Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 163
SKÍRNIR „1 ÞESSU HERBERGIHEFUR BÚIÐ DOKTOR'
415
Eins og allir vita eru hrossabjúgu nútímans í rauðgljáandi garnarlíki
úr plasti sem gerir þau afar sleip að utan. Það er næstum ógjörningur
að komast inn úr plastgörninni, nema með því að reka snöggt í hana
annað hvort oddhvassan hníf eða gaffal. Til þess þarf að beita afli og
lagni.
Vegna þess að Málfríður hafði hvorugt, rak hún gaffalinn óþarflega
mikið á ská í bjúgað og ekki nógu fast til þess að tindarnir gengju inn
úr plastinu, svo það skrapp undan.
Ég sat við eldhúsborðið og beið þess að kartöflurnar mínar soðnuðu.
Allt í einu heyrði ég að eitthvað mjúkt skall í vegginn og hoppaði burt
eins og svampbolti. Ég leit upp og sá að Málfríður stóð furðulostin með
gaffal og hníf á lofti og sagði:
„Hvert fór það?“
Við leituðum vandlega, en þegar við vorum viss um að bjúgað
fyndist hvergi, hættum við leit og Málfríður varð sannfærð um að
draugurinn hefði hrifsað það til sín.
Rétt í þessu sigldi Ingibjörg brosandi inn í eldhús til að gæta að
grautnum sínum. Hún baukaði lengi við pottinn og færði upp grautinn.
Þetta tók hana talsverðan tíma. Á meðan væflaðist Málfríður um, hún
væflaðist oft um eins og setning eða ljóðlína í munni skálds áður en hún
finnur rétt form og smeygir sér inn í textann, í bundið eða óbundið mál.
Þannig ráfaði hún um í skáldlegri leiðslu. Þegar hún hafði sest hnípin
á stól, sneri Ingibjörg sér að henni og spurði:
„Ætlar þú ekki að borða neitt í dag, Málfríður mín?“
„Nei,“ svaraði Málfríður. „Ég er eins og heilög Katrín frá Síena: ég
sit í svelti ef fuglar himinsins færa mér ekki mat.“
„Svona manneskja," sagði Ingibjörg og Ijómaði öll, „ég veit ekki
hvort fuglarnir færðu heilagri Katrínu korn, en búálfarnir hérna í
húsinu eru hugulsamir, þeir hafa fært mér bjúga og fáðu bita með mér.
Víst eru þeir ekki miklir matreiðslumenn, þeir hafa stungið því ofan í
pottinn með grjónagrautnum."
„Búálfarnir eru hliðhollari þér en húsdraugarnir mér,“ sagði
Málfríður öfugsnúin.
Sælar í sinni trú gæddu þær sér á bjúganu, þangað til ég kom með
sennilega tilgátu, að þær hefðu ekki gætt sér á gjöf búálfa heldur á týnda
bjúganu. Málfríður flissaði þá meyjarleg að vanda, en frú Ingibjörg reis
á fætur, döpur í bragði yfir hversdagslegum skilningi fiskætunnar.
27 — Skfmir