Skírnir - 01.04.1989, Page 125
SKÍRNIR
TÍMANS HERÓP
119
Verk Brandesar berast snemma til íslands og Matthías Jochums-
son (1835-1920) hlýðir á fyrirlestra hans veturinn 1871 til 1872.19
Það er þó ekki fyrr en í lok áttunda áratugarins og í upphafi þess
níunda að fer að kveða að hinni „nýju“ stefnu hér á landi, fyrst fyrir
tilhlutan Jóns Olafssonar ritstjóra og skálds. I blaði hans, Skuld,
sem gefið var út á Eskifirði, birtist árið 1879 þýðing á örstuttum
kafla úr öðru bindi Meginstrauma og hluti úr skáldsögunni Kátur
piltur eftir Bjornstjerne Bjornson. A næstu árum þýðir Jón meðal
annars sögur eftir Mark Twain og Kátanpilt allan. Arið 1882 birtir
hann ennfremur í Skuld ítarlegar greinar um Mill og Bjornsson og
kvæði eftir Hannes Hafstein.
Sama ár gefur Hannes, í félagi við Bertel E. O. Þorleifsson, Einar
Hjörleifsson síðar Kvaran og Gest Pálsson, út fyrsta og eina ár-
ganginn af tímaritinu Verðandi. Þar er að finna skáldskap eftir þá
félaga og þýðingar á verkum norrænna skálda. Er hvort tveggja í
anda þeirrar stefnu sem Brandes boðar. I ársbyrjun 1883 hefur
Gestur síðan útgáfu á eigin blaði, Suðra, undir yfirlýstri stefnu
raunsæis í bókmenntum og birtir þar meðal annars þýðingar á
tveimur greinum eftir Brandes. Ari síðar hefur tímaritið Heim-
dallur göngu sína úti í Kaupmannahöfn og verður það brátt - með-
al annars vegna framlags Hannesar — einn helsti vettvangur
raunsæisbókmennta á íslensku. Þar er að finna fjölda þýðinga á
sögum eftir skáld á borð við Turgenjev, Kielland, Dumas,
Bjornson, J. P. Jacobsen og Mark Twain, ítarlegar greinar um suma
þeirra, kveðskap og sögu eftir Hannes sjálfan og sögur eftir Einar
Hjörleifsson Kvaran. Síðast en ekki síst skrifar Hannes grein um
Brandes í þriðja tölublað Heimdalls og þýðir kafla úr fimmta bindi
Meginstrauma.20
Við samanburð á inngangi Brandesar og viðhorfum Gests Páls-
son og Hannesar verður þó ekki lögð megináhersla á þessi fyrstu
skrif íslensku höfundanna heldur fyrirlestrana sem þeir flytja í
Reykjavík á árunum 1888-9 og fjalla á einn eða annan hátt um bók-
menntir. Þar eru hugmyndatengslin við inngang Brandesar
skýrust, enda standa Hannes og Gestur í sömu sporum og danska
ljónið: í ræðustól.