Skírnir - 01.04.1993, Page 46
40
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKÍRNIR
á. „Geymt en ekki gleymt“ eru einkunnarorð hans, langrækin
hefnigirni og öfund eitra sál hans. „Sál hans lítur útundan sér;
andi hans elskar felustaði, leynistigu og bakdyr [...]“ (GM I 10).
Hann er músin sem læðist, flagð undir fögru skinni og hefur því
fleiri en einn mann að geyma. Höfðinginn, aftur á móti, er bæði
of stoltur og of grunnhygginn til að vera með svona látalæti -
hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur, kann ekki þá
list að villa á sér heimildir, enda hefur hann hvorki löngun né
ástæðu til þess: hann er ánægður með sig eins og hann er.
Það er þrællinn aftur á móti ekki, eins og gefur að skilja. Þar
eð þrælasiðferðið er samkvæmt skilningi Nietzsches öðru fremur
viðbragð lítilmagnans við erfiðum aðstæðum og kúgun, segir
hann grunnhugsun þess vera nei-kvæða. Þrællinn kveður nei við
veruleika sínum og þeim öflum sem hann hræðist, öfundar og
hatar. Hann þjáist yfir veröldinni eins og hún er því hún svarar á
engan hátt óskum hans og þörfum. Þetta verður eitt megintilefni
tómhyggjunnar en lífsskoðun fulltrúa hennar lýsir Nietzsche
með þessum orðum: „Níhilisti er maður sem segir um heiminn
eins og hann er að hann ætti ekki að vera og um heiminn eins og
hann ætti að vera að hann sé ekki til“ (KSA 12, 9 [60]). En jafn-
framt verður þessi heimsafneitun, þessi óánægja þrælsins með að-
stæður sínar, aflvaki mikillar sköpunar sem og umbyltingar. Til
þess að takast á við þau tilvistarkjör sem þrælnum eru búin, gríp-
ur hann til þess ráðs að smíða hugmyndakerfi sér til halds og
trausts. Ahrifamesta sköpunarverk þrælasiðferðisins er Guð og
heimkynni hans handan hins jarðneska veruleika. Þannig finnur
lítilmagninn leið til þess að takast á við flest það sem háir honum
í þessum heimi. Frá siðferðilegu sjónarmiði er mikilvægasta hlut-
verk Guðs að hann er yfirnáttúrlegur grundvöllur gilda, dómstóll
sem hægt er að áfrýja mannasetningum til. Þar með er siðferðið
hafið upp af vettvangi manna og skilið frá þeim grunni verka og
manngerðar sem höfðingjasiðferðið er reist á. Þrælasiðferðið er
siðfræðileg yfirbygging lögmála og boðorða sem taka til allra
jafnt, burtséð frá persónulegum verðleikum þeirra eða félagslegri
stöðu. Athafnir eru dregnar í dilka réttlætis og ranglætis sem gera
engan mannamun og setja hinum sterka og göfuga sömu mörk og
lítilmagnanum. Þessi útjöfnun hefur einkennt framþróun vest-