Bændablaðið - 17.12.2015, Qupperneq 38
38 Bændablaðið | Fimmtudagur 17. desember 2015
Talið er að fyrir jólin muni seljast ríflega 40 þúsund
jólatré á Íslandi. Undanfarin ár hefur aðeins um fjórð-
ungur seldra jólatrjáa hér á landi verið úr íslenskri
skógrækt.
Nokkuð hávær umræða hefur verið um það á undan-
förnum árum að stórlega þurfi að auka þetta innlenda
hlutfall og hníga að því ýmis rök; aðallega umhverfisleg
og efnahagsleg.
Margir munu kannast við jólaskógana, en ríflega 20
skógræktarfélög víða um land hafa á undanförnum árum
selt grenitré úr sínum skógum fyrir jólin.
Það ætti að vera flestum hagur í því að velja ferskt
íslenskt jólatré fyrir jólin og styrkja með því skógrækt-
arstarfið í landinu. Talið er að fyrir hvert selt jólatré
úr jólaskógi geti skógræktarfélögin gróðursett 30–40
ný tré.
Frá 2011 hefur svo átaksverkefni í akurræktun
jólatrjáa verið í gangi og nú eru fyrstu þátttakendurnir í
því verkefni farnir að selja tré úr sinni ræktun. Skjólleysi
og samkeppni við annan gróður er helsta vandamálið.
Ólíkt nágrönnum okkar í Danmörku er hins vegar lítið
notað af eiturefnum í slíkri akurræktun á Íslandi en
frekar gróðursett í plast, jarðvegsdúk eða annað þekjandi
efni notað til að hefta illgresi. Við njótum þess líka hér á
landi að minna er um óværu sem herjar á trjágróðurinn
hér miðað við það sem gerist í heitari löndum. /smh
Hrönn Guðmundsdóttir er verkefnisstjóri átaksverkefnis í jólatrjáarækt:
Jólatré fjöldaframleidd á akri
– lausnir án eiturefna hafa skilað árangri
Landssamtök skógareigenda
(LSE) fóru árið 2011 af stað með
fimmtán ára átak í akurræktun
jólatrjáa að danskri fyrirmynd.
Skipaðir voru starfshópar vítt og
breitt um landið með bændum sem
áhuga höfðu á ræktun jólatrjáa.
Vandamál með skjólleysi,
illgresi og grasvöxt
Að sögn Hrannar Guðmunds dóttur,
verkefnisstjóra átaksverkefnisins,
héldu hópstjórar utan um hópana til
að byrja með og landshlutaverkefnin
í skógrækt (LHV) sáu um ráðgjöf til
þátttakenda.
„Þrír hópar, einn í hverjum lands-
hluta, alls um 35 manns, tóku þátt frá
upphafi. Ráðlagt var að byrja á að
byggja upp skjól, svokallaða skjól-
skápa sem jólatrjánum yrði svo plant-
að í síðar. Skjólleysi er helsta vanda-
mál ræktunar jólatrjáa ásamt illgresi
og miklum grasvexti. Jólatrjáaræktun
á ökrum kallar á töluverða ráðgjöf,
en þessi ræktun er með öðru sniði
en önnur nytjaskógrækt, líkist í raun
meira garðyrkju,“ segir Hrönn.
LSE tók þátt í verkefninu
Kraftmeiri skógur sem var samstarfs-
verkefni fimm aðila innan þriggja
landa. „Þetta var yfirfærsluverkefni
í menntaáætlun Evrópusambandsins
sem heitir „Leonardo“. Verkefninu
var ætlað að ná til sem flestra skógar-
eigenda með fræðslu á ýmsum
sviðum – og var fræðsla og ráðgjöf
í jólatrjáaræktun einn liður í því verk-
efni.
Samið var við Else Möller
skógfræðing um að sinna ráðgjöf
til jólatrjáaræktenda. Hún og sér-
fræðingur frá Danmörku, sem var
einn af þátttakendum í verkefninu
Kraftmeiri skógur, fóru í heimsókn-
ir til allra þátttakenda í verkefninu
árin 2013 og 2014. Þar var farið yfir
alla þætti sem þarf að hafa í huga
við ræktun jólatrjáa á akri, staðar-
val, fjar- og nærskjól, tegundaval
og margt fleira. Else hefur heimsótt
jólatrjáaræktendur aftur á Norður-
og Austurlandi og mun heimsækja
ræktendur á Suðurlandi 2016.
