Skírnir - 01.04.1993, Síða 52
46
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKÍRNIR
spekingar, vísindamenn, listamenn - sem aðhyllzt hafa „hugsjón
meinlætanna“.21 Þyngst á metunum vega verk meinlætaprestsins
sem beinir öfundarhatri fjöldans í nýjan farveg; hann kennir fólki
að áfellast sjálft sig sem syndara í stað þess að leita sökudólga.
Þannig býr hann í haginn fyrir samfélag og siðmenningu. Með
því að afneita lífsöflunum hefur hann á sinn hátt stuðlað að varð-
veizlu lífsins, þótt þessar „mannbætandi" aðgerðir hafi jafnframt
„sýkt“ mannskepnuna enn frekar, þ.e. aukið þjáningu hennar og
sektarkennd. En hún getur afborið það vegna þess að nú hefur
þjáningin öðlazt merkingu, tilgang sem þó felur í sér tómhyggj-
una sjálfa: „þessi þrá eftir að losna undan sýndinni, breytingunni,
verðandinni, dauðanum [...] allt þetta þýðir [...] andóf gegn
frumskilyrðum lífsins" (GM III 28). Mikilvægi meinlætanna felst
þá endanlega í því að lífsafneitun þeirra er óhjákvæmilegur und-
anfari þeirrar endurlausnar og lífsjátunar sem koma skal.
Fjórði dilkurinn sem ég vil draga siðagagnrýni Nietzsches í er
siðferðilegur. Ég nefni þennan þátt sérstaklega til þess að það sé
skýrt að þótt Nietzsche greini siðferðið alltaf í tengslum við
sögulega, félagslega og sálfræðilega þætti, þá liggja líka „hrein“
siðferðileg sjónarmið gagnrýni hans til grundvallar. Þetta felst í
orðum hans þegar hann lýsir verkefni sínu í Sifjafræði siðferð-
isins:22
Við skulum orða hina nýju kröfu: við þörfnumst gagnrýni siðferðilegra
gilda, spyrja verður um gildi þessara gilda - og til þess þarf þekkingu á
þeim skilyrðum og aðstæðum sem þau eru sprottin af [...]. Menn hafa
tekið gildi þessara „gilda“ sem gefið, sem staðreynd hafna yfir allan vafa;
menn hafa hingað til aldrei efazt um eða hikað við [...] að telja „hinn
góða“ meira virði en „hinn illa“, meira virði í þeirri merkingu að hafa
stuðlað að framför og farsæld mannsins almennt (þar á meðal framtíð
hans). (GM Formáli 6)
21 Þriðja ritgerð GM er um þetta. Sjálfur lifði Nietzsche hálfgerðu meinlætalífi,
sbr. Walter Kaufmann, Nietzsche. Philosopher, Psychologist, Antichrist
(Princeton, NJ: Princeton University Press 1974), I. hluti og Karl Jaspers,
Nietzsche. Einfiihrung in das Verstdndnis seines Philosophieren (Berlin: de
Gruyter 1935), 1. bók.
22 Sbr. einnig orð hans um merkingu tómhyggjunnar: „Að hin æðstu gildi fella
sjálf gildi sitt“ (KSA 12, 9[35]).