Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 60
312
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKÍRNIR
lengt líf hans. Það er bæði lagalega og siðferðilega óréttmætt að þröngva
læknisaðgerð upp á mann sem hafnar henni af fullu viti og ótvíræðum
vilja. Ef ákvörðun sjúklingsins er byggð á fullnægjandi upplýsingum
um ástand sitt, skilningi á afleiðingum gerða sinna, og er auk þess í fullu
samræmi við lífssýn hans og siðferðisviðhorf, þá kem ég ekki auga á rök
sem gætu vegið svo þungt að hunza beri vilja sjúklingsins. Að virða
slíka ákvörðun getur verið lykillinn að því að auðvelda einstaklingnum
að deyja með reisn, þannig að hann haldi sjálfræði sínu og sjálfsvirðingu
til hinztu stundar.1
Vart þarf að taka fram að sé sjúklingur of veikur til þess að meðtaka
upplýsingar eða vanhæfur af einhverjum öðrum ástæðum til þess að
skilja þær, á hugmyndin um samræður, sem hafa það að markmiði að
auðvelda sjúklingi að rækta sjálfræði sitt, ekki lengur við. I þeim
tilvikum getur þó komið til kasta aðstandenda sjúklingsins og
heilbrigðisstarfsfólks að taka ákvarðanir sem miða að því að virða
sjálfræði hinnar deyjandi manneskju í samræmi við þá þekkingu sem
þeir hafa á vilja hennar og viðhorfum.2 Þegar læknisaðgerðir eru orðnar
sjúklingum hvorki til „gagns né nytsemdar"3 og stríða gegn vilja þeirra,
eins og við fáum í hann ráðið, þá eru þær farnar að gera honum illt. Því
getur verið rétt að hætta þeim aðgerðum sem lengja dauðastríð og
einbeita sér að hjúkrun og aðhlynningu deyjandi manneskju.
Þetta sýnir vel mikilvægi þess að aðstandendur sjúklingsins, læknar
og aðrir sem annast hann geti sætt sig við dauða sjúklingsins. Fyrir utan
1 Gunnar Rúnar Matthíasson, sem er að læra til sjúkrahúsprests, segir í
viðtali við Morgunblaðið 5. janúar 1990: „Það er stórmerkileg reynsla að að
vera með einstaklingi sem er að deyja. Það getur verið mjög upplífgandi,
ef svo má segja, einkanlega ef viðkomandi nær því að vera sjálfur við stjórn
fram í andlátið. Ég hef verið með manni sem [...] tók sjálfur ákvörðun um
að þiggja ekki meira blóð. Þannig gat hann verið sjálfur við stjórn fram á
síðustu stund. Hann gat gengið frá sínum málum og það var mjög
áhrifamikið að vera vitni að því.“
2 Sjá vandaða umræðu um þetta hjá Allen E. Buchanan & Dan W. Brook,
Deciding for Others. The Ethics of Surrogate Decision Making. Cam-
bridge University Press 1989.
3 Sbr. orðalag Hippokratesareiðsins: „Þær einar fyrirskipanir mun ég göra,
er séu sjúklingum mínum til gagns og nytsemdar, eftir því sem þekking mín
og dómgreind frekast fær ráðið. Forðast mun ég að aðhafast nokkuð illt
eðaóréttláttgagnvartþeim." Siðamál lækna. Lœknablaðið. Fylgirit gefið
út í tilefni af læknaþingi 1977.