa nánar gaum að því
sem er vélrænt í sálinni, fari okkar og líkamsstarfsemi, til að mynda
hinu vélræna minni, vélrænum athöfnum líkamans og áráttu, þar á
meðal síendurteknum aðferðum ástarleikjanna: vítahringnum í
blindgötunni. Jafnskjótt fór að bera meira á bókmenntum sem
lýstu líkamlegu mannlegu samneyti sem var einvörðungu vélræns
eðlis. Við þær var ekkert andlegt, hvergi örlaði á sólarlagi í baksýn
eða grastó. Fólk naut unaðar og ásta í geómetrísku umhverfi, í fer-
hyrndum kúbískum herbergjum og leitaði aðeins að stundargamni
við engan fuglasöng. Og þá spratt fram vísir að klámsögu nútím-
ans.
Með uppgangi hennar fóru menn að stunda æ meir á prenti það
sem þeir gátu með engu móti veitt sér í veruleikanum, enda er
líkaminn óduglegri en ímyndunaraflið. Fólki er ekki klámið and-
styggð af því að það sé ljótt eða óhreint, heldur vegna þess að í því
birtist tær og ómengaður fáránleiki mannsins - óskir hans um
taumlausan unað. I því er engu lýst öðru en lýjandi vélrænum
hreyfingum í takt við viðeigandi andköf. Ekkert andlegt kemst að,
athöfnin eyðist í andlegu tilgangsleysi. Og fólk sem er alið upp við
að lífið hafi t. a. m. kristinn tilgang, sættir sig ekki við að það sé gert
vélrænt og aðeins efniskennt án guðlegs gildis. Engu að síður sækir
það í þessa ófrjóu lífssýn, eins og salan á klámlist sannar.
Það versta við klámið er samt ekki andleysi þess, heldur hitt að
það vekur í huga neytandans visst andríki og vonir, falska eftir-
væntingu, því að sá sem ætlar að lúta leiðsögn kláms kemst fljótt að
raun um að vélrænar samfarir í anda þess vekja ekki slíkan ógurleg-