Skírnir - 01.04.1989, Page 240
234
HELGI ÞORLÁKSSON
SKÍRNIR
átti að tryggja nauðsynlegt jafnvægi (bls. 230, 240). Kerfið byggðist á jafn-
vægislist þar sem völdum var skipt á milli 39 goða og var sú hætta jafnan
yfirvofandi að sumir goðar yrðu öðrum voldugri vegna arfs, eiginleika eða
annars. Þó að komið væri upp mörkum milli fjórðunga (boundaries) var
þetta til styrktar miðstöðinni á Þingvöllum (center). En e. t. v. má taka und-
ir með Hastrup að slíkar breytingar hafi verið hættulegar kerfinu þegar til
lengdar lét (bls. 230, 241).
Hastrup fullyrðir að goðar hafi tapað öllum formlegum völdum á 12. öld
(bls. 213); í stað þeirra hafi komið fram nýr valdahópur, auðugri bændur
sem græddu á tíund og stöðum, sniðgengu lög og reglur og fóru sínu fram
í krafti auðsins. Þeir stjórnuðu leiguliðum og réðu þingfesti þeirra. Hún
segir að goðar hafi stundum átt kirkjur og þeir hafi lítið getað gert til að afla
sér fjár nema stunda fjárvarðveislu fyrir ómynduga og styður hún það þó
ekki neinum dæmum (bls. 196-7). Vitneskju sína um hina auðugu stór-
bændur sækir hún til Gunnars Karlssonar en hefur misskilið hann í því að
þeir hafi komið í stað goða á 12. öld, það varð fyrst um miðbik 13. aldar að
mati Gunnars. Þessi misskilningur dregur mjög úr gildi verksins.
Þriðji kaflinn er ýtarleg umfjöllun um ættarkerfið, „Kin Groups and
Boundaries". Hastrup sýnir að ætt var margbrotið og flókið fyrirbrigði,
var ýmist hliðskipaður hópur (,,lateral“) eða ekki („lineal") eins og hann
birtist í lögum, þannig að ýmist hið lóðrétta eða hið lárétta líkan á við og
ber meira á hinu síðarnefnda. Einkenni ættföðurveldis eru lítil og þó má
greina merki þess, ættin var ekki skýrt afmarkaður hópur í samfélaginu,
mikilvægast við ætt var að hún skipaði einstaklingum ákveðinn stað í sam-
félaginu (bls. 100-104). I seinni hluta verksins telur Hastrup valdaættir 13.
aldar ekki til hinna eiginlegu goða og gömlu ætta, enda hafi ættarkerfið
brenglast algjörlega. Ættirnar komi ekki lengur fram sem samstæðir hópar
á hinu lárétta sviði. Sturlungar eiga að vera dæmi um þetta, komi fram sem
einstaklingar, geri kröfu til eignarréttar og afmarki völd sín staðarlega (bls.
196, 199, 230). Eg á bágt með að sjá að mörk valdsvæða hafi komið í stað
marka sem ættir settu og tek undir með Jesse Byock að ættin hafi ekki skipt
miklu máli fyrir stjórnkerfið, menn bundust samtökum og skipuðu sér í
hópa óháð ættarböndum (bls. 126,128). Að vísu verð ég að takmarka þessa
skoðun mína við tímann eftir 1100 en finnst líklegt að málum hafi verið eins
háttað á 11. öld. Byock telur að frillulífi og fjöldi óskilgetinna barna hafi
sundrað goðaættum en hins vegar treyst bönd á milli goða og bænda (bls.
74, 114) sem er vafalaust rétt og hefði Hastrup mátt athuga þetta betur.
Einnig hefði hún þurft að gera grein fyrir því með hvaða hætti blóðhefnd
gilti í þjóðveldinu og hvernig hún tengdist ættarkerfinu.
Hastrup telur utanaðkomandi áhrif hafa stuðlað að framangreindri
þróun, hruni stjórnkerfisins; áhrifa kristni hafi ekki aðeins gætt þar sem
voru staðir og tíund því henni fylgdu ritlist og nýjar hugmyndir. Ritlistin
á að hafa haft þær afskaplegu afleiðingar að menn misstu algjörlega sjónar