Skírnir - 01.04.1993, Síða 292
SKÍRNIR
FREGNIR AF BÓKUM
286
En nú er öldin önnur, og má segja að á síðustu fimm til sex árum hafi
orðið kaflaskipti. Islenskar bækur koma út hver af annarri í þýskum
þýðingum, og eitt þekktasta bókmenntatímarit Þýskalands, die horen,
sló öll sölumet sín með Islandshefti árið 1987. Þeir sem mest og best hafa
unnið að þessum umskiptum eru skáldið og leiklistarfrömuðurinn Wolf-
gang Schiffer og Johann P. Tammen ljóðaþýðandi og ritstjóri die horen.
Bæði ljóðasöfnin sem hér um ræðir eru tvítyngd: íslensku ljóðin á
vinstri síðu og þýsku þýðingarnar á síðunni gegnt þeim. I Geahnter
Fliigelschlag eru 55 ljóð úr öllum sjö Ijóðabókum Stefáns Harðar, að vísu
aðeins eitt úr þeirri fyrstu, Glugginn snýr í norður. Ljóðin eru þýdd af
þeim Franz Gíslasyni og Wolfgang Schiffer, nema tvö sem Gert Kreutz-
er hefur þýtt („Mikilleikur" og ,,Þá“), og tvö eru unnin uppúr hráþýð-
ingu Gunthers Wigands („Vetrardagur" og „Van Gogh“).
Bók Stefáns Harðar hefur vakið umtalsverða athygli í Þýskalandi, og
hafa mér borist í hendur tveir einkar lofsamlegir dómar, annar úr stór-
blaðinu Die Zeit (Andreas Kilb), hinn úr Tageszeitung í Berlín (Thomas
Fechner-Smarsly). Báðir bera ritdómararnir lof á tærleik og hnitmiðun
ljóðanna, myndvísi þeirra og kliðmýkt. Báðir nefna þeir sönginn sem
helsta einkenni Stefáns Harðar. Þráttfyrir allt sem skáldið hafi við heim-
inn og mannkynið að athuga, sé trú hans á ljóðið og sönginn óbilandi og
innblási skáldskap hans sérkennilegum þrótti, ljái orðum hans nálega yf-
irskilvitlegan ljóma.
Safnritið Ich hörte die Farhe blau geymir ljóð eftir sex skáld: Hannes
Sigfússon (13 ljóð), Baldur Óskarsson (17 ljóð), Lindu Vilhjálmsdóttur
(18 ljóð), Gyrði Elíasson (16 ljóð), Ingibjörgu Haraldsdóttur (10 ljóð) og
Matthías Johannessen (10 ljóð). Þýðendur eru sex þýsk ljóðskáld: Bar-
bara Köhler, Uwe Kolbe, Gregor Laschen, Kito Lorenc, Johann P.
Tammen og Ralf Thenior. I mörgum tilvikum er sama ljóð birt í tveimur
þýskum gerðum og fróðlegt að sjá hve ólíkum tökum má taka sama efni.
Bókin hefst á ljóði eftir írska skáldið Seamus Heany, „Postkarte aus
Island“, og stuttum formála eftir Gregor Laschen, en í bókarlok ritar
Wolfgang Schiffer eftirmála um ljóðlist á Islandi, „Poesie in Eis und Feu-
er“. Loks eru birt æviágrip skálda og þýðenda og gerð grein fyrir mynd-
listarkonunni Dorotheu Reese-Heim sem gert hefur átta svartlistar-
myndir fyrir bókina.
Ich hörte die Farbe blau er fjórða bindi í bókaflokknum „Poesie der
Nachbarn" á vegum Stiftung Bahnhof Rolandseck og Kunstlerhaus
Edenkoben í samvinnu við Westdeutscher Rundfunk (WDR) í Köln.
Áður hafa komið út áþekk ljóðasöfn frá Danmörku, Ungverjalandi og
Spáni, en fimmta bindi verður helgað Hollandi.
Báðar ofannefndar bækur eru einfaldar en glæsilegar að ytra útliti og
útgefendum til mikils sóma.
Sigurður A. Magnússon