Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2010, Page 59

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2010, Page 59
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 2. tbl. 86. árg. 2010 55 Ritrýnd fræðigrein o.fl., 2001; Herdís Sveinsdóttir og Anna Gyða Gunnlaugsdóttir, 1996; McNeill o.fl., 1998; Warrén Stomberg og Öman, 2006). Í ljósi þeirra alvarlegu afleiðinga, sem vanmeðhöndlaðir verkir geta haft á líðan sjúklinga með aukinni hættu á fylgikvillum eftir aðgerð og lengri sjúkrahúsdvöl (Apfelbaum o.fl., 2003; Chung og Lui, 2003; Pasero, Paice o.fl., 1999), er nauðsynlegt að árétta enn frekar mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsfólk viðhaldi árvekni sinni. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að sjúklingar eru almennt ánægðir með verkjameðferð og er það eins og rauður þráður í rannsóknum á verkjum og verkjameðferð og hafa rannsakendur mikið velt því fyrir sér hvað valdi (Apfelbaum o.fl., 2003; Elínborg G. Sigurjónsdóttir o.fl., 2001; McNeill o.fl., 1998). Helstu skýringar eru taldar þær að sjúklingar hafi hreinlega ekki þekkingu á því hvað felst í góðri verkjameðferð, dæmi starfsfólk af góðmennsku þess og taki viljann fyrir verkið (Gordon o.fl., 2002; Boström o.fl., 1997). Þess má einnig geta að á meðan rannsóknin fór fram var mikil umræða í þjóðfélaginu um álag á heilbrigðisstarfsfólki á sjúkrahúsum og sú umræða hefur hugsanlega orðið til þess að sjúklingarnir voru ánægðir með alla þjónustu sem þeir fengu í sjúkrahúslegunni. Biðtími eftir verkjalyfjum var stuttur hjá þátttakendum rannsóknarinnar. Þetta bendir til þess að starfsfólk bregðist skjótt við verkjum sjúklinga en þar sem verkir eru talsverðir má álykta að verkjalyfjaskammtar séu ekki nægir eða notuð hafa verið röng verkjalyf. Þetta áréttar mikilvægi reglulegrar verkjalyfjagjafar fyrst eftir aðgerð og reglulegs verkjamats (Paice o.fl., 2005). Samræmi var á milli væntinga sjúklinganna til verkja og þeirra verkja sem þeir höfðu eftir aðgerðina. Mikilvægt er að afla upplýsinga um fyrri reynslu þeirra af verkjum, hvað þeir gera ráð fyrir að hafa mikla verki eftir aðgerð og hvers þeir vænta af verkjameðferð. Þannig er hægt að greina sjúklinga sem þarfnast sérstakrar athygli og veita þeim verkjameðferð sem sniðin er að þeirra þörfum. Eldri sjúklingar greindu frá minni verkjum eftir aðgerð og höfðu neikvæðara viðhorf til verkja og verkjalyfja en þeir yngri og er það í samræmi við niðurstöður fleiri rannsókna (Chung og Lui, 2003; Elínborg G. Sigurjónsdóttir o.fl., 2001; Warrén Stomberg og Öman, 2006). Skýringar þessa má finna í þeirri staðreynd að eldri sjúklingar eru oft með sjúkdóma sem hafa í för með sér aðra verki, eins og liðagigt, beinþynningu og æðasjúkdóma (Pasero, Reed o.fl., 1999), og eru því vanir að vera með verki. Einnig eru aldraðir oft ekki í stakk búnir til að tjá sig um verki því hæfileikinn til að hugsa óhlutbundið minnkar með aldrinum og aldraðir geta því átt í erfiðleikum með að nota tölukvarða til að meta styrk verkja (Anna Gyða Gunnlaugsdóttir, 2006). Aldraðir voru ekki skoðaðir sérstaklega í þessari rannsókn en full ástæða virðist vera til þess að skoða betur verki, verkjameðferð og afleiðingar vanmeðhöndlaðra verkja hjá öldruðum Íslendingum. Sama