Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.09.2009, Síða 31

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.09.2009, Síða 31
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 4. tbl. 85. árg. 2009 27 Ritrýnd fræðigrein Nottingham Health Profile (NHP), Sickness Impact Profile (SIP) og EQ-5D (EuroQol) (Lips og Schoor, 2005). Með almennum heilsutengdum lífsgæðamælitækjum er íslenskt mælitæki sem hefur verið nefnt HL-prófið eða IQL (Icelandic Quality of Life) (Tómas Helgason o.fl., 2000). Helstu kostir almennra mælitækja er að með þeim er hægt að bera saman hópa fólks með mismunandi sjúkdóma. Sjúkdómasértæk mælitæki eru sérhönnuð fyrir ákveðna sjúkdóma, s.s. þunglyndi, hjartadrep eða beinþynningu. Sértækir spurningalistar eru næmari á þau vandamál sem ákveðnir sjúklingahópar eiga við að glíma og eru því taldir vera minni byrði fyrir sjúklinginn (sjá töflu 3). Ókostir sértækra spurningalista er að ekki er hægt að bera saman mismunandi sjúklingahópa (Lips og Schoor, 2005). Flestir rannsakendur mæla með því að notuð séu samhliða almenn og sjúkdómasértæk mælitæki (Sullivan, Karlson og Taft, 1999; Lips og Schoor, 2005) þegar lýsa skal lífsgæðum ákveðinna sjúklingahópa. Helstu kostir þess eru að almennir spurningalistar geta metið hversu mikill heilsufarsvandi sjúkdómur er miðað við aðra sjúkdóma en sértækir spurningalistar geta uppgötvað áhrif og afleiðingar sjúkdóms (Lips o.fl.,1999). Bæði almennir og sértækir spurningalistar innihalda ákveðna þætti, eins og t.d. verki, líkamsstarfsemi, hreyfigetu, almennt heilsufar og mat á andlegri líðan, s.s. þunglyndi og kvíða. Þróunin hefur verið mikil á síðustu árum í sjúkdómasértækum mælitækjum. Má þar nefna, Arthritis Impact Scale og Quality of Life Questionnaire of the International Osteoporosis Foundation (QUALEFFO) (Lips o.fl., 1997). LÍFSGÆÐI OG HJÚKRUN Þó svo að lífsgæðahugtakið sé tiltölulega nýtt í hjúkrun hafa hugtökin heilbrigði og vellíðan verið lengi til staðar. Allt frá tímum Florence Nightingale hefur heilbrigði verið lykilhugtak hjúkrunar. Sömuleiðis hefur hugtakið umhyggja einnig lengi verið í brennidepli innan fræðigreinarinnar sem undirstaða hjúkrunar. Umhyggja hefur á þann hátt verið tengd hugtakinu heilsa á sama hátt og heilbrigði tengist hugtakinu vellíðan (Newman o.fl., 1991). Vellíðan og heilsa eru hugtök sem eru hluti af lífsgæðahugtakinu og efling vellíðunar hefur lengi verið skýr hugsjón hjúkrunarstéttarinnar (Wallace, 1995). Margar hugtakasmíðar og kenningar hafa verið settar fram um hvað leiði til vellíðunar (King, 1994; Parse, 1993; Wallace, 1995). Helstu viðfangsefni fræðigreinarinnar eru einnig hvaða íhlutanir eða aðgerðir leiða til bættrar heilsu eða vellíðunar og hjúkrunarrannsóknir leitast við að útskýra hvernig skjólstæðingar upplifa heilsu sína. Lykilviðfangsefni hjúkrunar felast því í samspili hugtakanna heilbrigði, umhyggja og upplifun á heilbrigði (Newman o.fl., 1991). Heilbrigði er stærsti ákvörðunarþáttur heilsutengdra lífsgæða og lífsgæði oftast skilgreind út frá vellíðan einstaklingsins. Því eru lífsgæðarannsóknir til þess fallnar að kanna huglæga upplifun á heilsu einstaklinga með það að markmiði að skýra og bæta framlag hjúkrunar til bættrar heilsu (Berglund og Erikson, 2003; Sarvimäki og Stenbock-Hult, 2000). Nálgun lífsgæðahugtaksins í hjúkrun