Skírnir - 01.04.1993, Side 45
SKÍRNIR
VIÐ RÆTUR MANNLEGS SIÐFERÐIS
39
hengd í sjálfsvorkunn á hið meinlausa sjálf lítilmagnans. Hið
góða er því eins og eftirþanki þrælasiðferðisins, ekki frumhæfing
eins og hjá stoltum höfðingjunum. Enda verður að gæta að því að
hér er um alls ólík gæðahugtök að ræða. Hugtakatvennd höfð-
ingjasiðferðisins góður/lélegur er ekki sú sama og tvenndin góð-
ur/illur sem þrælasiðferðið getur af sér, því frá bæjardyrum höfð-
ingjans er það hinn lélegi sem er orðinn góður að gildismati þræl-
anna, en hinn góði og göfugi er hinn illi. Þetta er mikilvægt að
hafa í huga í sambandi við bókartitilinn Handan góbs og ills, sem
Nietzsche benti sjálfur á að væri hættuleg nafngift. Þótt hann feli
í sér tilraun til þess að stíga út yfir hugsunarhátt þrælasiðferðis-
ins, þá er ekki þar með sagt að öllu siðferði sé hafnað.
Þrælarnir leitast sem sé við að umbylta gildum höfðingjanna
og snúa hlutunum sér í hag. En hvernig fara þeir að? Það er ljóst
að stöðu sinnar vegna getur þrællinn ekki með góðu móti gengið
hreint til verks eins og sá sem valdið hefur. Hann verður að út-
hugsa og þróa með sér óbeinar leiðir til þess að tjá vilja sinn til
valds. Þess vegna einkennist þrælslundin af undirferli og slægð;
þau eru leiðir til að lifa af erfiðar aðstæður og sigrast á andstæð-
ingnum. Hugtakið krœðslugœði lýsir því vel einu megineinkenni
þrælasiðarins, en um það segir Sigurðar Nordal:
Mildi og miskunn, friðsemd og tillátssemi skræfunnar eru einskis verðar,
enda geta þær snúizt upp í illmennsku, hvenær sem unnt er að leyna
henni eða sleppa við víti fyrir hana. Verkin eru hér metin eftir því hugar-
fari, sem þau eru sprottin af. Sjálf eru þau að vísu söm, hvort sem þau eru
gerð af ótta, í gróða skyni eða af öðrum lélegum hvötum, sem búnar eru
grímu höfðinglyndis. En maðurinn, sem vinnur þau, er ekki samur. Og
öðrum gerir það allan mun, hvort þeir geta treyst honum eða búast má
við því þá og þegar, að hann snúist til svikráða.1-
Þetta er býsna Nietzsche-skotinn kafli. Meginmunurinn á
þeim manngerðum, sem þrælasiðferðið elur af sér annars vegar og
höfðingjasiðferðið hins vegar, er að höfðinginn er gegnumheill og
allur þar sem hann er séður, en þrællinn venst á að bregða fyrir
sig ólíkindalátum og yfirdrepsskap sem erfitt er að henda reiður
12 Islenzk menning I, s. 194.