Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 158
410
GUÐBERGUR BERGSSON
SKÍRNIR
minn, hóf Málfríður dálítið kynlegan leik sem mér fannst vera merki-
kertislegur, í senn hvimleiður og þjóðlegur.
Kannski væri hægt að segja að hann hafi verið dáldið svipaður því
þegar menn í fornöld voru látnir bera glóandi járn, til þess að athuga
hvort hugur þeirra væri hreinn af lygi. Hjá Málfríði varð ég að ganga í
gegnum harðari þrautir en ég hef kynnst fyrr eða síðar hvað varðar
gáfur mínar. Fyrstu vikurnar voru mikill reynslutími, það var engu
líkara en hún væri að athuga og spyrja: „Á þessi maður skilið, sökum
greindar sinnar, að fá að sofa í herbergi þar sem doktor hefur búið ?“
Að reynslutíma loknum sagði hún mér í trúnaði, hver ástæðan hefði
verið fyrir því að hún leigði mér:
„Ég frétti að þú værir róni og stöðugt „rennirí" á eftir þér“.
Og þegar hún spurði, hvort ég hefði ekki tekið eftir því að hún færði
strax símann af ganginum inn til sín, og ég svaraði neitandi, enda þekkti
ég fáa í borginni og enginn hringdi til mín, þá sagði hún:
„Ég tók hann inn til mín, svo ég gæti vitað hvaða rónar hringdu til
þín og þú heyrðir ekki að allar kerlingar væru að hringja, hneykslaðar
yfir að ég skyldi leigja þessum hræðilega manni; þær eru alltaf að spyrja:
„Hefur þú sem þykist vera skáldkona ekki lesið bækurnar hans?““
Það var ekki fyrr en hún varð sannfærð um að ég reykti hvorki né
drakk og lá aldrei í símanum, að hún tók mig skyndilega og skilyrðis-
laust í heilagra manna tölu og færði símann aftur fram á gang, en hún
lét litla krukku hjá honum til þess að ég borgaði símtöl mín á sama
verði og í sjoppunni. Síðan trúði hún mér fyrir því hvað kerlingavaldið
væri voðalegt og sterkt í Reykjavík.
Mig grunar að dvöl mín hjá Málfríði hafi verið upphaf þess að ég er
núna, að margra dómi, á góðri leið með það að verða svonefndur
„kerlingasjarmur". Eftir því sem mér skilst er það harla vafasöm upp-
hefð fyrir rithöfund og fremur merki um að hann sé á niðurleið en
uppleið í andanum. Hvað eftir annað hef ég fengið framan í mig þessi
ógnvænlegu orð:
„Með sama áframhaldi í skáldskap sekkurðu að lokum niður í
kerlingadíki.“
Bókmenntaframleiðendur samtímans, fylgjendur knýjandi kalli
dagsins að ritverki beri að laga sig að lögmáli „markaðar og vinsælda“
- arftakar hins úrelta kjörorðs: „Rithöfundar allra landa, sameinist í því
að skrifa aktúelt efni sem leiðir til skjótfengins sósíalisma og byltingar;