Skírnir - 01.04.1993, Page 58
52
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKÍRNIR
ingur einstaklingsins, heldur lýtur hún lífinu sjálfu. Einstakling-
urinn gefur lífi sínu gildi með því að fagna forgengileika og óvissu
lífsins. Hin káta alvara í lífsins leik birtist í formi þess sem
Nietzsche kallar amorfati:
Forskrift mín að mikilleik manneskjunnar er amor fati: að maður vilji
ekkert öðru vísi en það er - hvorki fram á við né aftur á bak, aldrei að ei-
lífu. Ekki bara að láta sig hafa það, ennþá síður að hylma yfir það [...],
heldur elska það. (EH Af hverju ég er svona klár, 10)
Styrkur manns og stórmennska birtist sem sé í því að elska örlög
sín - kveða já við tilvistarkjörum sínum. Nátengd þessu er hug-
mynd Nietzsches um eilífa endurkomu hins sama. Hún virðist
vera í senn frumspekileg kenning um eilífa hringrás veruleikans
og siðferðilegur prófsteinn á sálarstyrk manna. Sá sem elskar ör-
lög sín getur viljað að allt endurtaki sig eða komi aftur - ekki sízt
hans eigið hversdagslega líf. Þetta verður ofurmenninu hvatning
til þess að líta á líf sitt sem listaverk sem á að geta staðið um aldur
og ævi.
En hvernig fer það saman að tala um örlög og list - nauðsyn
og sköpun? Nietzsche segir í einu orðinu að menn eigi að sætta
sig við það og gleðjast yfir því sem þeir fá ekki breytt og í hinu
orðinu hvetur hann þá til þess að vinna að sjálfum sér. Að vísu
segir hann heimspeki skraddarans, „fötin skapa manninn,“ eiga
við um flesta, en í undantekningartilvikum skapi maðurinn fötin
(MAM II 325). Slíkar undantekningar eru ofurmenni sem hafa
tileinkað sér þá „miklu og sjaldgæfu list“ að móta skapgerð sína,
eins og Nietzsche kemst að orði (FW 290). Það gera þeir með því
að kynnast veikleikum sínum og styrk, berja smátt og smátt í
skapgerðarbrestina og virkja krafta sína í þágu lífsins. Þetta verð-
ur einungis gert með þrotlausri vinnu og daglegum aga en upp-
skeran er heilbrigð sjálfsánægja, sjálfsþekking og sjálfsvirðing. Og
sé nokkurt eitt atriði nauðsynlegt manneskjunni þá er það sjálfsá-
nægja. Því „sá sem er óánægður með sjálfan sig,“ segir Nietzsche,
„er ávallt reiðubúinn að hefna sín, og við hin verðum fórnarlömb
hans“ (FW 290). Hér er því um það að ræða að sigrast á öfundar-
hatrinu sem eitrar þrælslundina - að öðlast ávinning frelsisins.