Skírnir - 01.04.1989, Blaðsíða 80
74
GUÐRÚN NORDAL
SKÍRNIR
Sveinbjarnarsonar hin sérstaka rekur, en hann er nauðsynlegur til
að dauði hans sé túlkaður sem píslardauði.71 Sturlungu er fremur
lögð áhersla á deilur og pólitísk átök, en ekki á atriði, sem sýna
menn í helgiljóma. Það er mikilvægt að hafa í huga þetta veraldlega
stef sem hljómar í sögunni allri.
Ekki er hægt að gera samskonar athugun á íslendinga sögu, en þó
er líklegt að áþekkum atriðum í frásögninni hafi verið sleppt eða
tónn þeirra mildaður. Þó er rétt að minnast þess að Þórður Narfa-
son þekkti Sturlu Þórðarson vel og var að auki frændi konu hans.
Sagt er frá dvöl hans með Sturlu í Fagradal veturinn 1271-2, þegar
Sturla var lögmaður.8 Ekki er greint frá því hvort Þórður væri í læri
hjá Sturlu í lögum eða ritlist, en hugsanlegt er að hann hafi vegna
þessa persónulega sambands hreyft minna við verki Sturlu en öðr-
um samtímasögum, þegar hann vann að samsetningu Sturlungu.
II
Dráp voru fordæmd í fornum lögum íslenskaþjóðveldisins, sem og
í hinni heilögu ritningu. Grágás gerði þó skýran greinarmun á eðli
vígsins, hvort lögmæt ástæða hafi legið að baki þess, s. s. hefnd og
óhelgi fórnarlambsins, eða hvort vegið væri að ástæðulausu.9
Dauðarefsing er þó aldrei fyrirskipuð. Það er merkilegt að Grágás
gerir engan greinarmun á refsingu fyrir dráp eða hvers kyns árásir;
hegningin var alltaf sú sama, skóggangur.10 Þetta sýnir hve alvar-
lega lögin litu á hvers konar ofbeldi. Þó er skylt að geta þess að
Andreas Heusler hefur borið deilur í Sturlungu og íslendingasög-
um saman við forskriftir laganna, og komist að þeirri niðurstöðu,
að lagaleg meðferð deilumála í Sturlungu sé nálægt tilskipunum í
Grágás, en í Islendingasögum sé hún mun frjálsari. En þó gefa bæði
frásagnir í Sturlungu og Islendingasögum til kynna, að glæpum sé
aldrei svo harkalega refsað sem Grágás fyrirskipar.11 Hér bergmála
lögin fremur óskina um bætt réttarástand, en sögurnar raunveru-
leikann.12
Umbrot Sturlungaaldar kröfðust margra fórnarlamba og hafa
manndráp, sem skráð eru í Sturlungu á tímabilinu 1208 til 1260,
verið talin 350, eða að meðaltali um sjö á ári.13 Auðvitað er ekki
hægt að treysta nákvæmni þessarar tölu, því ekki greinir sagan frá