Skírnir - 01.04.1993, Page 22
16
FRIEDRICH NIETZSCHE
SKÍRNIR
aukagetu hefði mannveran haft fulla ástæðu til að flýja sem skjót-
ast eins og sonur Lessings forðum.1 Hrokinn sem fylgir þekking-
unni og skynjuninni hylur augu og skilningarvit manna í þoku og
villir þeim sýn á raunverulegt verðmæti tilverunnar, því hann
skjallar og ofmetur þekkinguna. Þekkingin sem slík er blekking-
artæki - og því er sérhver athöfn hennar að einhverju leyti sama
marki brennd.
Vitsmunirnir þjóna því hlutverki að viðhalda einstaklingnum
og er megintilgangur þeirra að villa á sér heimildir. Með því móti
geta nefnilega veikburða og þróttlitlir einstaklingar, sem er ókleift
að berjast með kjafti og klóm rándýrsins, haldið sér við. Listin að
villa á sér heimildir nær hámarki hjá mannskepnunni: hér eru alls-
ráðandi blekking, skjall, svik og prettir, baktal, yfirborðs-
mennska, tildur, grímuklæðnaður, hulur hefðarinnar, sýndar-
mennska gagnvart sjálfum sér og öðrum, í stuttu máli sagt eitt
allsherjar flökt í kringum hégómans eilífa loga. Af þessum sökum
er næstum óskiljanlegt hvernig heiðarleg og hreinskiptin sann-
leikshvöt skuli yfirleitt hafa komið upp með mönnum. Þeir eru
svo djúpt sokknir í tálsýnir og draummyndir að augu þeirra líða
eftir tómu yfirborði hlutanna og sjá ekkert nema „form“, skynj-
un þeirra leiðir þá aldrei í sannleika um neitt heldur lætur sér
nægja að taka við áreitum og leika svo að segja fálmandi á röngu
hlutanna. Alla sína ævi lætur maðurinn ljúga að sér í draumi á
nóttunni, án þess að siðferðiskennd hans veiti því minnsta við-
nám: hins vegar eiga að vera þess dæmi að mönnum hafi tekist að
venja sig af hrotum með viljastyrknum einum saman. Hvað ætli
maðurinn viti svo sem um sjálfan sig! Já, ætli hann geti, þó ekki
væri nema einu sinni, virt sjálfan sig fyrir sér liggjandi í allri sinni
dýrð eins og í upplýstum glerkassa? Leynir ekki náttúran hann
1 Gotthold Ephraim Lessing (1729-1781) var einn merkasti og áhrifamesti leik-
ritahöfundur, skáld og gagnrýnandi Þýskalands. Hann varð mikilvirkur full-
trúi upplýsingar og skynsemishyggju í anda Gottfrieds Wilhelms Leibniz
(1646-1716) og Christians Wolff (1679-1754). Fratgasta leikrit Lessings er án
efa Nathan der Weise (Natan spaki, 1779). Hér vísar Nietzsche til þess at-
burðar er Lessing missti son sinn barnungan árið 1777, en frásögnin af því
þótti síðar dæmigerð fyrir harmsögur klassíska tímabilsins í Þýskalandi. (Allar
neðanmálsgreinar eru athugasemdir þýðenda.)