Skírnir - 01.04.1993, Page 241
SKlRNIR
MEÐ ÍSLAND Á HEILANUM
235
Dufferin lávarður (1826-1902) var af írskum aðalsættum. Hann var
snjall ræðumaður og rithöfundur, hann náði umtalsverðum frama í
breskum stjórnmálum og gegndi ábyrgðarembættum víða erlendis.
Hann var aðstoðarráðherra yfir Indlandi og landsstjóri í Kanada frá 1872
til 1878. Hann bauð einhverju sinni velkomna íslenska innflytjendur,
sem tekið höfðu sér bólfestu í grennd við Winnipeg-vatn, með þeim
orðum að engin þjóð ætti „fremur skilið að setjast að hér meðal okkar.
Heimurinn stendur í þakkarskuld við ykkur fyrir að hafa fundið þessa
heimsálfu fyrstir þjóða“. Þegar hann sigldi Foam um norðlægar slóðir á
sínum yngri árum bjó hann yfir sama lífsþrótti og hugrekki og víking-
arnir sem hann dásamaði svo mjög í ferðabók sinni.
Bókin er skrifuð á formi þrettán bréfa Dufferins til móður sinnar og
á fyrstu síðum hennar rekst lesandi á lista yfir helstu persónur. Listinn
gefur ágæta hugmynd um anda verksins en meðal þeirra sem þarna koma
við sögu eru geit, hani (aðalpersóna kátlegrar frásagnar), ísbjörn og ís-
lenskur refur. Bréf fimm, sex og sjö lýsa Islandsheimsókninni, þar á
meðal hefðbundinni ferð til Þingvalla og Geysis. Síðari bréfin eru sneisa-
full af tilvitnunum í enskar þýðingar Thorpes á Eddukvœðum og Laings
á Heimskringlu en ólíkt flestum samtímamönnum sínum teflir Dufferin
þeim gegn útjöskuðum tuggum rómantíkurinnar, til dæmis um „dreng-
lynda íbúa norðursins“ sem hafa „frelsisástina í blóðinu" (s. 22). Hann
hæðist að slíkum hugmyndum með því að líkja ruplandi víkingum mið-
alda við ófyrirleitna kapítalista nítjándu aldarinnar. Islendingar nútímans
lifa aftur á móti, að sögn Dufferins, einföldu lífi í sátt við náttúruna og
feðraveldið (s. 30). I þessu efni fetar hann, líkt og margir höfundar ferða-
lýsinga fyrr og síðar, í fótspor sagnfræðingsins Tacítusar sem tyfti róm-
verska lesendur til forna með frásögnum sínum af dyggðum prýddum
íbúum Bretlandseyja.
Lýsingar Dufferins á íslensku landslagi hafa sérstöðu gagnvart eldri
lýsingum. Á einhvern hátt er stíliinn í senn nákvæmur og hlaðinn: „Þeg-
ar maður nálgast ströndina minnir hún mjög á strendur Skotlands en þó
er allt hamslausara, yfirbragðið hreinna, birtan skærari, loftið tærara,
fjöllin hærri og brattari, hrikalegri [...] og hrjóstrugri" (s. 23). Lýsing
Dufferins á Almannagjá er svohljóðandi: „Lóðréttir hamraveggirnir
teygðu sig upp, beggja vegna grænu grasræmunnar sem þakti gjábotninn,
rétt eins og vatn Rauðahafsins hlýtur að hafa teygt sig upp á hvora hlið
ísraelsmannana á flóttanum" (s. 67). Þingvellir og nágrenni:
í forgrunni lágu gríðarstórar grjót- og hraunhellur á víð og dreif, líkt
og rústir heims sem hrunið hafði til grunna. Vatnið sem um þær lék
var skærgrænt eins og gljáfægt malakít. Lengra í burtu stóðu fjöllin í
fjarlægum hnapp, girt gegnsæjum litskrúðugum hillingum sem eru
einstæðar í Evrópu. Fjöllin litu yfir hvers annars öxl ofaní silfraðan
spegilinn sem lá við fætur þeirra. (s. 68)