Skírnir - 01.04.1989, Page 91
SKÍRNIR
EITT SINN SKAL HVERR DEYJA
85
sig litlar heimildir um andlegt líf sitt.45 íslendinga saga er þó drýgri
heimild en flest miðaldarit um daglegt líf þrettándu aldar manna,
þó að hún sé skrifuð af höfðingja. Lýsingar í sögunni á viðbrögðum
höfðingja og almúga við dauða sínum fela í sér vísbendingar um trú
þeirra og lífsskoðun. Þó að íslendinga saga sé greinilega ekki rituð
í stíl heilagra manna sagna, er oft brugið sérstökum ljóma yfir
dauða manna. Dauðalýsingum í fornum ritum verður þó að taka
með sömu varúð og minningargreinum í dagblöðum nú á dögum;
þær draga upp jákvæða mynd af einstaklingnum og sú mynd
endurspeglar oft trúarbrögð hans. Þetta frásagnareinkenni er því
ekki ótvíræð sönnun fyrir sterku trúarlífi í landinu, en vissulega
hafði þjóðin verið kristin í tvö hundruð ár og prédikanir kirkjunn-
ar um logana neðra hlutu að endurvakna í hugum feigra manna.
Aðeins einu sinni ber lýsing á aftöku keim píslar. Sveinn
Jónsson, einn fylgdarmanna Guðmundar biskups Arasonar bauð
sig sjálfviljugur fram til aftöku, eftir ósigur biskupsmanna gegn
höfðingjum árið 1209. Hann setti það skilyrði að ,,„þér limið mik
at höndum ok fótum, áðr en þér hálshöggvið mik.“ Ok þessu var
honum játat. Gekk hann þá út ok allir þeir, því at þeir vildu eigi, at
kirkjan saurgaðist af þeim eða blóði þeirra. Allir gengu slyppir út.
Var Sveinn þá limaðr ok söng meðan Ave Maria. Síðan rétti hann
hálsinn undir höggit, ok var allmjök lofuð hans hreysti“ (253).
Dauði Sveins er í líkingu við frásögn í Hungurvöku af aftöku Jóns
biskups hins írska, sem var um skamma hríð trúboðsbiskup á Is-
landi á elleftu öld.46 Þrátt fyrir þennan hugarstyrk Sveins er hvergi
í sögunni vikið að sérstökum heilagleika hans, hvorki í lifanda lífi
eða eftir dauða hans. En ef marka má frásagnir Sturlungu er dauð-
dagi hans þó einstæður á öldinni.
í Evrópu á tólftu öld var það viðurkennd venja að leikmaður
gæti veitt deyjandi manni aflausn. Kirkjan hóf um miðja öldina að
ýta undir þá þörf að einungis prestar hefðu umboð drottins til að
fyrirgefa mönnum syndir sínar. Kirkjan er í stöðugri sókn á tólftu
öld, jafnt í Mið-Evrópu sem og á Islandi. Hún seildist til æ meiri
áhrifa í einkalífi manna og fátt var henni óviðkomandi. Skilin milli
einkalífs og opinbers lífs hurfu smátt og smátt af þessum sökum, en
um leið breikkaði bilið milli leikmanna og klerka.47