Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 276
528
Heimspeki er fyrst og fremst viðleitni manna til að átta sig á veröldinni og
sjálfum sér með sannleiksást og röksemdir að leiðarljósi. Hún hefur verið
rauður þráður í vestrænni menningu allt frá dögum Forn-Grikkja. Nú
mundu margir spyrja: Eiga þessi rit þá ekki helst erindi til þeirra sem áhuga
hafa á heimspeki og leggja vilja stund á þau fræði? Eiga þau nokkuð erindi til
annarra? Er þetta ekki of háfleygt fyrir venjulegt fólk? Þessu vil ég svara
þannig, að rit þessi eigi erindi til fleiri en heimspekinga, að þau séu ekki of
háfleyg fyrir fróðleiksfúst og hugsandi fólk. Ef heimspeki er einkum fólgin
í tilraun til að glöggva sig á veröldinni og sjálfum sér, má segja að allir leggi
stund á slíka glöggvun frá vöggu til grafar. Og þess vegna hlýtur að vera
akkur í því fyrir sem flesta að kynnast því sem snilldarlega hefur verið gert í
þessum efnum. En þessi rit eru einmitt með betri dæmum um heimspekilega
viðleitni. Málefnin sem rædd eru í bókunum tveim - gáturnar um mannlegan
skilning, mannlega þekkingu og tilveru Guðs - eru heldur ekki svo ókunn-
ugleg, að það þurfi að fæla menn frá lestri þeirra. Hins vegar ýtum við oft frá
okkur umhugsuninni um þessi efni og látum okkur nægja nærtækari við-
fangsefni í lífsbaráttunni.
En væri ekki gaman að kynnast því sem vitur maður hefur til málanna að
leggja? Hvernig er þekkingu okkar á veröldinni háttað? Hvaða möguleika
höfum við á að fóta okkur á sannleika fremur en fjötrast blekkingum? Hver
eru þau gæði sem ekki svíkja? Hver er kjarninn í trúarbrögðunum? Hvaða
möguleika höfum við á að lifa mannsæmandi lífi meðal manna og
málleysingja? Þetta eru mikilvægar spurningar sem hver manneskja ætti að
velta fyrir sér.
Þegar þess var farið á leit við mig að segja eitthvað um bækurnar sem hér
um ræðir, var ég heldur tregur til að takast það á hendur. Ég hugsaði með mér
sem svo: Á ég nú að fara að endursegja eða hafa vit fyrir öðrum um þessa
merkilegu texta. Ég vildi ekki taka ómakið af lesandanum og færðist undan.
En þegar mér var tjáð að mér væri frjálst að taka á málunum eins og mér
þóknaðist, lét ég til leiðast. Datt mér þá í hug að lýsa því hvaða áhrif lestur
bóka eftir David Hume hafa á mig, en það er ekki ósvipað því og læknir einn
sagði um tóbak, ef skaðvænleg áhrif þess eru ekki talin með. Ef menn eru
eitthvað daufir, hressir það, og séu menn æstir eða spenntir hefur það róandi
áhrif. Bækur Humes geta læknað menn af öllum kenningaofsa, en hresst og
fjörgað hugsunina og opnað óvæntar gáttir. Ég ætla því ekki að endursegja
efni bókanna, né gagnrýna skoðanir þeirra, ekki heldur að setja hugmyndir
höfundar í menningarsögulegt samhengi, enda væri slíkt að bera í bakkafullan
lækinn, þar sem ágætur inngangur er að báðum þýðingunum. T.d. rekur Atli
Harðarson málefni Rannsóknarinnar og setur skoðanir höfundar í hug-
myndasögulegt samhengi, og í sömu veru er ýtarlegur inngangur Páls S.
Árdals að þýðingu Gunnars Ragnarssonar. Þó get ég ekki stillt mig um að
mæla með því við þá sem lesæviijá þessar bækur, að þeir láti innganginn bíða
þar til að loknum lestri, til þess að láta hann ekki hafa áhrif á snertingu sína
við texta höfundar. Hins vegar er sjálfsagt að lesa „Athugasemdir“ Atla og
„Skýringar" Gunnars jafnóðum og lesið er.