Skagfirðingabók - 01.01.1977, Blaðsíða 44
SKAGFIRBINGABÓK
leyti ákvað Stefán að gera fornbókasölu að aðalstarfi sínu. Stund-
aði hann það til dánardags.
Eg hygg, að fornbókasalan hafi hentað Stefáni einkar vel. Hon-
um var augljóslega unun að því að lesa og umgangast bækur.
Og eins og áður hefur komið fram, var hann mjög félagslyndur
maður. Urðu því margir viðskiptavina hans góðir kunningjar hans.
Guðmundur Jósafatsson segir í áðurnefndri grein, að Stefán
hafi orðið ótrúlega fróður „um útgáfur íslenzkra bóka og um alla
gerð þeirra og sérkenni“. Þetta er áreiðanlega ekki ofmælt. Um
það get ég borið af reynslu. Það heyrði til undantekninga, ef
Stefán gat ekki leyst úr spurningum viðskiptavina sinna. Það var
hreint furðulegt, hve minni hans var traust og hversu vel hann
var heima í bókfræði. Enn undarlegra verður þetta, þegar að því
er gætt, að hann var kominn um sextugt, þegar hann fór að
stunda þessi fræði að einhverju ráði. Sýnist mér bæði á þessu og
ýmsu öðru, að það fari vart á milli mála, að Stefán hafi verið
einn þessara stálgreindu alþýðumanna, sem hefðu getað náð langt
við aðrar aðstæður.
„Náð langt,“ segi ég. Hvað er það í rauninni að ná langt? Hér
hef ég líklegast gerzt sekur um hugsunarvillu, sem algeng er
meðal minnar kynslóðar og þeirra sem eldri eru: sem sé þá að
telja að allur árangur sé fólginn í formlegri menntun og því áliti
og lífsgæðum, sem hún einatt aflar.
Náði Stefán ekki nógu langt? Hann lifði heilsteyptu lífi, sem
færði honum á stundum mikla gleði. Hann vann öll sín verk vel
og gerði ávallt skyldu sína, og oft meira. Hann stráði gleði í
kringum sig. Hann hafði heila skapgerð. Hann var svo traustur
vinur, greiðasamur og hjálpfús, að á betra varð ekki kosið. Hann
var oft veitandi, en sjaldan þiggjandi. Hann sá vel fyrir hinum
þremur börnum sínum.
Eg hygg að framangreindri spurningu hafi verið svarað játandi.
Að minnsta kosti er eitt víst, að hver sá maður, sem einungis skilur
eftir hugljúfar minningar og þakklæti samferðamanna, hefur náð
langt.
42