Mikilvægt er að halda vel utan um
hópana með góðri ráðgjöf og hvatn-
ingu, leita tilboða í réttar plöntur og
fleira sem upp kemur,“ segir Hrönn.
Jarðvegurinn betur undirbúinn
Hrönn segir að um vorið 2013 hafi
Else Möller lokið meistararitgerð
við Landbúnaðarháskóla Íslands um
akurræktun jólatrjáa við íslenskar
aðstæður. „Þar kom í ljós að eig-
inleg akurræktun að danskri fyrir-
mynd þarfnast meiri undirbúnings
og rannsókna. Því höfum við farið
hægt af stað á meðan verið er að
þróa verkefnið. Við hvetjum þátt-
takendur til þess að koma upp skjól-
beltum, en mikilvægt er að rækta í
góðu skjóli með góðu aðgengi til
að auðvelda alla vinnu við umhirðu
jólatrjáa.“
Lítill áhugi á eiturefnanotkun
„Misjafnar aðferðir eru notaðar
við að halda niðri illgresi, en ekki
er mikill áhugi fyrir mikilli notkun
eiturefna,“ segir Hrönn, en Danir,
sem eru stórtækir ræktendur á
þessu sviði, hafa legið undir ámæli
fyrir mikla notkun á eiturefnum.
„Ræktendur reyna að nota aðrar
leiðir, eins og að þekja akurinn
með plasti eða þykkum jarðvegs-
dúk, setja kurl eða pappa í kringum
plönturnar, slá á milli raða og fleira.
Þetta kallar á mikla frum-
kvöðlavinnu og hefur sýnt sig
að öll þessi vinna skilar árangri.
Markmiðið er að hækka nýt-
ingarhlutfall söluhæfra trjáa úr
hverjum reit.“
Það er, að sögn Hrannar, löng
reynsla fyrir því hjá Skógrækt rík-
isins og skógræktarfélögunum að
rækta jólatré í skjóli birkiskóga og
annarra skóga. „Á meðan verið er
að ná tökum á akurræktuninni hefur
LSE hvatt þátttakendur til að nýta
auð svæði inn í ungskógum sínum
því árangur er betri þar sem jarð-
vegur er rýr og minni samkeppni
við gras og illgresi auk þess að nýta
það skjól sem skógurinn gefur.“
Hrönn leggur áherslu á að
Íslendingar verði að auka hlut-
deild sína í seldum jólatrjám hér
á landi svo um muni. „Íslendingar
flytja inn 30–40 þúsund jólatré á ári
með mörgum neikvæðum áhrifum
á umhverfið; ýmsum meindýrum,
sjúkdómum og koltvísýringsút-
blæstri við flutningana. Það er því
kappsmál fyrir okkur að vera sjálf-
bær með jólatré. Markmið LSE er
að eftir þessi fimmtán ár verði rækt-
un jólatrjáa markviss atvinnugrein
skógarbænda í öllum landshlutum.“
/smh
Hjónin í Prestsbakkakoti, rétt
austan við Kirkjubæjarklaustur,
hafa verið með í verkefninu um
akurræktun jólatrjáa frá byrjun.
„Við vorum reyndar byrjuð áður
að gróðursetja jólatré í akurrækt-
un, eða árið 2001,“ segir Sólveig
Pálsdóttir.
Eingöngu stunduð skógrækt á
jörðinni
„Við búum á jörð þar sem eingöngu
skógrækt er nú stunduð. Við tókum
gömlu túnin frá fyrir ræktunina og
eigum því talsvert landrými sem við
eigum eftir að nýta.
Smám saman höfum við verið
að skipta þeim niður í um 25 metra
breiðar spildur með skjólbelti á milli.
Það er í raun það fyrsta sem maður
gerir þegar maður ætlar út í svona
ræktun – að koma sér upp skjólbelt-
um,“ segir Sólveig.
Kynntist ræktuninni í Danmörku
„Mér bauðst til að fara til Danmerkur
og skoða aðstæður hjá þarlendum
jólatrjáaræktendum og það var
til þess að áhuginn vaknaði. Við
höfum líka verið þátttakendur í
Suðurlandsskógum frá byrjun og
fengum hjálp þaðan til að skipu-
leggja landið okkar með tilliti til
akurræktunar á því.
Við svosem fórum ekki alveg
sömu leiðir og Danir fara; við
unnum landið fyrst, plægðum og
tættum og settum svo plast yfir –
til að halda illgresi í lágmarki. Við
höfum varla þurft að nota nokkurt
Roundup-eitur hjá okkur – bara einu
sinni, held ég. En einstaka sinnum
höfum við þurft að nota skordýraeitur
þegar upp koma lúsafaraldrar eða
þegar fiðrildalifrur eru óvenju skæð-
ar. Það er einfaldlega ekki sami fjöldi
meindýra sem herjar á gróður hér á
landi og í Danmörku, þannig að því
leytinu til er þessi ræktun skaplegri
hér á landi. Annars er þetta bara val,
ef þú eitrar ekki þarftu bara að reyta
og þá aðferð höfum við valið – en
það er alveg gríðarleg vinna. En hún
er skemmtileg. Ef þú vilt fá fallegt
jólatré þá verður þú að hugsa um
hvern einasta einstakling.
Íslenskir ræktendur eru auðvitað
ennþá bara að prófa sig áfram með
það sem virkar. Við erum núna til
dæmis að skoða hvernig kemur út
að nota svokallaða platta, sem er
pappi og er settur utan um stofninn
við jörðina.
Við erum með blágreni og fjalla-
þin í okkar ræktun. Fjallaþinur er
alveg afskaplega falleg tegund,
en hann er erfiður í ræktun og
lætur hafa fyrir sér – hann mynd-
ar til dæmis marga toppa í byrjun.
Raunar held ég að fólk geri sér
almennt ekki grein fyrir vinnunni
sem maður þarf að inna af hendi
í kringum þessa ræktun. En þetta
val hjá okkur á tegundum helgast
eiginlega aðallega af því af þetta
eru barrheldin tré – og svo eru þau
auðvitað mjög falleg. Fjallaþinurinn
er mjög líkur normannsþini, sem
Íslendingar þekkja vel og er fluttur
inn frá Danmörku.“
Sannfærð um að þetta sé hægt
„Núna er ég orðin sannfærð um að
þetta sé hægt hér á Íslandi, þar sem
ég er farin að uppskera úr ræktuninni
og selja. Á tímabili var mér þó um
það bil að fallast hendur, en svo rof-
aði til og nú sé ég til sólar. Þetta tekur
bara tíma. Það eru fjögur ár síðan við
fórum að selja úr okkar ræktun og
almennt má reikna með tíu til tólf
árum frá gróðursetningu og þangað
til hægt er að fara að selja. Mest
höfum við selt hér í kringum okkur;
nágrönnum og ættingjum. Það má
segja að við séum ennþá bara beint
frá býli, enda voru þetta einungis 15
tré í fyrr en gætu jafnvel orðið 30 í
ár. Við kaupum okkar plöntur í sam-
starfi við aðra þátttakendur í verkefn-
inu og leitum þá hagstæðustu tilboða.
Við erum nú að skoða möguleikann
á því að ala þær aðeins lengur upp í
vermireitum svo við getum farið að
planta þeim aðeins seinna út – þegar
þær eru orðnar aðeins stærri og öfl-
ugri,“ segir Sólveig. /smh
Sólveig Pálsdóttir, akurræktandi jólatrjáa:
Sannfærð um að þetta er hægt
Íslensk jólatrjáaræktun
og -sala á framtíð fyrir sér
Í desember 2014. Sólveig er þarna með tvö nýhöggvin blágrenistré.
Akur jólatrjáa í Prestsbakkakoti.
Jólatrjáaakur inni í skógarlundi, þakinn jarðvegsdúk og hulinn möl, á Bænum
Myndir / Hrönn Guðmundsdóttir
Blágreni og fura á auðu svæði inni í lerkiskógi í Brekkugerði í Fljótsdal.