Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 101
SKÍRNIR
.ÍSLANDS ER ÞJÓÐ, ÖLL SÖKKT í BLÓÐ'
353
...segir hann [Þorsteinn] til síra Jóns: „Þú ert hér! Skyldir þú ekki miklu
heldur vera að kirkju þinni?“ Prestur svarar: „Eg var þar árla í morgun, nú
em eg hér, en í kvöld verð eg í himninum, að guðs vild, en ekki þinni.“ Hann
hjó (hann) þá þvert yfir ennið í sama sinn, en prestur útbreiddi báðar hendur
og sagði: „Ei þarf meira við. Drottinn Jesú meðtak þú minn anda í þínar
hendur; eg befala mig guði. Ger þú til hið frekasta maður!“ Svo fékk hann
annað höggið. Þá svarar prestur: „Nú mun nægja.“ Hjuggu þeir nú hvað af
hverju, þar til þeir sundursöxuðu hann sem fleiri.1
Þorsteins þessa er getið í Tyrkjaráns sögu Björns, en séra Ólafur minn-
ist ekki á hann í sínum texta. Sögnin er gott dæmi um sálfræði þjóð-
sögunnar, sem hneigist til að skerpa andstæður og skipa þeim í
mynstur. Þannig kallar saurgun heimsins á andhverfu sína, helgun, sem
einskonar mótvægi við hryllinginn. Segja má að Þorsteinn sé líkt og
séra Jón afsprengi þessarar hneigðar; hlutverk hans er að tengja hin and-
stæðu skaut saman. Annars kann eitthvað að vera til í þessari sögn, því
að í bréfi Benedikts Halldórssonar segir, að „þá íslenzku sé vel að var-
ast, sem þeir [Tyrkir] taka, því þeir skulu verða þúsundfalt verri en
þeir.“2 Benda heimildir til þess að norrænir, enskir eða þýskir trúskipt-
ingar hafi unnið verstu voðaverkin, eða eins og segir í Tyrkjaráns sögu
Björns: „Það er sannast talað um þessa morðingja, að þeir, sem níddust
á að drepa og saxa sundur mennina í þessum eyjahernaði, hafi verið
kristinnar trúar níðingar, sem tekið hafi þeirra trú, og hafi þessir verst
breytt, sem viðlíkir trúarníðingar eru vanir að gera, að þeir eru grimm-
astir upp á kristnina."3
í þessu samhengi er rétt að kanna hvers kyns atburðir vöktu mestan
óhug manna á meðal. Slíkt getur varpað nokkru ljósi á tilfinninganæmi
fólks, hugarheim þess og viðhorf til hins illa. Vísbendingu má finna í
þeim breytingum sem skýrsla Kláusar tók frá fyrstu gerð til yngstu
afskriftar, sem mun vera skráð um 1810. Viðaukarnir leiða í ljós hvað
fólki þótti ofboðslegast og hryllilegast á þessum tímum. Allar gerðir
skýrslunnar greina frá blóðugum hermdarverkum. Hins vegar verða
lýsingarnar smám saman fyllri og ofsafengnari auk þess sem fáeinum er
bætt við, eins og fyrr getur. Ber þar allt að sama brunni. Skal nú getið
þriggja dæma úr yngstu afskriftinni, þar sem greint er frá hryðju-
verkum í Vestmannaeyjum:
1 Sama rit, bls. 84-5.
2 „Samtíða bréf um Tyrkjaránið,“ bls. 351.
3 Tyrkjaránið á Islandi 1627, bls. 263.