Skírnir - 01.09.1990, Side 271
FREGNIR AF BÓKUM
Skáldskaparmál. Tímarit um íslenskar bókmenntir fyrri alda. I. Ritstjórar
Gunnar Harðarson, Gísli Sigurðsson og Örnólfur Thorsson. Stafaholt,
Reykjavík 1990.
Ekki veit ég hvort brýn þörf er fyrir nýtt tímarit á íslandi til að birta efni af
því tagi sem Skáldskaparmálum er ætlað að sérhæfa sig í og enn síður hvort
hægt er að fá nógu marga áskrifendur til að því geti orðið lífdaga auðið, en
það er alltaf gaman að sjá ýtt úr vör af metnaði og bjartsýni eins og hér er gert.
Þetta fyrsta hindi er reyndar afrakstur af ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík
vorið 1989 að frumkvæði ritstjóranna.
Þótt greinasafn þetta sé þannig til komið fyrir frumkvæði einstaklinga er
ljóst að það er nátengt kennslu og fræðastarfi við Háskóla íslands. Af tuttugu
höfundum eru bara tveir, Jakob Benediktsson og Keld Gall Jorgensen, sem
ekki hafa stundað þar nám og lokið einhverjum prófum, en þessir tveir hafa
starfað þar, kennt og leiðbeint, annar um ára-, hinn um áratugabil. Af þeim
sem eftir eru hafa langflestir stundað nám á áratugnum 1975-1985, og það er
athyglisvert að meirihluti þessa hóps hefur einnig sótt sér menntun til
erlendra háskóla. Greinarnar bera þess líka merki að höfundar fylgjast með
í bókmenntafræðilegri umræðu; Shklovskíj og Bakhtín, Eco og Barthes,
Genette og Todorov, Derrida og Kristeva, Jauss og Ricœur eru meðal þeirra
alþjóðlegu nafna sem skírskotað er til, fyrir utan höfunda sem fjalla um
norræn fræði sérstaklega. Eftir inngangi að dæma virðast ritstjórarnir hafa
verið smeykir um að menn í útlöndum héldu að á íslandi væru ekki stunduð
nema heldur gamaldags fræði, og hefur þeim tekist að afsanna það rækilega
með heftinu. Ókunnugir gætu jafnvel freistast til að halda að þeirri háskóla-
deild væri ekki alls varnað þar sem þessi hópur hefur menntast og starfað.
Það er erfitt og vafalaust villandi að reyna að alhæfa um greinar eftir svo
marga höfunda, en þó er það freistandi. Ef til vill verður síðar meir talað um
seinni íslenska skólann - eða jafnvel póstskólann! Hver verða talin einkenni
hans? Hér birtist enginn áhugi á textafræði og mjög takmarkaður áhugi á
sagnfræðilegu gildi. Þegar borið er saman við rannsóknir erlendra fræði-
manna vekur athygli lítil fyrirferð þess sem kalla mætti mannfræðilegar og
goðsagnafræðilegar spurningar. Sagt er frá athyglisverðum orðstöðulykli sem
vafalaust á eftir að veita margvíslega vitneskju með hjálp tölvutækninnar. í
fáeinum greinum kemur sérstaklega fram lærdómur í miðaldafræðum og
viðleitni til að skilja í ljósi þeirra hvernig höfundar fornbókmennta hafa
hugsað. Langmest fer fyrir því sem kalla mætti bókmenntarýni, og í sambandi
við hana bókmenntafræðilega umræðu, og þá með skírskotun til táknfræði
og túlkunarfræði og jafnvel þeirra fræða sem af þeim eru sprottin og kennd
hafa verið við eftirformgerðarstefnu og sundurtekt. Mjög er það mismunandi
hve stig sértekningar er hátt, og víðast hvar halda höfundar sig tiltölulega
nálægt textunum. Mest er fjallað um íslendingasögur, eins og við var að búast,
en annars er víða komið við. Hér kemur fram áhugi á Sturlungu og áhugaverð