Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 16
268
MARGRÉT EGGERTSDÓTTIR
SKÍRNIR
gæti leitt til alvarlegs misskilnings. Texti Villons er nefnilega ákaflega
margræður og víða dár og spé undir sakleysislegu yfirborði.
í upphafi ljóðabálksins „Le Lais“ lýsir skáldið vonbrigðum í ástum
og þeirri ætlun sinni að yfirgefa Parísarborg. Hann býst ekki við því að
eiga afturkvæmt, dauðinn vofir yfir honum, þess vegna ætlar hann sér
að gera þessa erfðaskrá, sem kvæðið er. Hann fylgir hinu hefðbundna
formi að játa syndir sínar og fela sjálfan sig Guði „í nafni föður, sonar
og heilags anda“. Síðan telur hann fram eigur sínar og ráðstafar þeim.
Margt af því sem hann telur upp á hann í raun ekki sjálfur (t.d. vopn,
matvæli, hundar, tjöld og peningar), og alls ekki á hans valdi að ráðstafa
því (kastalar, krár, stolnar endur). Sumt sem hann arfleiðir menn að er
beinlínis móðgandi, t.d. strámottur sem notaðar voru í hóruhúsum og
hárlokkar sem klipptir hafa verið af höfði hans. Loks eru dæmi um að
í arfinum sé falin hótun, þ.e. þegar hann arfleiðir menn að sjúkdómum
og vanlíðan. Eins og nærri má geta eru það óvinir hans og misgjörða-
menn sem þetta er ætlað.1 Til marks um tvíræðni Villons má einnig
nefna að hann segist ætla að gefa þremur skjálfandi, fátækum, munaðar-
lausum börnum nóg til þess að lifa af veturinn. Síðan nafngreinir hann
þessa vesalinga sem eru þá í raun þrír gamlir, spilltir auðmenn sem fáum
geðjaðist að.
í „Le Testament“ notar hann aftur form erfðaskrárinnar en nú er
það ekki brottför sem vofir yfir heldur bráður dauði. Þetta kvæði er
eins og hið fyrra ort undir áttkvæðum bragarhætti, oktövu. En í
þessum langa ijóðabálki eru felld inn erindi undir öðrum hætti, oftast
í ballöðuformi, sem mynda sérstök kvæði innan hans. Um muninn á
þessum tveimur ljóðabálkum segir S.G. Nichols að „Le Lais“ sé eins
konar erfðaskrá þar sem hinn dauðvona er látinn segja sína hinstu ósk
að boði þess sem á að sjá um gerð erfðaskrárinnar og að henni verði
framfylgt, en „Le Testament“ hins vegar eins og erfðaskrá gerð af
fúsum og frjálsum vilja, næstum sjö sinnum lengri en fyrra kvæðið;
munurinn sé hinn sami og á skjali og minnismerki.2
I „Le Testament" er skáldinu greinilega meiri alvara; hann er orðinn
1 Sbr. Barbara Nelson Sargent-Baur: „Frangois Villon“, Dictionary of the
Middle Ages 12, Scribners, New York 1989, bls. 450.
2 Stephen G. Nichols: „Fran§ois Villon“, European Writers. The Middle
Ages and the Renaissance II, ritstj. W.T.H. Jackson, Charles Scribner’s
Sons, New York 1983, bls. 535-570.