Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 261
SKÍRNIR
LJÓÐASÖFN TIL KENNSLU
513
hér en í nokkurri annarri bók enda má segja að menn hafi verið að slípa það
til í rúm sextíu ár. Vissulega eru þó enn ljóð í safninu sem undrum sætir að
lagt sé fyrir börn. Þar á meðal er kvæðið „ísland“ eftir Bjarna Thorarensen.
Verkefni við ljóðin fylgja skýringarheftinu. Var þetta nýmæli og augljóst er
að í kverið í heild hefur verið lögð mikil vinna en að líkindum hefur það
aldrei nýst sem skyldi. Nokkuð er það að skýringarnar voru ekki prentaðar
í nærri eins stóru upplagi og bókin sjálf. Megingalli verkefnanna er sá að mati
Eysteins að nemendur eru sjaldnast leiddir inn í veröld ljóðsins sjálfs og kennt
að glöggva sig á innri lögmálum ljóðlistarinnar, svo sem myndmáli og
stílbrögðum, heldur brott frá ljóðinu að ævi skáldsins, öðrum verkum þess
og til ýmissa annarra rita og fræðigreina. Þetta sýnir ljóslega að Kristján hefur
verið mjög á bandi hinnar ævisögulegu aðferðar sem er orðin nokkuð
rykfallin þegar hér er komið sögu. Skýringar hans og vandaðar ritaskrár, sem
gerðar eru af Ólafi Hjartar, ættu samt að geta gagnast kennurum og jafnvel
stúdentum enn í dag.
Þegar kemur fram um 1970 fer svo loks að létta ögn til að því er Eysteini
finnst og sveitasælukveðskap og ættjarðarlofi tekur að svifa brott og slíkur
kveðskapur þokar fyrir nútímalegri ljóðum. Fyrsta bókin sem sett er saman
til að kynna skólanemendum ljóð hinna yngri skálda er bók Erlends
Jónssonar Nútímaljóð handa skólum sem kom út hjá Rxkisútgáfu námsbóka
árið 1967. Erlendur hagar vali sínu á þá lund að hann tekur eingöngu ljóð eftir
skáld sem ekki hafa náð fimmtugsaldri þegar bókin var gefin út. Hann velur
síðan ljóð eftir 12 skáld, þar af er ein kona, Vilborg Dagbjartsdóttir. Erlendur
hyggst greinilega kynna hin yngri skáld með þessu móti en æskilegt hefði
verið að gera einnig grein fyrir formbyltingunni sjálfri og aðdraganda hennar
og velja þá um leið ljóð eftir ýmsa brautryðjendur hennar eins og Stein
Steinarr. Eysteinn gerir ekki miklar athugasemdir við valið en honum þykir
þó einkennilegt að Erlendur skuli hafa gengið fram hjá ljóðum Stefáns
Harðar Grímssonar. Það er auðvitað rétt athugað en valið er hins vegar í heild
varla nógu vel heppnað. Sum ljóðanna eru t.d. nokkuð strembin fyrir unga
lesendur. Meginannmarki bókarinnar frá kennslufræðilegu sjónarmiði er sá
að hinu nýstárlega efni er ekki fylgt nægilega vel úr hlaði. Erlendur ritar að
vísu inngang um nútímaljóðlist en hann er of almenns eðlis til þess að koma
skólanemendum að gagni. Þess ber samt að geta að Erlendur segir í eftirmála
að inngangsgreinin sé ekki ætluð einum hóp öðrum fremur, hvorki
kennurum né nemendum sérstaklega, heldur hverjum sem lesa vill. Þó svo að
bók Erlends sé að ýmsu leyti gallað verk, eins og Eysteinn leiðir í ljós, á hann
samt hrós skilið fyrir að hafa fyrstur manna reynt að kynna verk yngri skálda.
Jóhannes skáld úr Kötlum tók árið 1969 saman skólaljóð handa 6-9 ára
börnum sem kölluð voru Litlu skólaljóðin. Ríkisútgáfa námsbóka gaf bókina
út. Eins og vænta mátti fer skáldið aðra leið en stofnanamennirnir. Jóhannes
velur saman annars vegar þjóðkvæði og hins vegar ljóð samtíðarskálda ásamt
ljóðum nokkurra fyrri alda skálda. Greinilegt er að safnrit Einars Ólafs
Sveinssonar með þjóðkvæðaefni Fagrar heyrði eg raddirnar, sem kom út í
fyrsta sinn árið 1942, hefur haft mikil áhrif á Jóhannes. Teikningar Gunnlaugs