Skírnir - 01.04.1989, Page 124
118
JÓN KARL HELGASON
SKÍRNIR
Þessir fyrirlestrar hafa vakið óverðskuldaða athygli, sem höfundi þætti
ánægjulegir gullhamrar, ef þeir hefðu ekki um leið vakið jafn óverð-
skuldaðan andróður meðal ýmissa hópa. Það er ekki gott að starfa við slík-
ar aðstæður í jafn litlu samfélagi og því danska. Til að leiðrétta það í þessum
andróðri sem stafar af misskilningi, af úrdrætti og ýkjum, meðvitað sem
ómeðvitað, hef ég andstætt fyrri ákvörðun minni afráðið að gefa þessa
fyrirlestra út á bók, svo skömmu eftir að þeir voru fluttir, þannig að ég
verði að minnsta kosti ekki rægður fyrir eitthvað sem ég hef hvorki sagt né
meint.15
Utgáfa fyrirlestranna breytir þó lítið áliti andstæðinga Brandes-
ar.16 I fyrirlestri sem Gestur Pálsson flytur í Reykjavík 1889 segir
svo frá:
Eins og kunnugt er, stóð í Danmörku, eða réttara sagt í Kaupmannahöfn,
hörð deila milli tveggja flokka um ídealisma og realisma fyrir nokkrum
árum, og endaði náttúrulega, eins og allar slíkar deilur hljóta að enda, alveg
árangurslaust, nema hvað persónulegum skömmum hafði rignt svo yfir
helztu garpana í báðum flokkum í hryðjunum, að rígurinn var hálfu meiri
milli þeirra en áður.17
Deilurnar sem Brandes vakti eru víðtækari en Gestur gefur í skyn,
en þrætan um bókmenntirnar varðar annars vegar kenningar raun-
sæishöfunda, sem vilja lýsa á sannan hátt öllum hliðum mannlífs-
ins, og hins vegar hugmyndir rómantískra höfunda um skáldskap-
inn þar sem fegurð og andagift skipta sköpum. Raunsæismenn
gagnrýna þá rómantísku fyrir að ljúga í verkum sínum, meðan
rómantíkerar gagnrýna raunsæishöfunda fyrir að lýsa ljótleikanum
af andleysi.
Af því sem fram kemur í innganginum er ljóst að Brandes ber
skynbragð á gildi þess skáldlega eða listræna í bókmenntum. Sjálf-
ur skrifar hann skáldlegan, upphafinn texta, beitir líkingum og
öðrum brögðum til að hrífa áheyrendur eða lesendur, enda álítur
hann bókmenntafræði sína vera á mörkum lista og vísinda.18En í
hans augum hefur það skáldlega ekki sjálfstætt gildi; því verður að
beita í þjónustu samfélagsins. I innganginum segir hann þannig að
það skorti ef til vill skáldleg tilþrif í leikritum Victors Hugo, en
hann tekur þau samt fram yfir bókmenntaverk þar sem það skáld-
lega yfirgnæfir allt annað. Helst þarf að eiga sér stað samruni
tveggja andstæðna; skáldskapar og veruleika, anda og efnis.