Skírnir - 01.04.1989, Page 84
78
GUÐRÚN NORDAL
SKÍRNIR
III
Andrúmsloft vantrausts og hræðslu ágerðist alla þrettándu öldina.
I lögunum voru þó varnaglar til verndar öryggi manna, einkum
fjörráð og grið.
Ef maður hugðist drepa mann að yfirlögðu ráði, hvort sem af
drápinu varð eða ekki, fyrirskipuðu lögin harða refsingu. Svo er
sagt í Vígslóða:
Ef maðR ræðr vm mann drep ráðum, eða sar ráðum eða bana raðum oc
varðar Fiör Baugs garð ef eigi komr fram, en scog Gang ef fram komr [. . .]
Sva er moelt vm drep ráð oc sár ráð oc fjöRáð. þav er a þeim véttvanGi ero
ráðin sem fram coma oc sva þav er aNars staðar ero ráðin.26
í íslendinga sögu eru fjórtán tilræði túlkuð sem fjörráð. Það er
athyglisvert að aðeins þrjú slík tilræði í sögunni eru færð til dóm-
stóla eða þings.27 Það hefur augljóslega verið erfitt að sanna fjörráð
fyrir lögum, og þess vegna hefur það verið hentugt vopn í tilbúnum
ákærum og eru þrjú dæmi um slík tiltæki í íslendinga sögu.281 öðr-
um sex tilvikum er ekki hægt að finna í frásögn sögunnar sönnun,
né afsönnun, fyrir ásökuninni.29 Þar af leiðir að einungis í fimm
dæmum af fjórtán er örugglega um tilefnislausa árás, eða fjörráð, að
ræða.30 Það er athyglisvert að svo lögfróður maður sem Sturla
Þórðarson skuli sveipa slíkri þoku yfir kringumstæður fjörráða,
því hér virðist íslendinga saga heimild um misnotkun laganna án
þess að á hana sé deilt. Hugsanlegt er að nálægð atburðanna kunni
að hafa staðið í vegi fyrir órækri söguskýringu.
Asökunin um fjörráð kemur ekki eins oft fyrir í Islendingasög-
um og í Sturlungu, en í þeim er hún víðast byggð á réttmætri
ástæðu. Frásögn íslendinga sögu sýnir menn hins vegar fela sig á
bak við grímu lagalegs réttar í árásum á aðra, en hirða þó furðu
sjaldan um að sanna mál sitt á Alþingi.
Grið er annað hugtak í íslendinga sögu, sem snertir öryggi
manna. Um tvenns konar grið er að ræða í sögunni:31 1. Grið sem
gefin eru án lagalegra tilvísana. Þau samsvara lífgjöf eftir bardaga;
bæði til handa stórum hópum og einstaklingum. 2. Formleg grið,
sem hafa lagalegar tilvísanir. Griðin voru sett í tiltekinn tíma milli
deiluaðila, meðan leitað var sátta, svo að þeir gætu ferðast hættu-
laust innan afmarkaðs svæðis og setið friðsamlega á fundum.