Skírnir - 01.04.1989, Page 225
SKÍRNIR
ÞEGAR ORÐ TRUFLA
219
[Álfrún] leynir flugi sínu. Það gerir hún. (bls. 7)
Myndir eru aldrei andstyggilegar. Aldrei. (bls. 74)
Ekkert kemur honum á óvart lengur. Ekkert. (bls. 98)
[Álfrún] mundi aldrei ljúga. Aldrei. (bls. 135)
Hugsunin er máttug. Það er hún. (bls. 135)
Samt er hann hlunkur. Það er hann. (bls. 241)
Og enginn skal fá að vita neitt. Enginn. (bls. 241)
Hugsanir hans höfðu verið sleipir fiskar. Það höfðu þær verið.
(bls. 250)
Af þessu úir og grúir út um alla bók. Svona málsmeðferð minnir á lítinn
strák sem er að leika sér með hamar og nagla og lemur mörg smiðshögg.
Naglinn er löngu horfinn inn í viðinn en hann heldur áfram að hamra og er
í rauninni ekki að smíða heldur að leika sér í þykjustuleik. Og nú er sem ég
heyri einhvern segja að það sé lítill strákur á bak við textann og um sé að
ræða réttmæta og eðlilega samsvörun milli barnshugans og orðanna
hljóðan. En sannleikurinn er sá að það er þroskuð kona á bak við textann
og þótt svona stílbragð megi koma endrum og eins til þess að viðhalda
þeirri listrænu blekkingu að við skynjum heiminn í gegnum huga ungs
drengs þá er nauðsynlegt að hafa hemil á því. En það er ekki gert og brátt
fer það að vinna gegn hinni listrænu blekkingu og verður mjög hvimleið
barsmíð þegar til lengdar lætur.
Þá er ótalið það listbragð sem á að færa lesendur nær persónu Gríms. Það
er fólgið í því að dengja saman orðum sem ekki eiga saman í daglegu máli.
Þessi brella er að minnsta kosti jafngömul Ofviðri Shakespeares en þar er
fullt af samsetningum á borð við „spellstopped“, „poleclipt", „manmon-
ster“, „hagseed“ og „seasorrow". Hið hvikulasamlagmagnar spennu, jafn-
vel kynngi, og heillar áhorfendur, en til þess var leikurinn gerður. Ef þessi
orð eru borin saman við hliðstæður úr Kaldaljósi (blár og barinn Grímur
blikkar vinu sína og er „Bólgublikkgrímur“, hann styður sig við strigarúllu
og er „Strigastafgrímur”, situr við eldhúskrók bernskuheimilisins og er
„krókakóngur“ en móðir hans ,,mjólkurvopnadrottning“) svo ekki sé talað
um kæruleysislega meðferð orðanna (menn sem snúa baki við Grími eru
„bakasnúarar“, það er „úlfaýlfur" í vindinum og Álfrún talar um „einn af
þáttum hringsins“) þá er ljóst að ekki er um að ræða neina spennu, hvað þá
töfra. Hér er miklu heldur dæmi um mál í kreppu. Þessar samsetningar eru
eins og hvert annað fiff. Skrautfjaðrir en ekki flugfjaðrir.
Og það er fleira sem ergir lesendur. Af hverju eru samræður tveggja tíu
ára stráka fullar af mærð og spakvitringahjali? Og af hverju tala þeir ná-
kvæmlega eins tíu árum síðar? Hamlar slysið þroska Gríms? Eða er svarið
sem fyrr að Grímur sé bara svona gerður og taki ekki út neinn þroska allan
þennan tíma og sé fullorðinslegt barn en barnslegur fullorðinn? Gott og
vel. En Sigurður Sigurðarson, þ. e. Tumi? Er hann líka svona gerður?