Skírnir - 01.04.1989, Qupperneq 154
148
ÖRN ÓLAFSSON
SKÍRNIR
Hann var bæði hár og breiður og veltist í silfurskæru perlulöðri fram af
bjarginu niður í hringiðuna hyldjúpa og kolgræna, og hringiðan greip alla
löðurstraumana, sogaðiþá í sig, fleygði þeim svo upp aftur, velti þeim fyrir
sér og togaði þá á allar lundir, eins og til að vita, hvort nokkurt lið væri í
þeim, og slengdi þeim svo frá sér, og perlurnar þutu dálítinn spöl niður eftir
ánni, brustu svo og urðu að engu. (bls. 229)
En Anna hverfur frá þessum sjálfsmorðshugsunum, og það sýnir
Gestur með því einu að endurtaka lýsingu hringiðunnar í breyttu
formi í hugsunum hennar, svo að hún verður smærri og áhrifa-
minni, auk þess sem persónan er látin taka eftir nýrri fegurð í um-
hverfi sínu:
Hvað henni fannst mikil yndisfegurð í hverri einustu bugðu í ánni, og hvað
hann var skrítinn þessi leikur í straumiðunni kringum steinana, sem stóðu
upp úr, til að toga þá með. Og upp um hlíðarnar sá hún eitthvað nýtt við
hvern hól, hverja brekku og hverja laut, einhverja nýja fegurð, sem hún
hafði aldrei tekið eftir áður. (bls. 229-30)
Þessi túlkun á umhverfislýsingunum sýnist mér gefa meira en al-
mennari túlkun, svo sem að túlka lýsingu fossins sem táknmynd
lífsins sem fari sínu fram, hvað sem einstaklingi finnst. Af þessu
sést, að náttúrulýsingar Gests gegna ýmiskonar hlutverki, einkum
að sýna hugarástand sögupersóna, en jafnan því að magna örlaga-
ríkt atriði sögunnar. En hvorttveggja hefur lengi verið alsiða í
skáldskap.
Nú fer því auðvitað fjarri að stílstefna Gests Pálssonar hafi verið
einráð þegar Halldór Stefánsson hóf skriftir. Sú stefna fól í sér við-
brögð við eldri tísku, og áfram var mikið um sögur sem ekki höfðu
hlutlægnisblæ á sér. Taka má af handahófi dæmi úr skáldsögu frá
1925, Gestum Kristínar Sigfúsdóttur.8 Atriðið er sambærilegt við
það fyrsta sem tekið var hjá Gesti, en hér kemur afstaða sögumanns
beinlínis fram í orðalaginu:
Kvöldið er kyrt og rótt. Eitt af þessum ógleymanlegu vorkvöldum, þegar
„móðir jörð“ stendur á öndinni og hlustar eftir hjartaslögum barna sinna,
smárra og stórra. Þegar hávaði dagsins hljóðnar og þrasið og deilurnar
þagna, af ósjálfráðri tilfinningu fyrir því að það væri griðrof, að varpa
ófriðarorðum inn í ginnhelga þögnina. (bls. 26)