hefur verið frá ýmsum sjónarhornum og túlkun háð því hvaða rannsóknaraðferðir og kenningar fræðimenn innan greinarinnar aðhyllast. Eins og áður segir byggist eudaemonísk nálgun á lífsgæðahugtakinu m.a. á vangaveltum um hvað það feli í sér að vera mannlegur og hvað fái einstakling til að blómstra, hvað hindrar hann í því að líða vel og hvernig hjúkrunarfræðingar geta haft þar áhrif á (Draper, 1997). Hjúkrunarfræði, sem hefur lagt áherslu á heildarhyggju, lítur á lífsgæði frá mjög víðu sjónarhorni. Anderson og Burckhardt (1999) telja að þar sem hjúkrunarfræðingar sinna mikið lífeðlisfræðilegum þáttum einblíni þeir um of á sjúkdómasértæka þætti lífsgæðahugtaksins. Að áliti þessara fræðimanna stafar vandamálið við að skilgreina hugtakið lífsgæði af skorti á skýrleika á hugtakinu heilsa. Kenningasmiðir innan hjúkrunar með sína heildrænu sýn hafa því deilt um notagildi hugtaksins fyrir fræðigreinina og hefur það fallið í grýttan jarðveg hjá ýmsum fræðimönnum. Ein ástæðan er sú að þeir telja að hugtakið valdi því að um of sé einblínt á heilsu og sjúkdóma og að það sé litið framhjá öðrum þáttum í lífi einstaklingsins, eins og samspili umhverfis, félagstengslum, fjárhag og sjálfsáliti sem leika einnig stórt hlutverk í lífsgæðum einstaklings (Parse, 1993; Anderson og Burckhardt, 1999). Því verður þó ekki neitað að lífsgæðahugtakið er náskylt heilbrigðishugtakinu sem er lykilhugtak innan fræðigreinarinnar ásamt umhyggju og vellíðan og hafa lífsgæði verið notuð sem mælieining á upplifun einstaklinga á heilsu eða líðan við hinar ýmsu aðstæður og sem árangursmæling innan heilbrigðisþjónustunnar. Því verður heldur ekki neitað að við sjúkdóma verður heilsan markmið og ef ekki er hægt að ná því markmiði er takmarkið að auka lífsgæði eða vellíðan sjúklingsins með öllum tiltækum ráðum. Með hækkandi meðalaldri fjölgar langveikum og þar með aukast kröfur um heilbrigðisþjónustu, sérstaklega hjúkrunarþjónustu. Fjölgun í hópi langveikra hefur beint sjónum að lífsgæðum þeirra þar sem lækning er ekki möguleg. Langlífi hefur oftast í för með sér fleiri sjúkdóma og sjúkdómseinkenni sem hafa áhrif á daglegt líf. Þess vegna er nauðsynlegt að afla kunnáttu um hvernig unnt er að stuðla að og viðhalda lífsgæðum. Frá sjónarhorni hjúkrunar er þessi vitneskja nauðsynleg þar sem oft er hægt að draga úr einkennum sjúkdóma, bæta líðan og auka lífsfyllingu sjúklinga þó sjúkdómarnir séu ekki læknanlegir. Heilsutengd lífsgæði hafa því í vaxandi mæli verið notuð til að meta gagn og árangur hjúkrunarmeðferðar og þjónustu. Dagleg störf hjúkrunarfræðinga byggjast á því að efla og viðhalda lífsgæðum sjúklinga. Lífsgæðamælingar geta því verið góður árangursmælikvarði í hjúkrun og unnt að nota á ýmsum sviðum hjúkrunar. Þess vegna er skilningur á hugtakinu og tilgangi þess nauðsynlegur. Hjúkrunarrannsóknir framtíðarinnar munu vafalaust margar fjalla um árangursmat sem er hannað til að meta og skrá afköst heilbrigðisþjónustunnar. Aukning á slíkum rannsóknum er talin stafa af þörfinni fyrir hagkvæmni í meðhöndlun sem leiðir af sér jákvætt árangursmat án þess að minnka gæði þjónustunnar. Hjúkrunarfræðingar eru í auknum mæli farnir að sýna árangursmati áhuga, bæði þar sem brennidepillinn er sjúklingurinn sjálfur en einnig heilbrigðiskerfið

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.