Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 237
SKÍRNIR
MYNDBROT FRÁ BARNÆSKU
489
„ótal rangala opnast og vindast og litla skrýtna sali, hugsaði sér að í strýtunni
byggju dvergar jafnstórir tindátum" (BR, bls. 24-25). Og uggurinn laðar mig
að sér: „Slunginn botngróður, undir lygnum fleti smugu dökkar slöngur
völundarhús. Dimmgræn iða lagðist að augasteinum" (BR, bls. 30). Maður
fetar sig eftir rangölum þessa texta, en það furðulega er að hvar sem gripið er
niður í hann er hann einfaldur, skýr, nákvæmur og knappur í orðalagi,
slípaður.
Þetta er völundarhús einfaldleikans; flókinn söguheimur tjáður með texta
sem ætíð sýnist einfaldur.
Slík bygging verður til ekki síst vegna þess hvernig Gyrðir beitir því sem
ég nefndi myndvarp hér að framan. Einfaldar myndir byrja að teygja úr sér,
tengjast öðrum og verða lesanda óþægar. Það kann að hljóma mótsagna-
kennt, en þannig verða endurtekningar þær og hliðstæður sem áður var vikið
að ekki aðeins til að skapa hrynjandi í frásögninni, heldur leiða þær jafnframt
til þess að myndheimur verkanna verður flóknari en ella. Lítum til dæmis á
þessa málsgrein úr „Tréfiski": „Langt uppi í himinhvolfinu greiddist ský
sundur, sólargeisli stakk sér niður, skar rúðuglerið" (BR, bls. 11). Þessi orð
standa þarna auðskilin í sakleysi sínu, að því er virðist án táknþunga, en þau
tengjast fjölda annarra málsgreina þar sem fyrir ber annarsvegar gler, glugga,
einhverskonar skæni eða hjúp, og hinsvegar margskonar stungur, skurði eða
rof, eða verkfæri til slíkra athafna. Hér eru jafnvel tengsl við það þegar Friðrik
fylgist grannt með kónguló í lokasögu Bréfbátarigningarinnar: „Heljarstór
kónguló, stinnur loðinn skrokkur. Hún var að vefja flugu snyrtilega inn í
slímugan hjúp þráða, og þegar því var lokið skaut hún út hárfínu sogröri sem
hún keyrði gegnum hjúpinn og saug af sýnilegri nautn. Ég laut fram til að sjá
betur“ (bls. 127-128).
Nú væri hægt að setja hér upp tvenndarkerfi og staðsetja öðrumegin það
sem fallið getur undir táknræna fallíska valdbeitingu (stunguverkfæri) en
hinumegin ígildi þeirrar kvenhimnu sem oft er kölluð til vitnis um kyn-
ferðislegt flekkleysi; slíkan hjúp mætti kalla lífhimnu eða glerhimin
bernskunnar. Ekki er vænlegt að staðnæmast við slíkt kerfi eða festast í því,
en það hefur allnokkuð skýringargildi.
Gler hefur löngum verið áberandi í ljóðum Gyrðis og svo er einnig um
sögur hans. Glerið hefur gjarnan táknræna skírskotun til vitundarmarka.
Glerið, sem oftar en ekki er gleraugna- eða rúðugler, opnar sýn úr afheimi
vitundarinnar til umheimsins, en það veitir þó um leið vernd gegn álagi
umhverfisins. Það tákngerir hið brothætta skilrúm og jafnvægi milli innri og
ytri veraldar. Jafnvel í ævintýri íkornans má glerið ekki vanta; efri hæðirnar
í vistarveru hans eru „óíbúðarhæfar. Hriplekar. Glerlausir gluggar" (GI, bls.
68). Stundum er glerið sett á svo undarlegan stað í textanum, að lesandi er líkt
og minntur á „glerið" milli sín og söguheimsins. Heiða sér til Axels þar sem
hann kemur eftir að hafa lógað heimilishundinum: „Glerið á milli, hún sá
Axel koma með Tycho Brahe í fanginu, leggja hann í klepraðar hjólbörurnar"
(BR, bls. 35-36).
Glerið er þannig nátengt skynjuninni og um leið sjálfsmyndinni. Áherslan