Archaeologia Islandica - 01.01.1998, Page 31
Fornleifaskráning
unnið við minjaskráningu Arnarnes-
hrepps 1985 en árangur hennar hefur
enn ekki verið birtur. Sama ár hóf
Bryndís Róbertsdóttir skráningu í
Biskupstungum (1987) og Ágúst Ó.
Georgsson í Stykkishólmi og nálægum
eyjum á Breiðafirði (1988; 1989). Árið
1988 hóf Guðrún Kristinsdóttir
(1996) skráningu á Austurlandi og
skráði ásamt Mjöll Snæsdóttur m.a.
Norðfjörð og Guðmundur Ólafsson
skráði friðlýstar minjar í Borgarfirði og
Mýrasýslu 1990 og nokkra staði í
Rauðasandshreppi 1994 (Guðmundur
Ólafsson 1991 b; 1994; 1996).
Allt þetta skráningarstarf byggði á
þeirri afstöðu að svonefnd fornleifa-
skrá, þ.e. friðlýsingaskrá, væri engan
veginn fullnægjandi undirstaða fyrir
fornleifavernd í landinu. I stað þess að
tína til einstaka „merkilega" minja-
staði var nú lagt kapp á að finna allar
sýnilegar minjar og stuðla að varð-
veislu þeirra með því að koma þeim
kerfisbundið á skrá í hverju sveitarfé-
lagi.
Skráning í vísindaskyni
Fornleifaskráning í sveitarfélögum var
unnin undir merkjum fornleifaverndar
fremur en sem rannsókn er snerist um
tiltekið fræðilegt vandamál. Á sama
tíma og hún efldist sem liður í minja-
vernd varð hún einnig að öflugu rann-
sóknartæki. Snemma á áttunda ára-
tugnum hafði Sigurður Þórarinsson
(1977) jarðfræðingur komið á marga
minjastaði um austan- og norðanvert
landið og gert rannsóknarskurði til að
athuga aldur mannvistarleifanna. í
fróðlegri grein sem hann birti um
könnunarferðir sínar leiddi hann rök
að því að mörg þekkt eyðibýli í há-
lendisjaðrinum væru frá elstu tíð á Is-
landi og taldist þetta til allnokkurra
tíðinda í fræðaheiminum. Á svipuðum
tíma var unnið að miklu norrænu
rannsóknarverkefni um orsakir fyrir
eyðingu byggðar á Norðurlöndum á
ýmsum tímabilum (S.Gissel et al.
1981). Islensku þátttakendurnir voru
einkum sagnfræðingar en þeir söfnuðu
miklu efni um eyðibyggðir sem kallaði
á að fundin yrðu svör við áleitnum
spurningum: Hafði orðið stórfelld eyð-
ing byggðar á ákveðnum tímabilum
Islandssögunnar, t.d. í kjölfar Svarta-
dauða eða var byggðaeyðing stað- og
tímabundin (sjá Björn Teitsson 1978;
1984; 1991)?
Árið 1978 hófst merk rannsókn í
Hrafnkelsdal og á Brúardölum þar sem
skráning mannvistarleifa var grund-
vallaraðferðin. Þar voru á ferð Páll
Pálsson, Sigurður Þórarinsson, Stefán
Aðalsteinsson og Sveinbjörn Rafnsson
og var þar unnið að skráningu með
hléum á árunum 1978 til 1985 (Svein-
björn Rafnsson 1990). Gerðir voru
uppdrættir af hverjum minjastað, og
reynt að tímasetja minjarnar með að-
ferðum gjóskulagafræðinnar. Auk þess
skráðu Sveinbjörn og Sigurður minjar í
Vestur-Skaftafellssýslu og var það hluti
af rannsóknum og útgáfu varðandi
Skaftárelda (Sveinbjörn Rafnsson
1984). Guðrún Sveinbjarnardóttir,
Paul Buckland og samverkamenn
þeirra gerðu rannsókn á eyðibyggðum
31