Skírnir - 01.04.1989, Page 133
SKÍRNIR
TÍMANS HERÓP
127
una datt“, vekur aðeins minningar um kúgun feðranna og lyddu-
skap þjóðarinnar. Ljóðmælandi óskar þess að ímynd fósturlands-
ins breytist, þannig að það verði „uppspretta, sterkum með straum,
/ ekki strokkur í sömu krá“.24
Mörg náttúru- og ferðakvæði eru laus við beinar vísanir af þessu
tagi, en það má engu að síður skoða sum þeirra sem allegóríur.
„Stormur", upphafskvæði Verðandi, er dæmi um það.25 Unnt er að
greina darwinisma í fyrsta erindinu, hugmyndina um náttúruvalið
þar sem aðeins þeir hæfustu lifa:
Eg elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.
(147)
I samræmi við það sem á eftir kemur - ljóðmælandi kveðst elska
storminn sem hrekur loftilla, dáðlausa lognmolluna á braut og reis-
ir öldurnar - er þó eins hægt að líta á storminn sem táknmynd
heimsandans eða byltingastraumanna: Þættir fortíðarinnar eru
teknir til meðferðar, því úrelta í andspyrnunni er hafnað en það
nýtilega látið leggja grunn að frekari framsókn. „Stormur“ er í hópi
elstu kvæða Hannesar og það kveður við annan tón í „Vorvísum“
frá 1910 þar sem Hannes hvetur vorið til að þrengja sér „gegnum
lands og þjóðar lund, / lífga hið veika, efl og bæt hið sterka“ (10).
Þetta er í andstöðu við náttúruvalið í „Stormi“ en í báðum kvæðum
er ráðist gegn kyrrstöðunni og þess óskað að framfaraöflin séu
leyst úr viðjum.
V
Þegar fjallað er um skoðanir Gests Pálssonar á bókmenntum er úr
meira efni að moða en hjá Hannesi. Gestur flytur þrjá fyrirlestra á
árunum 1888 og 1889 í Reykjavík, sem hafa varðveist, þar sem í öll-
um tilvikum er minnst á skáldskap, stöðu íslenskra bókmennta og
hlutverk þeirra í samfélaginu. Auk þess að semja smásögur og fáein
kvæði skrifar Gestur ritdóma í blöð, enda ritstjóri og blaðamaður
um langt skeið.26