Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 216
468
SIGURÐUR A. MAGNÚSSON
SKÍRNIR
Postman telur að þetta valdi því að Bandaríkjamenn séu sennilega
fáfróðasta þjóð Vesturlanda (undir þá skoðun tók bandaríska söngkonan
Joan Baez, þegar hún hélt hér tónleika fyrir fjórum árum). Bandarískt
sjónvarp miðli ekki upplýsingum, heldur einvörðungu afþreyingu.
Heimsmynd þess sé sundruð, ruglingsleg og ósönn. Rannsóknir hafi leitt í
ljós, að æ fleiri börn eigi í miklum erfiðleikum með að hugsa rökrétt eða beita
gagnrýni. Ólæsum Bandaríkjamönnum fjölgi óðfluga, svo og þeim sem lært
hafi að lesa og skrifa, en beiti aldrei þeirri kunnáttu.
Postman heldur því fram, að jafnskjótt og auglýsendur fái fótfestu í
sjónvarpi sé voðinn vís. Þeir muni smámsaman krefjast þess að auglýsingar
komi inní venjulegt dagskrárefni og loks fá því framgengt, að dagskrárefnið
verði hannað sem rammi utanum auglýsingaboðskapinn. Takmarkið sé, að
mörkin milli dagskrárefnis og auglýsinga verði sem óljósust. Sem dæmi um
hagsmunina sem í húfi eru nefnir hann, að strax og „Fyrirmyndarfaðir"
komst í efsta sæti á vinsældalistanum, rauk verðið á hverri auglýsingamínútu
í þeirri dagskrá uppí 600.000 dollara eða um 36 milljónir króna á núgengi.
Postman bendir á, að nú sé bandarísk stjórnmálabarátta nær eingöngu háð
í 30 sekúndna auglýsingamyndum. Öllum megi vera ljóst að alvarlegur
pólitískur boðskapur verði ekki fram borinn á 30 sekúndum. Pólitískar
auglýsingar höfði einvörðungu til tilfinninga áhorfandans. Mörkin milli
þjóðmálaumræðu og skemmtunar verði óljós. Þessvegna sé það fullkomlega
rökrétt að fyrrum kvikmyndaleikari í Hollywood skyldi verða fyrir valinu
sem forseti Bandaríkjanna, þareð hann kunni að leika forseta.
Postman segir að aukið framboð sjónvarpsefnis leiði til þess, að fólk horfi
æ meir á sjónvarp, sem hafi í för með sér róttækar breytingar á fjölskyldulífi.
Samskipti innan fjölskyldunnar versni, bæði milli þeirra fullorðnu og milli
foreldra og barna. Leikir barna hverfi og sömuleiðis mörkin milli bernsku og
fullorðinsára. Börn sjái fjöldamargt í sjónvarpi sem fyrrum var víðsfjarri
veröld bernskunnar. Fullorðið fólk verði barnalegra vegna þess að það sé
látlaust ofurselt ómerkilegum skemmtidagskrám og fáránlegum auglýsingum.
VIII
Auglýsingasjónvarp breytir gildismati samfélagsins, segir Postman. Boðskap
kaupskaparins er haldið að áhorfendum seint og snemma. Sjónvarp í
Bandaríkjunum hefur náð svipuðu valdi yfir hugum manna og kaþólska
kirkjan á miðöldum, með þeim afleiðingum að boðskapur kaupskaparandans
hefur svipað vægi og boðorðin tíu:
Þú skalt enga aðra guði hafa en neysluguðinn.
Þú átt að fyrirlíta allt sem er gamalt og komið úr tísku.
Þú átt að sneiða hjá öllu sem er flókið.
Þú átt æ og ævinlega að vera óánægður með að þurfa sífellt að auka
neysluna í von um að verða ánægður.
Neil Postman er ekki andvígur skemmtiefni í sjónvarpi, en varar eindregið