Bændablaðið - 17.12.2015, Blaðsíða 12
12 Bændablaðið | Fimmtudagur 17. desember 2015
Oft sest ég niður og hugsa um þau
undur sem hafa gerst á sl. fimm-
tíu árum. Öll munum við lagið
frá þeim tíma sem Vilhjálmur
Vilhjálmsson söng með sinni fal-
legu rödd: „Mig dreymdi að væri
komið árið tvö þúsund og tólf/
þeir tunglið höfðu malbikað og
steypt í hólf og gólf/ Já veröldin
var skrýtin það var allt orðið
breytt/ því vélar unnu störfin og
enginn gerði neitt.“
Frá þessum táningsárum mínum
hefur margt gerst sem engan óraði
fyrir þá og sá sem hefði sett fram
skoðanir um mestu tækniundrin
sem litið hafa dagsins ljós hefði
verið talinn léttgeggjaður.
Á þessum árum var t.d.
Kanasjónvarpinu lokað og það
bundið við örlítið svæði í Keflavík.
Menn óttuðust áhrif og spillingu
frá Bandaríkjunum og unga fólkið
og íslenskan var talin í hættu, hvað
nú allar gáttir opnar og frjálsar. Ég
minnist þess hins vegar frá mínum
Laugarvatnsárum að krakkarnir af
Suðurnesjum, úr Keflavík sérstak-
lega, kunnu ensku upp á tíu,en voru
ekkert minni Íslendingar en við
hin. Jú, svolítið heimsborgaralegri
miðað við mig og okkur marga
sveitamennina sem ekki höfðum
heyrt útlensku á þessum árum.
Vélarnar hafa tekið við
Já, sannarlega hafa vélarnar tekið
við flestum erfiðisstörfum. Tæknin
sem þurfti heilu herbergin undir
sín tæki og tól rúmast í einum litl-
um gemsasíma. Upplýsingar sem
tók mann heilu dagana að afla eru
geymdar hjá meistara gúggla. Allt
sem hefur verið sagt eða hugsað á
jörðu sækir maður þangað á sek-
úndubroti. Bændur og sjómenn
sem voru í þrælaríi fyrir hálfri
öld eru að verða eins og meðal
skrifstofurassar, horfa á skjái og
fylgjast með öllu í gegnum tölvu.
„Því tölvur vinna störfin og hugsa
fyrir menn.“ Þeir eru feitir og sælir
og farnir að deyja eins og aðrir úr
hreyfingarleysi enda margir þeirra
langt yfir meðalvigt í þunga. Þeir
horfa á róbóta sem vinna verkin og
róbótinn er vinnufélaginn og auð-
vitað svo gemsinn. Þeir eru eins
og aðrir í góðu og betra sambandi
við einhvern úti í heimi heldur en
nágrannana sem þeir hitta og tala
við á þorrablótinu sem ókunnuga
menn. Blessað fólkið í stofunni á
kvöldin, það er þögult og því er
stirt um stef, þar situr hver og einn
með sinn Ipad í eigin heimi.
Allsberi listamaðurinn sem sat
með sjálfum sér í kassa í heila viku
var auðvitað að hæða heiminn,
og tókst það prýðilega. Nú halda
listunnendur að það beri að geyma
kassann sem tákn þessa mikla
listaverks, drengurinn hafði allt
sem hann þurfti á nútímavísu og
handrukkaði meira að segja sjálfan
sig um hamingjuna, og heimurinn
horfði á.
Hvað gerist á næstu 50 árum?
Verður samtalið horfið milli manna
og tákn tekin við? Verður heim-
ilisbíllinn óþarfur? Spenna menn
litla englavængi á bak sitt til að
fara í vinnuna og svífa svo upp
fyrir húsin og áfram eins og fugl-
ar himins? Eða fara menn ekkert
til vinnu, sitja heima og vinna allt
í gegnum veraldarvefinn? Verður
komið eitt tungumál? Verður
íslenskan bara töluð á sunnu-
dögum eins og danskan forðum
í Stykkishólmi og á Eyrarbakka?
