Skírnir - 01.04.1993, Page 104
98
GÍSLI PÁLSSON
SKlRNIR
mannfræðina því svipaðra sjónarmiða hefur gætt í öðrum fræð-
um, til að mynda hagfræði (McCloskey 1985). Samanburður og
alhæfingar hafa orðið að víkja fyrir skáldskap og sjálfhverfri
naflaskoðun. Ef þetta er haft í huga er Kristnihaldið ákaflega
nútímaleg mannfræði. Kristnihaldið er þó ekki einungis andófsrit,
það gengur mun lengra. Séra Jón bendir á leið út úr ógöngum
póstmódernismans; hann er málsvari hversdagslegrar reynslu
andspænis því ofurvaldi texta og hugtaka sem löngum hefur ein-
kennt vestræn fræði, hugsuður sem sver sig í ætt við alla þá sem
setja daglegt strit og lifandi orðræðu á oddinn, m.a. Martin
Heidegger, Mikhail Bakhtin, Pierre Bourdieu og Richard Rorty.
Spyrja má hvað hafi valdið því að Halldór Laxness sneri sér að
kenningalegum viðfangsefnum af þessu tæi. Sjálfsagt hefur breytt
afstaða hans til trúarlegra efna og stjórnmála, einkum og sér í lagi
uppgjör hans við kennisetningar katólsku og sósíalisma, haft sitt
að segja og víst er að höfundur Kristnihaldsins var vel að sér í
þeim félagslegu og heimspekilegu kenningum sem ofarlega voru á
baugi meðal samtímamanna hans bæði heima og erlendis. Einnig
má benda á að vangaveltur Halldórs um ferðasögur voru að sumu
leyti eðlilegt framhald af rannsóknum hans á íslenskum
miðaldahandritum, áreiðanleika þeirra og túlkun. Síðast en ekki
síst hafa annmarkar og eiginleikar ferðasagna verið Halldóri hug-
leikið efni vegna þess, eins og þegar er nefnt, að sjálfur brá hann
sér oft í hlutverk ferðalangs og ferðasöguritara. I fyrsta lagi fór
hann markvisst í langferðir á vissum skeiðum ritferils síns. Stund-
um var tilgangurinn fyrst og fremst að flýja hversdagslegt amstur,
fá næði til að skrifa og öðlast sálarheill, en einnig og ekki síður
vakti fyrir Halldóri að læra af skarkala heimsins og sækja sér
innblástur í nýtt umhverfi, líkt og hann væri mannfræðingur á
vettvangi, hvort sem það var meðal kotbænda í Jökuldal eða
skáldjöfra í Kaliforníu. I annan stað minnir lýsing Halldórs á ís-
lensku samfélagi furðu oft á vettvangslýsingu mannfræðings.
Lýsingin kemur heimamönnum gjarna skemmtilega á óvart, eins
og sá sem skráði hana hafi komið úr öðrum menningarheimi eða
af annarri plánetu, en oft reynist hún býsna sannfærandi þegar
betur er að gáð. Margir mannfræðingar hafa sótt í smiðju skálda
sem skrifa trúverðugar sögur fullar af félagslegu innsæi (sjá t.d.