Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.09.2009, Blaðsíða 39
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 4. tbl. 85. árg. 2009 35
Ritrýnd fræðigrein
Samkvæmt skýrslunni Daglegt líf á hjúkrunarheimili (Anna
Birna Jensdóttir o.fl., 1995) voru 17,8% íbúa í hjúkrunarrými
á höfuðborgarsvæðinu virkir í daglegum athöfnum en 13,4% í
hjúkrunarrými á Akureyri árið 1994. Því má draga þá ályktun að
heldur hafi miðað áleiðis í þessum efnum á hjúkrunarheimilum
á Íslandi á þessu tíu ára tímabili. Í skýrslunni frá 1995 voru
eftirlætisvistarverur til virkni eigið herbergi og flestir kusu
að horfa á sjónvarp eða hlusta á útvarp. Eigið herbergi er
enn eftirlætisvistarvera til dægrastyttingar en nú kjósa flestir
samræður og síðan útvarp og sjónvarp. Hugsanlegt er að
aukin áhersla á samræður endurspegli að einhverju leyti
viðhorfsbreytingu meðal starfsfólks hjúkrunarheimila þannig að
frekar sé gert ráð fyrir samræðum á heimilunum. Sömuleiðis
hafa rannsóknir undanfarinna ára bent á mikilvægi samskipta
og samveru (Gunther og Alligood, 2002; Ingibjörg Hjaltadóttur,
2001).
Varðandi þátttöku í dægrastyttingu þá skipta aldur og kyn
almennt litlu, þ.e. lítillega fleiri konur voru virkar en karlar, en
ekki var munur á milli kynja þegar spurt var um meðaltíma í
virkum athöfnum. Ekki var heldur munur eftir aldri þegar spurt
var um hvort viðkomandi tæki þátt í félagslífi en þó reyndist
munur, þó lítill væri, þegar borinn var saman aldur og meðaltími
í virkum athöfnum, þ.e. því eldri sem menn voru því minni var
meðaltími í virkum athöfnum. Marktækt fleiri konur en karlar
kjósa handavinnu. Samkvæmt rannsókn Voelkl, Fries og
Galecki (1995), sem m.a. byggðist á RAI-niðurstöðum, voru
konur virkari en karlar þannig að almennt virðast niðurstöður
rannsókna benda í þessa átt.
Þeir sem bjuggu einir áður en þeir komu á hjúkrunarheimili
voru virkari og vörðu meiri tíma í dægrastyttingu. Þeir sem
höfðu áður dvalist á núverandi hjúkrunarheimili eða á öðru
hjúkrunarheimili eða stofnun voru minna virkir enda trúlega verr
á sig komnir en þeir sem komu heiman frá sér.
Einnig kom í ljós að það sem mest áhrif hafði á virkni var
geta til að sinna athöfnum daglegs lífs (ADL) og vitræn geta.
Þessir tveir þættir skerða mjög það svigrúm sem einstaklingar
hafa til tómstunda og fækka möguleikum til dægrastyttingar.
Langflestir kjósa eigið herbergi, en það vekur athygli að þeir
sem eru með litla ADL-færni kjósa síður eigið herbergi en þeir
kjósa líka síður dagstofu. Það sama á við um tengsl vitrænnar
getu og vals á einstaklingsherbergi, með öðrum orðum þeir
sem hafa minni vitræna getu kjósa síður einstaklingsherbergi,
en munurinn er ekki eins afdráttarlaus varðandi dagstofu. Það
vekur upp þá spurningu hvar þessir einstaklingar vilja vera til
að stytta sér stundir. Hluti af skýringunni gæti verið að þeir
taka lítinn eða engan þátt í dægrastyttingu og geti því ekki valið
eftirlætisvistarverur til virkni. Þeir merkja einnig við færri atriði
en aðrir varðandi eftirlætistómstundir en kjósa samt öryggið
því að þeir vilja síður vera utan deildar við dægradvölina.
Yngri einstaklingar kjósa frekar að vera úti eða utan deildar
og sömuleiðis þeir sem eru betur á sig komnir varðandi ADL.
Það er ekki margt sem þeir kjósa sem hafa lélega ADL-færni
og skerta vitæna getu, enda eiga þeir líklega ekki auðvelt með
það. En þeir kjósa tónlist fram yfir annað. Geta skiptir engu
máli hvort tónlist er valin enda má segja að tónlistin sé þess
eðlis að allir geti notið hennar að einhverju leyti og þar sker hún
sig frá öðru. Tónlist ætti því að nýtast vel til dægrastyttingar
á hjúkrunarheimilum og hún virðist hafa jákvæð áhrif, minnka
árásarhneigð og auka vellíðan hjá fólki með heilabilun (Clark
o.fl., 1998; Sambandham og Schirm, 1995).
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að sá hópur,
sem þarf sérstaklega að horfa til varðandi dægrastyttingu
á hjúkrunarheimilum, séu þeir sem eru með mikla vitræna
skerðingu og þeir sem þurfa mikla aðstoð við ADL. Þeir
einstaklingar verja minni tíma til virkni og kjósa færri atriði
sem eftirlætistómstundir. Svipaða niðurstöðu fengu Dobbs
o.fl. (2005), þ.e. að það sem einkenni þá sem ekki eru
félagslega virkir sé mikil vitræn skerðing, hegðunarvandamál,
þunglyndi og léleg ADL-færni. Svipaða sögu er að segja um
rannsókn Voelkl og félaga (1995) á virkum tíma eftir mismunandi
persónueinkennum heimilismanna á hjúkrunarheimili. Þar kom
í ljós að mestar áhyggjur þarf að hafa af þeim sem velja fá
virkniatriði, þeim sem vilja vera í eigin herbergi, þeim sem eru
vitsmunalega mjög skertir og þeim sem lenda hátt á RUG-III
kvarðanum. Í þessari rannsókn komu reyndar fram aðeins aðrar
niðurstöður varðandi það hvar einstaklingar lenda í RUG-III-
flokkun, þ.e.a.s. ekki kemur fram línulegt samband milli RUG-
III-flokkunar og þátttöku í dægrastyttingu. Flokkurinn „sérstök
endurhæfing“ sker sig mjög úr þannig að þeir sem eru í þeim
flokki eru virkari en þyngd þessa RUG-III-flokks gefur tilefni til
að ætla. Sá flokkur er næst þyngstur samkvæmt RUG-III sem
ákvarðar greiðslu til hjúkrunarheimilanna. Það kemur ekki á óvart
að RUG-flokkun tengist ekki virkni línulega eins og ADL. Eins
og kemur fram hér fyrr í þessari grein er það ekki bara ADL-
færni sem ræður röðinni í RUG-III-flokkana heldur líka t.d. þörf á
mikilli endurhæfingu frá sérhæfðum og þá dýrari starfsmönnum.
Einstaklingur, sem lendir í flokknum „mikil endurhæfing“, þarf
ekki að vera með eins mikið skerta færni og sá sem lendir í léttari
RUG-III-flokki en hann hefur að öllum líkinum þörf fyrir sérhæfða
og dýrari þjónustu. En eins og fram kom fyrr sýna niðurstöður
þessarar rannsóknar að því minni sem getan til að sinna ADL var
því minni var dægrastyttingin og því meiri sem vitræn skerðing
var því minni var dægrastyttingin.
Erfitt er að segja til um hversu mikla dægrastyttingu þeir
kjósa sem eru með skerta andlega og vitræna getu. Hér þarf
einnig að horfa til þess að stundum kjósa þessir einstakingar
(sem og aðrir íbúar) frekar rólegheit og hvíld. Í rannsókn, sem
Kalis o.fl. gerðu 2005 og byggðist á viðtölum við fagmenntað
starfsfólk á nokkrum hjúkrunarheimilum, kom í ljós að þegar
starfsfólk var spurt hvað væri gott líf fyrir fólk með heilabilun
(dementia) var svarið friður og rólegheit, að byggja á reynslu
einstaklingsins og beita ekki þvingunum. Svörin féllu ekki að
þeirri stefnumörkun sem heimilin studdust við þar sem sjálfræði
og frelsi, einstaklingurinn og lífstíll voru efst á blaði.
LOKAORÐ
Bæði þessi rannsókn og aðrar sem vitnað er í hér benda
til mismunandi aðferða til dægrastyttingar hjá þeim sem