Verður kjöt og mjólk framleitt úr
grasi svo að kýr og naut, hvað þá
svín, verða óþörf? Eða tökum við
inn pillu á morgnana, í stað matar?
Verða börnin framleidd í hitaskáp
til að auka jafnrétti kynjanna? Eða
eins og Ómar Ragnarsson kvað;
„Enginn vandi að nota klónun
til að fjölga sér./ Tæknifrjóvgun
stórkostleg er stunduð hér í dag:/
Staðgöngumæðrun verður bráðum
löggilt fag.“ Og hann bætti svo við
og sagði: „Gömlu dagana gefðu
mér!/Þá gat ég verið einn með þér./
Nú tæknin geggjuð orðin er./ Til
gömlu daganna gef mér far fljótt
til baka/ Ég yrði ánægður með lífið
eins og það var.“ Ætli það sé ekki
best að vera svolítið íhaldssamur
og taka upp gamla og góða siði
–spjalla saman horfa í augun á
hvert öðru hlæja og gráta saman.
Og sannarlega ganga til þess verks
að bjarga heiminum, minnka
útblásturinn, minnka eyðslu og
sóun svo að barnabörnin okkar
taki við betra lífi, meiri hamingju
og góðri móðurjörð sem við öll
eigum saman og skulum verja. Við
skulum hlusta og skilja þá dauðans
alvöru sem eyðslan og einsemdin
hefur í för með sér.
Guðni Ágústsson
fyrrverandi landbúnaðarráðherra og rithöfundur:
Tækniundrið
Fréttir
Okkur hættir til að horfa eingöngu
á gróðurþekju og tegundafjölda
við mat á árangri uppgræðslu-
starfs. Það segir þó aðeins hálfa
söguna. Land sem við fyrstu sýn
lítur út fyrir að vera vel uppgróið
og hæft til beitarnota á ný getur
verið í svo viðkvæmu ástandi að
það þolir jafnvel ekki létta beit.
Ástand og þol endurheimtra vist-
kerfa byggir nefnilega ekki síður á
ástandi jarðvegsins.
„Fólk veltir þætti jarðvegsins
í heildarsamhengi landgræðslu
allt of sjaldan fyrir sér,“ segir
Jóhann Þórsson, vistfræðingur hjá
Landgræðslu ríkisins.
„Frjósöm mold er forsenda beit-
arþolinna vistkerfa og ekki allt sem
sýnist þegar horft er yfir uppgrætt
land. Það getur vissulega litið vel
út en undir örþunnri gróðurhulu er
kannski sandur sem á lítið skylt við
frjósama mold. Sendinn jarðvegur er
erfiður þegar kemur að uppgræðslu.
Hann er laus í sér og rofgjarn og
þolir því ekki mikið rask. Auk þess
er sandurinn ófrjósamur og allt
veldur þetta því að gróður á slíkum
svæðum á erfitt uppdráttar.
Því þarf að huga vel að landnýt-
ingu á slíkum svæðum. Vanþekking
á eðli jarðvegarins getur því valdið
því að uppgræðsluaðgerðir fari fyrir
lítið.“
Landgræðsla er kostnaðarsöm
Að sögn Jóhanns er ekki þar með
sagt að sendinn jarðvegur sé ónýt-
ingarhæft land. „Landið í kring-
um Gunnarsholt á Rangárvöllum
er mjög sendið og þar hafa verið
ræktaðir upp miklir akrar á tiltölu-
lega skömmum tíma sem gefa vel af
sér. Þar hefur jarðvegurinn náð nægj-
anlegri frjósemi til að unnt sé að nýta
landið. Forsenda þess að ná slíkum
árangri er að nægilega sé borið á
landið í upphafi, það nái að þróast og
þroskast, og að vel sé fylgst með því.
Það er augljóslega kostnaðarsamt
og því ekki raunhæft með beitarnýt-
ingu sem meginmarkmið nema þá að
landið gefi þeim mun meira af sér.
