Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 40
292
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKÍRNIR
Þessi flótti tmdan lífi og dauða gerir okkur ókleift að ná tökum á eigin
tilveru. Við fleygjum okkur út í hvers kyns verkefni, vinnu og af-
þreyingu - allt sem hægt er að gleyma sér við. En þegar við gleymum
okkur með þessum hætti og vanrækjum sjálf okkur og skyldurnar við
náungann, getum við ekki dáið á réttum tíma.
En hvernig er hægt að vera reiðubúinn að deyja hvenær sem er? Þeir
Hallgrímur og Nietzsche virðast báðir líta svo á að forsenda þess sé að
sigrast á óttanum við dauðann. „Dauði ég óttast eigi, afl þitt né valdið
gilt“, yrkir Hallgrímur. Nietzsche gengur mun lengra og dásamar
hetjulegt hugrekki andspænis dauðanum. Heimspekingar hafa líka
löngum haft tilhneigingu til þess að gera lítið úr óttanum við dauðann,
og á það ekki sízt við um marga hinna fornu spekinga. Sókrates hélt því
fram að dauðinn væri ávinningur hvort sem hann væri endir alls
vitundarlífs eða „flutningur sálar úr einum dvalarstað í annan“, eins og
Platon kemst að orði.1 Því annaðhvort er hann eins og draumlaus svefn,
sem allir þrá, eða þá að hann er eins og vinafagnaður og endurfundir
ástvina. Illt líferni getur þó spillt fyrir þessum síðarnefnda kosti, því
eins og alkunna er flytur sálin „ekkert með sér til Hadesarheims nema
menntun sína og siðferði“.2 Þess vegna getur ekkert grandað góðum
manni, hvorki lífs né liðnum. Og stóuspekingurinn Epiktet bendir
okkur á að dauðinn sé eins og hver önnur staðreynd eða atburður sem
við þurfum að bregðast við í lífinu. Hann hvetur menn til að vinna bug
á óttanum við dauðann með því að aga viðhorf sín, hugsa sig í sátt við
örlög sín:
Ekki eru það atburðirnir sjálfir sem áhyggjum valda, heldur horf manna við þeim.
Dauðinn er t.d. ekki skelfilegur, ella hefði hann einnig komið Sókratesi þannig fyrir
sjónir. Skelfileg er einungis sú skoðun, að dauðinn sé skelfilegur.3
Þessir spekingar gera það nánast að mælikvarða á þroska einstak-
lingsins hversu æðrulaus hann er gagnvart dauða sínum. Rómverjinn
1 Platon, „Málsvörn Sókratesar", þýð. Þorsteinn Gylfason og Sigurður
Nordal, Síðustu dagar Sókratesar (Reykjavík: Hið íslenzka bókmennta-
félag 1973), s. 70.
2 Platon, „Faídon“, þýð. Þorsteinn Gylfason og Sigurður Nordal, Síðustu
dagar Sókratesar (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 1973), s. 187.
3 Epiktet, Hver er sinnar gxfu smiður, þýð. Broddi Jóhannesson (Reykjavík:
Isafoldarprentsmiðja 1955), s. 12