Skírnir - 01.04.1993, Blaðsíða 26
20
FRIEDRICH NIETZSCHE
SKÍRNIR
hugtakið laufblað myndað með því að hafa að engu þennan ein-
staklingsmun og gleyma mismuninum. Þá vaknar sú hugmynd að
í náttúrunni hljóti að vera til einhver hlutur sem er „laufblað",
nokkurs konar frummynd sem öll laufblöð væru ofin, teiknuð,
mæld, lituð, mótuð og máluð eftir, nema hvað nokkuð skortir á
handlagnina svo að ekkert eintak verður alveg nákvæm og áreið-
anleg eftirmynd frummyndarinnar. Við segjum að einhver maður
sé „heiðarlegur" og spyrjum: hvers vegna breytti hann svona
heiðarlega í dag? Vanalega svörum við sem svo: vegna þess að
hann er heiðarlegur. Heiðarleikinn! Þar höfum við það aftur:
laufblaðið er orsök laufblaðanna. Við vitum að vísu ekkert um
einhvern eðlislægan eiginleika sem heitið gæti „heiðarleiki", en
við vitum hins vegar um ótal margar einstaklingsbundnar og þar
með ólíkar athafnir, sem við samsömum með því að afmá mis-
muninn og köllum þær eftirleiðis heiðarlegar athafnir. Að end-
ingu skilgreinum við þær sem einhvers konar qualitas occulta5 og
gefum þeim nafnið: heiðarleiki.
Við myndum hvorttveggja hugtök og form með því að leiða
hjá okkur einstaklingsbundinn veruleikann. Náttúran þekkir hins
vegar hvorki form né hugtök og því ekki heldur neinar tegundir,
heldur einungis eitthvert óaðgengilegt og óskilgreinanlegt X. Eins
er andstæðan milli einstaklings og tegundar hrein mannhverfing
sem sprettur ekki af eðli hlutanna. Að vísu væri ekki heldur þor-
andi að halda því fram að hún samsvari ekki eðli hlutanna: því
það væri kredda og sem slík jafn ósannanleg og andstæða hennar.
Hvað er þá sannleikur? Olgandi herskari myndhverfinga,
nafnskipta, mannhverfinga, í stuttu máli sagt samsafn mannlegra
tenginga sem hafa verið ýktar, yfirfærðar og skrýddar af mikilli
skáldskaparlist og málsnilld og hafa gegnum aldirnar öðlast fast-
5 Lat.: Leyndur eiginleiki. Einkum í náttúruspeki fornaldar og miðalda voru
slík fyrirbæri og eiginleikar þeirra, sem ekki er hægt að rekja til einhvers
„frumeiginleikanna fjögurra" (sbr. Aristoteles, De cat. 8a 26 og áfram), og eru
því ekki skynjanleg sjálf, kölluð „leyndir eiginleikar“. Dæmi um slíka eigin-
leika eru áhrif stjarnanna á jarðnesk fyrirbæri, flóð og fjara, rafmagn og sér-
staklega áhrifamáttur lækningalyfja. Hjá Nietzsche verður qualitas occulta að
skammaryrði um það, þegar menn verða rökþrota og grípa til „yfirnáttúru-
legra“ skýringa.