Skírnir - 01.04.1989, Page 137
SKÍRNIR
TÍMANS HERÓP
131
það sem er, það sem heldur sig við mannlífið. Benedikt gagnrýnir
raunsæisskáldin frönsku fyrir að lýsa „viðbjóðslegustu hlandfor-
um hins argasta skríls og úrþvættis mannfélagsins“.31 Gestur gagn-
rýnir „ídealistana" fyrir að loka augunum fyrir raunveruleikanum.
Þeir félagar eru samt sem áður sammála um að menn þurfi að þræða
meðalveg milli þessara öfga.
Gestur segir reyndar að allar deilur um stefnur í listum séu til-
gangslausar, allar stefnur hafi eitthvað til síns máls:
í þess stað, að fylla bókmenntirnar illdeilum um þau efni, eiga menn að láta
stefnur í listunum ráða sér alveg sjálfar. Það þarf enginn að vera hræddur
um, að það rétta ryðji sér ekki braut á einhvern hátt. (72)
í þessum orðum má greina söguskoðun Hegels um baráttu and-
stæðna, en samkvæmt henni leiðrétta öfgarnar hvor aðra, svo að
segja sjálfkrafa.
Eins og Brandesi er Gesti í mun að skoða bókmenntir sinnar eig-
in þjóðar með því að bera þær saman við erlendar bókmenntir.
Hann segir í fyrirlestrinum um menntunarástandið:
ef vér mælum vorar bókmenntir eftir bókmenntakvarða annarra þjóða - og
annað getur ekki verið umtalsmál, - þá eru, ef satt skal segja, engar bók-
menntir hér til, hvorki að fornu eða nýju. Vér eigum bara einstöku bækur
í einstökum fróðleiksgreinum, og töluverður hlutinn af þeim [.. .] er frem-
ur ómerkilegur. Það er allt og sumt.(97)
Gestur tekur undir það með Hannesi að íslenskar bókmenntir séu
ófrumlegar, afturhaldssamar og staðnaðar. Flestum skáldunum
liggur „ógnarlega fátt persónulega á hjarta“ (89), segir hann í um-
fjöllun um nýja skáldskapinn. Það er til dæmis gallinn við Matthías
Jochumsson, sem annars hefur ágæta skáldgáfu. „Matthías er eng-
inn læknir; hann hvorki sker í eða græðir með ljóðum sínum“
(130). Ritdómur Gests er þannig samhljóða ljóði Hannesar, „Til
Matthíasar Jochumssonar"; Matthías sóar sinni miklu andagift.
Líkt og í Danmerkurlýsingu Brandesar er stöðnun íslensks
skáldskapar að mati Gests aðeins hluti vandans. Rót hans er að allt
andlegt líf í landinu er svo staðnað að til óheilla horfir: