Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 91
SKÍRNIR
.ÍSLANDS ER ÞJÓÐ, ÖLL SÖKKT í BLÓÐ'
343
Jón Gottskálksson (d. um 1650) og Fjölmóð, ævikviðu Jóns lærða. Hér
verður saga víganna ekki rakin, enda er þeim lýst nákvæmlega af Ólafi
Davíðssyni í Tímariti hins íslenzka bókmenntafjelags, 1895. Styðst
hann þar jöfnum höndum við frásagnir Jóns lærða og séra Ólafs, hefur
það úr báðum sem honum þykir trúlegast. Þessir textar höfðu gagn-
ólíka stöðu í orðræðu sautjándu aldar, þótt þeir lýstu sömu atburðum.
Frásagan var á sínum tíma útskúfaður texti, enda gekk hún í þverbága
við ríkjandi hagsmuni og viðhorf, andstætt „Spönsku vísum" er sýndu
hvernig valdsmenn litu á vígin. Eru þær til í fjölda afskrifta, en texti
Jóns lærða í fáum. Frásögn hans hefur að auki verið hunsuð að mestu
í gegnum tíðina. Þannig vænir Jón Espólín hann um ósannindi í
Árbókum sínum og fylgir frásögn séra Ólafs. Er það í samræmi við
afstöðu lærðra manna til Jóns allt fram áþessa öld; verk hans hafa ekki
fengið verðskuldaða viðurkenningu.
I formála Sannrar frásögu segist Jón hafa heimildir sínar frá sjónar-
vitnum sem andsnúin voru hvalveiðimönnum; hyggst hann fylgja
frásögn þeirra og segja sannleikann, þótt óþægilegur sé. Það er þó ekki
einungis sannleiksvilji sem knýr frásögnina áfram, því að hún er öðrum
þræði málsvörn, varnarskjal. Sennilega hefur Jón viljað hrinda af sér
ámæli um of náinn vinskap við Spánverja; „var eigi traust um at hann
vísadi þeim á hafnir, edr þángat sem féfaung voru fyrir,“ ritar Jón
Espólín.1 Kom þessi rógur upp skömmu eftir drápin samkvæmt
Fjölmóði, „með fölskum bréfum/og forráðs-lygi,“2 og olli því að Jón
hrökklaðist af Vestfjörðum. Sennilegt er að Frásagan hafi verið skrifuð
um þessar mundir, 1615-16, og kvæði séra Ólafs skömmu síðar, þótt
ekki verði það fullyrt.
Það gætir lítillar hlutdrægni í frásögn Jóns, hvað sem orðum
Espólíns líður. Engin dul er yfir það dregin að sumir Spánverja hafi
gerst sekir um hnupl og ójafnað, þótt ekki sé eins mikið gert úr ránum
þeirra og í „Spönsku vísum.“ Jóni var hins vegar ljóst að það var ekkert
réttlæti að láta alla gjalda fyrir einn, að það var löglaust hermdarverk
að drepa fjölda manns fyrir lítilfjörlegar sakir. Flestir Spánverja voru
saklausir að mati Jóns. Það vissu menn að var rétt og reyndu því að
1 Jón Espólín: Islands Árbækur ísögu formi, IV deild, Kaupmannahöfn 1825,
bls. 136.
2 „Fjölmóður. ÆvidrápaJóns lærða Guðmundssonar,“ Safn tilsögu Islands
og íslenzkra bókmennta, V, nr. 3, Reykjavík 1916, bls. 53.