Ef það gefur lítið af sér, til dæmis
á hvern hektara, eins og beitiland
gerir gjarna þá er þetta ekki raunhæft
markmið. Beitiland á sandsvæðum
verður alltaf viðkvæmt.“
Skortur á köfnunarefni
„Oft er það svo að fólki finnst lítið
vera að gerast á landgræðslusvæð-
um og árangurinn af starfinu tak-
markaður. Þetta á sérstaklega við
ef um að ræða hrjóstrug svæði. En
það er ekki allt sem sýnist.
Þótt hágróður, grös og blóm-
jurtir virðast eiga erfitt uppdráttar
eftir að áburðaráhrifin fjara út er
þarna líf, en það dylst okkur því
það er smágert og við erum ekki
vön að horfa eftir því. Þörungar,
mosar og fléttur ásamt margvísleg-
um örverum eru að mynda þekju,
skán, og grös og blómplöntur eru
líka að mynda fræ og fjölga sér
þótt í smáum stíl sé.
Ég hef stundum kallað þetta
sinustigið. Þetta er í rauninni fyrsta
framvindustig landgræðslusvæða
þegar köfnunarefni fer að skorta,
en örverur sem brjóta sinuna gera
miklar kröfur til köfnunarefn-
is. Þarna er komið að ákveðnum
þröskuldi framvindunnar sem
við eigum ekki svo gott með að
ráða við og lítið annað í boði en
að bíða, því með tímanum binda
þessar lífverur köfnunarefni sem
verður smám saman til reiðu fyrir
annan gróður. Þegar því stigi er
náð förum við að sjá verulegar
breytingar. En þetta getur tekið
langan tíma og óhætt er að tala
um áratugi í því samhengi. Þetta
sjáum við glögglega til dæmis á
þeim svæðum sem voru grædd
upp með Þjóðargjöfinni 1974. Þau
svæði eru mörg hver núna fyrst
að taka verulega við sér, 40 árum
síðar. Við getum auðvitað stytt
okkur leið og notað áburð en það
er dýrt og óraunhæft miðað við
umfang þessara svæða, og mikil
áburðargjöf getur haft neikvæð
áhrif á náttúrulega framvindu.“
Svipað ástand og eftir ísöld
„Ef horft er til baka þá gerum
við ráð fyrir að land hafi verið
nærri gróðurlaust við lok ísaldar.
Ástandið var væntanlega eitthvað
í líkingu við mörg örfoka land-
græðslusvæði eins og við þekkjum
þau í dag.
Samkvæmt frjókornagreining-
um í jarðvegssniðum tók það um
1000 ár frá lokum ísaldar þang-
að til það fóru að sjást gras- og
birkifrjókorn um nánast allt land.
Það hefur semsagt tekið um 1000
ár fyrir gróður að nema Ísland.
Það er hinn raunverulegi tíma-
skali þegar við erum að horfa á
framvindu innan stórra svæða, við
erum að tala um áratugi eða frekar
árhundruð ef átt er við algerlega
örfoka landslag, ekki síst ofan
400 m hæðarmarka. Þessum tíma-
skala getum við breytt með því að
auka framboð á köfnunarefni eða
búið til fræuppsprettur með upp-
græðslum inni á þessum svæðum.
Köfnunarefninu getum við miðlað
með áburði eða með lúpínu en þar
þurfum við í upphafi endinn að
skoða. Með þessum inngripum
erum við að stýra framvindunni inn
á ákveðnar brautir og það er ekki
víst að það sem verður til sé það
sem við höfðum í huga í upphafi.“
Moldin er undirstaðan
„Undirstaðan er alltaf moldin og
það er hún sem við erum í rauninni
að búa til með uppgræðslustarfi.
En hún myndast mjög hægt. Þess
vegna er þetta svona mikilvæg auð-
lind sem við verðum að vernda, og
jafnframt þurfum við að átta okkur
á því hversu óskaplega langan tíma
það tekur hana að myndast,“ segir
Jóhann Þórsson, vistfræðingur og
sérfræðingur hjá Landgræðslunni.
/VH
Tilgangurinn með landgræðslu:
Ekki allt sem sýnist þegar horft
er yfir uppgrætt land
Jóhann Þórsson, vistfræðingur hjá
Landgræðslu ríkisins.
Bændablaðið
Smáauglýsingar 56-30-300
Næsta blað kemur út
14. janúar 2016