Tölvumál - 01.02.2008, Blaðsíða 26
2 6 | T Ö L V U M Á L
Þátttökufyrirtækin
Rannsóknin nær til íslenskra tæknifyrirtækja sem stofnuð voru árið 2000
eða síðar. Til tæknifyrirtækja teljast þau fyrirtæki sem byggja starfsemi sína
á tæknisérþekkingu starfsfólks. Þetta eru því fyrirtæki þar sem fólk með
tækniþekkingu sérhæfir sig í rannsóknum, tæknihönnun eða nýsköpun. Flest
þeirra fyrirtækja sem taka þátt í rannsókninni tilheyra atvinnugreinaflokkum
sem flokkast undir þjónustu og rúmur þriðjungur eru hugbúnaðarfyrirtæki.
Ný störf, aukin heildarvelta og talsverð nýsköpun
Umsvif fyrirtækjanna sem taka þátt í rannsókninni hafa aukist mikið á
síðastliðnum þremur árum. Fjöldi starfa í hópi þátttökufyrirtækja sem eru
fimm ára og yngri hefur tvöfaldast á tveimur árum, úr 576 árið 2005 í 1188
árið 2007 (sjá mynd 1).
MYND 1. Fjöldi starfa í þeim þátttökufyrirtækjum sem eru, á hverjum tíma,
fimm ára og yngri.
Þegar stjórnendur eru spurðir um afkomu fyrirtækja sinna kemur í ljós að
heildarvelta fyrirtækjanna hefur aukist milli ára hjá um tveimur af þremur
fyrirtækjanna. Að meðaltali hefur velta hvers fyrirtækis aukist um 52% á
ári síðastliðin þrjú ár. Velta á hvern starfsmann hefur aftur á móti staðið
nokkurn veginn í stað og var 9,9 milljónir króna árið 2006. Um 67% fyrir
tækjanna velta innan við 10 milljónum króna á hvern starfsmann. Taka skal
fram að í þessu, eins og í öðrum niðurstöðum sem gerð er grein fyrir hér,
er horft á gögn fyrir öll þátttökufyrirtækin í heild og einstök fyrirtæki hafa að
sjálfsögðu tekið stórstígum breytingum milli ára.
Síðustu þrjú ár hefur um helmingur fyrirtækjanna fengið tekjur erlendis frá.
Um 15% fyrirtækjanna hafa fengið meira en helming af veltu sinni að utan
(sjá mynd 2).
MYND 2. Hlutfall veltu þátttökufyrirtækja sem kom erlendis frá.
Staða nýrra
tæknifyrirtækja
á Íslandi
Undanfarin ár hefur Rannsóknarmiðstöð HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum staðið að
rannsókn á nýjum íslenskum tæknifyrirtækjum. Spurningalisti er lagður fyrir stjórnendur
árlega og þannig gefst kjörið tækifæri til þess að greina áhugaverða þróun um stofnun, vöxt
og viðgang nýrra íslenskra tæknifyrirtækja. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna meðal annars
að stjórnendur líta á skort á hæfu starfsfólki sem helstu ógnunina við afkomu fyrirtækja
sinna. Þrátt fyrir það eru þeir bjartsýnir á framtíðina.
Dr. Rögnvaldur J. Sæmundsson, Marina Candi og Silja Björk Baldursdóttir
hjá Rannsóknarmiðstöð HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum