Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 39
SKÍRNIR
,DEYÐU Á RÉTTUM TÍMA'
291
hverjum degi nægja sína þjáningu - njóta dagsins í dag. Heilræðin carpe
diem, gríptu daginn, og memento mori, mundu að þú deyrð, hníga til
sömu niðurstöðu. Hinn óvissi tími dauðans hefur áhrif á alla afstöðu
manns til tímanlegra hluta. Þannig skerpir vitundin um dauðann sýn
okkar á lífið sjálft og þau verðmæti sem gefa því gildi. Hún brýnir fyrir
manneskjunni vandann að lifa sem er í eðli sínu siðferðilegur en ekki
tæknilegur vandi. í sögunni af homofaber sýnir Max Frisch á listilegan
hátt hvernig hinn tæknisinnaði maður fer á mis við lífið, en augu hans
ljúkast ekki upp fyrir því fyrr en hann stendur andspænis dauðanum.
Þá fyrst finnur hann, rétt eins Ivan Ilyich, „að það er nærvera annarra
sem skapar hinu einstaka lífi gildi".1 Tæknimanninum er dauðinn
sérlega ógnvekjandi því að hann lýtur ekki lögmálum hagnýtrar
skynsemi. Ef hann gerði það væri hugmyndin um að deyja á réttum
tíma eins og hver önnur hvatning um að haga lífi sínu af ráðdeild og
útsjónarsemi, líkt og maður getur farið í sumarfrí eða keypt sér fasteign
á hagstæðum tíma. En slíkt er einmitt ekki hægt að gera þegar um
dauðann er að ræða. Dauðinn ógnar tæknilegri rökvísi með því að riðla
öllu skipulagi, ganga þvert á væntingar okkar og ákvarðanir. Ekki svo
að skilja að fólk geti ekki búið sig undir dauða sinn með ýmiss konar
skynsamlegum ákvörðunum, heldur vitum við aldrei hvenær við
deyjum. Þess vegna er aldrei hægt að „skipuleggja“ fyllilega dauðastund
sína og frá þessu sjónarmiði ráðagerða og hygginda er ekki hægt að
deyja á réttum tíma.
Samfara aukinni tæknihyggju og þægindadýrkun í vestrænum
samfélögum hefur dauðinn í síauknum mæli verið „stúkaður af“ innan
veggja sjúkrahúsa. Dauðinn verður óvinur sem engan veginn er hægt að
sætta sig við og sem því er reynt að afneita eða fela með öllu móti.
Nútíma lífsmáti elur á stundaránægju:
Af miklu hugviti hefur hinn auðugi og tæknivæddi hluti heimsins séð okkur fyrir svo
mörgum flóttaleiðum undan okkar eigin þjáningu og annarra, að með ofurlítilli
útsjónarsemi þarf okkur aldrei að skorta möguleika á undankomu, möguleika á
mátulega léttum doða eða hæfilegri ertingu. Þannig er sá friður sem við kjósum
okkur. Hann er ekki innri friður, né getur hann kallast djúpur. Hann er stundarfriður
í okkar eigin yfirborði.2
1 Max Frisch, Homofaber, Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson
þýddu (Reykjavík: Örn og Örlygur 1987), eftirmáli þýðenda, s. 264.
2 Vésteinn Lúðvíksson, „Líf ogþjáning," Skírnir 161 (vor 1987), s. 13.