Skagfirðingabók - 01.01.1977, Blaðsíða 34
SKAGFIRBINGABÓK
dágóðan tíma frá andlátinu. Og nú er liðið á tólfta ár síðan Stefán
lézt, svo að sá hluti sáttmálans hefur a. m. k. verið haldinn.
Mikið gaman hentum við að þessu ráðabruggi, og Stefáni fannst
mjög vel við eigandi, að „hafa líkið með í ráðum“, eins og mig
minnir að hann orðaði það. Og nú var hafizt handa. Stefán sagði
mér ævisögu sína, fór með vísur og bragi. Ég skrifaði allt hvað
ég mátti, og að endingu fól hann mér ljóðasyrpu sína til varð-
veizlu. „Þú getur þá brennt henni, ef þú vilt.“
Ekki tel ég örvænt, að þær stundir, sem við skröfuðum þannig
saman, hafi létt Stefáni örlítið hið erfiða stríð. Það leyfi ég mér
a. m. k. að vona. Margt bar á góma. Oft var það, að Stefán skaut
inn í: „Þetta er nú bara fyrir þig. I guðanna bænum láttu þetta
hvergi koma fram.“ Þá stoðaði ekki, þó að ég minnti hann á, að
verkið væri unnið í þjónustu sannleikans að hans forlagi.
Ef einhver skyldi nú draga þá ályktun af framanrituðu, að
Stefán Sveinsson hafi verið galgopi mikill og alvörulaus maður,
er rétt að leiðrétta þann misskilning að bragði. Gáski hans var
allur á yfirborði, kannski aðallega vörn viðkvæmrar og heitrar
sálar. Hann var með afbrigðum samvizkusamur maður og sóma-
kær, sem ekki mátti vamm sitt vita. Ég get heils hugar tekið undir
orð náins vinar hans, Guðmundar Jósafatssonar frá Brandsstöðum,
er hann mælir eftir Stefán látinn (Tíminn 11. ágúst 1966).1 Tvennt
verður Guðmundi hugstæðast í fari Stefáns eftir 60 ára kynni:
„Drengskapurinn og gleðin. Drengskapurinn var svo ríkur þáttur
í fari hans, að það var honum svölun að standa við orð sín og
skyldur, — að „níðast á engu því, sem honum var trúað fyrir“.
— enda sýndi reynslan, að „betri voru orð hans en eiðar annarra“.
En hann rækti drengskap sinn svo hljóðlátt, svo langt frá allri
yfirborðmennsku og skrumi, að hann varð ekki aðeins sjálfsagður,
heldur engu að síður sjálfgerður hluti af Stefáni Sveinssyni.“ Og
Guðmundur ræðir um gleði og alvöru í fari Stefáns: „En það var
mér áratuga viðfangsefni, hvort ríkara var í fari hans: gleði al-
vörumannsins eða alvara gleðimannsins. Hvort tveggja var svo
samanslungið og fágað að fágætt var. En trúlegast er að þessi sam-
1 Stefán andaðist 17. júlí 1966.
32