á við um konur en niðurstöðurnar leiddu í ljós að konur voru með meiri verki en karlar eftir aðgerð og gerðu frekar ráð fyrir verkjum. Er það í samræmi við niðurstöður annarra og hefur það verið skýrt með minna þoli þeirra gagnvart verkjum, að þær lýsi meiri sársauka við verkjaáreiti og að hefð sé fyrir því að konur tjái sig frekar um verki en karlar sem bíti frekar á jaxlinn og kvarti ekki (Chung og Lui, 2003; Yates o.fl., 1998). Hvort sem orsökin er líffræðileg eða menningarbundin þá gefa niðurstöðurnar vísbendingar um að meta þurfi verki hjá konum og körlum á mismunandi hátt og ef til vill að kynin þarfnist mismunandi meðferðar. Helstu takmarkanir þessarar rannsóknar eru að um þæginda­ úrtak er að ræða og að gagna var aflað á tiltölulega stuttu tímabili. Það var ekki gerður greinamunur á því hvort sjúklingar hefðu fengið deyfingu og/eða svæfingu í skurðaðgerð en það getur haft áhrif á reynslu þeirra af verkjum. Enn fremur hefði mátt afla upplýsinga um verkina á fleiri tímapunktum og safna gögnum um notkun verkjalyfja og annars konar verkjameðferðar. Það hefði styrkt rannsóknina ef allir hefðu svarað á sama tíma, eða daginn eftir aðgerð eins og til stóð. Nokkrir sjúklingar völdu að svara spurningalistanum ekki strax heldur biðu með það allt þar til á áttunda degi eftir aðgerð. Það bendir til þess að heppilegt hefði verið að bíða á meðan sjúklingar fylltu út listann. Þá má geta þess að gögn voru ekki greind út frá aðgerðum og sjúkdómsgreiningu og það getur vissulega skipt máli. Hins vegar fæst yfirlit yfir verki sjúklinga á ákveðnum tíma og gefur það mynd af verkjareynslu skurðsjúklinga á spítalanum. Það sem telst vera styrkur rannsóknarinnar er að úrtakið var stórt (N=216), svarhlutfall hátt (91,6%) og að öllum sjúklingum á LSH, sem fóru í aðgerð á tilteknu tímabili, var boðin þátttaka. Þetta eykur ytra réttmæti rannsóknarinnar. LOKAORÐ Niðurstöðurnar sýna að meirihluti sjúklinga finnur fyrir verkjum eftir skurðaðgerð. Þrátt fyrir það var mikill meirihluti sjúklinga ánægður með verkjameðferðina sem hann fékk. Einnig kom í ljós að fræðslu til sjúklinga var ábótavant og mikilvægt er því að bæta verkjameðferð og fræðslu til þessara sjúklinga til að koma í veg fyrir fylgikvilla vanmeðhöndlaðra verkja. Sú niðurstaða, að konur gera frekar ráð fyrir verkjum og greina frá meiri verkjum en karlar, bendir til að fræðsla og verkjameðferð skuli kynjamiðuð. Verkjameðferð er samvinnuverkefni heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga og í verkjafræðslu skal hvetja sjúklinga til að greina frá verkjum og gera þá skilvirkari þátttakendur í verkjameðferð sinni. Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa heilbrigðisstarfsfólki færi á að sjá hvernig sjúklingar meta verkjameðferð. Þær verða notaðar til að leggja hlutlægt mat á gæði verkjameðferðar og gefa til kynna að bæta þurfi verkjameðferð og fræðslu þessara sjúklinga. Rannsóknin var styrkt af Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og vísindasjóði Landspítala. Heimildaskrá American Pain Society Quality of Care Committee, APSQCC (1995). Quality improvement guidelines for the treatment of acute pain and cancer pain, JAMA, 274 (23), 1874­1880.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.