Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 211
SKÍRNIR
AÐ SKEMMTA SÉR TIL ÓLÍFIS
463
hugmyndir sæta látlausri og nákvæmri athugun. Ritmál frystir talmál og
fæðir af sér málfræðinginn, rökfræðinginn, orðsnillinginn, sagnfræðinginn,
vísindamanninn - alla þá sem verða að hafa málið fyrir augum, svo þeir sjái
hvað það merkir, hvar því skjátlast og hvert það leiðir.
Platón vissi allt þetta. Hann vissi að ritmálið mundi leiða til byltingar á
skynreynslunni: augað tæki við af eyranu í meðhöndlun tungunnar. Ritmál
er ekki aðeins bergmál mannsraddarinnar, heldur alný rödd, töfrabragð af
fyrstu gráðu. Þessvegna er það síst undrunarefni að egypski guðinn Thoth,
sem sagður er hafa fært Thamus konungi skriftina, var jafnframt guð galdra.
III
Nútímamaðurinn er að stíga hið afdrifaríka skref úr töfraheimi ritmáls inní
töfraheim rafeindatækninnar. Ritmálið eða klukkan fólu ekki einungis í sér
útvíkkun á getu mannsins til að binda tímann, heldur róttæka umsköpun á
hugsanaferli hans og sjálfu inntaki menningarinnar. í þeim skilningi er hver
miðill myndlíking. Klukkan umskapar tímann sem sjálfstætt, stærðfræðilega
nákvæmt ferli. Ritmálið umskapar mannshugann og gerir úr honum töflu
þarsem skrá má mannlega reynslu. Ritsíminn gerir upplýsingar að verslunar-
vöru. I hverju tæki eða hjálpargagni sem við sköpum er fólgin hugmynd sem
nær langt útyfir sjálft hlutverk tækisins. Þegar gleraugun voru fundin upp á
12tu öld, bættu þau ekki einasta dapra sjón einstaklinga, heldur fólu í sér þá
hugmynd, að gjafir náttúrunnar eða eyðileggingarmáttur tímans væru ekki
óhagganleg örlög mannskepnunnar, heldur væri hægt að betrumbæta jafnt
líkama hennar sem andlegt atgervi. Það má jafnvel koma auga á samband milli
uppfinningar gleraugna á 12tu öld og stýringar erfðavísa og litninga á 20tu
öld. Smásjáin, sem sýndi okkur áður ókunna veröld, leiddi einnig í ljós nýjar
víddir mannshugans. Er sálkönnun nokkuð annað en smásjá mannshugans?
Við erum líka farin að mæla mannlega greind, afþví við höfum fundið upp
tæki til að mæla hana. Það eru engar tölur í höfði fólks. Greind verður ekki
mæld í magni nema afþví við trúum að það sé hægt. Okkur hefur lærst að
hugsa okkur mannslíkamann einsog vél. Við tölum um „lífsklukku",
„erfðalykla" og segjum að lesa megi andlit einsog opna bók. Þegar Galíleo
sagði að mál náttúrunnar væri skráð í stærðfræðiformúlur, var hann að beita
myndlíkingu. Náttúran talar ekki né heldur líkamar okkar, en við tölum um
náttúruna og okkur sjálf á „málum" sem eru okkur tiltæk. Málin eru miðlar
okkar. Miðlarnir eru myndlíkingar. Myndlíkingar okkar skapa inntak
menningarinnar.
IV
I öðrum kafla ræðir Postman um þekkingarfræðilegt hlutverk fjölmiðla og
þau umskipti sem orðið hafa á fjölmiðlun í Bandaríkjunum á liðinni öld með
30 — Skírnir