Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2013, Blaðsíða 7
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 2. tbl. 89. árg. 2013 3
Eins og hjúkrunarfræðingum er kunnugt er
nú verið að endurtaka formannskosningar
í félaginu. Kjörnefnd félagsins lýsti því
yfir, 3. apríl síðastliðinn, að ekki yrði
hjá því komist að ógilda niðurstöður
nýafstaðinnar formannskosningar og að
kosning til formanns í félaginu skyldi
fara fram að nýju. Ógildingin byggist
á því að ekki er hægt að útiloka að
við talningu atkvæða í formannskjörinu
hafi verið talin með atkvæði sem greidd
voru með skriflegum hætti eftir að
skriflegri atkvæðagreiðslu lauk. Aðeins
munaði einu atkvæði á þeim tveimur
frambjóðendum sem flest atkvæði hlutu
í kosningunni og ekki hægt að útiloka að
fyrrgreind vafaatkvæði hafi haft áhrif á
niðurstöðu kosningarinnar.
Það var sannarlega óvænt en ánægjulegt
að sjö hjúkrunarfræðingar gáfu kost á sér
til formannskjörs þegar auglýst var eftir
framboðum í desember síðastliðnum.
Einn dró síðar framboð sitt til baka. Í
tæplega 100 ára sögu félagsins er fátítt
að fleiri en einn hafi gefið kost á sér til
formennsku í félaginu. Alla jafna hefur
formaður verið sjálfkjörinn. Kosið var
milli tveggja frambjóðenda árið 2011,
en þá hafði ekki þurft að kjósa á milli
frambjóðenda síðan 1991. Í raun er því
lítil reynsla af formannskjöri í félaginu,
hvað þá að kjósa þurfi milli svo margra
frambjóðenda. Þó að þeir sem að
kosningunni komu hafi lagt sig fram um
að gera vel voru sannarlega ágallar á
framkvæmd kosningarinnar eins og fram
kemur í gögnum sem birt hafa verið á
vefsvæði félagsins.
Líkja má þeim mistökum, sem urðu í
framkvæmd formannskosningarinnar, við
atvik í heilbrigðisþjónustu. Enginn gerði
mistök af ásetningi, mistökin tengdust
fleiri en einum þætti framkvæmdarinnar og
grundvöllurinn, sem kosningin byggðist
á, var veikur. Þannig segir Ástráður
Haraldsson hæstaréttarlögmaður í áliti
um málið sem hann vann fyrir stjórn
félagsins: „Þær reglur sem gilda um
kosningu formanns samkvæmt lögum
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eru
fábrotnar og veita mjög takmarkaða
leiðbeiningu um hvernig skuli staðið að
framkvæmd kosninganna.“
Í grein um öryggi og gæði í heilbrigðis
þjónustu, sem birtist í Fréttablaðinu 26.
mars, fjölluðu þrír starfsmenn landlæknis
embættisins um öryggisbrag. Í greininni
er lögð áhersla á mikilvægi þess að skoða
atvik ofan í kjölinn, læra af þeim og koma
í veg fyrir að þau gerist aftur. Varað er við
því að sópa atvikum undir teppið og leita
að sökudólgi í stað þess að leita lausna.
Þá er bent á að atvik tengist í mörgum
tilfellum ágöllum í skipulagi. Sannarlega
var ágöllum í skipulagi um að kenna
að ógilda þurfti formannskosningarnar í
félaginu okkar.
Í lok mánaðarins verður niðurstaða
endurkosningar ljós og formaður félagsins
vonandi óvéfengjanlega réttkjörinn.
Verkefnin, sem bíða nýs formanns, eru
stór og mikilvægt að félagsmenn fylki sér á
bak við hann. Það að hjúkrunarfræðingar
skipi sér í hópa og tali þannig að einn
hópur sé á einhvern hátt betri en annar,
er ekki vænlegt til árangurs fyrir stéttina.
Samstöðu er þörf og með samstöðunni
hafa hjúkrunarfræðingar sýnt að þeir geta
náð býsna langt. Árangur starfa formanns
er ekki hvað síst kominn undir stuðningi,
þátttöku og samvinnu félagsmanna.
Stærstu verkefnin á næstu mánuðum
og misserum eru án efa kjarasamningar
við alla viðsemjendur félagsins og að
fylgja eftir þeim margþættu tillögum
sem verkefnið Ímynd, áhrif og kjör
hjúkrunarfræðinga leiddi af sér. Miðlægir
kjarasamningar félagsins verða lausir eftir
rúmlega níu mánuði, 31. janúar 2014.
Mikilvægt er að nýta það tækifæri vel og
ná stóru skrefi í því jafnlaunaátaki sem
ríkisstjórnin hratt af stað í tengslum við
stofnanasamninga hjúkrunarfræðinga á
Landspítala. Mínar væntingar eru þær
að í lok næsta kjarasamningstímabils
verði lengd menntunar, og kröfur og
ábyrgð í starfi, grundvöllur ákvarðana um
laun, ekki kyn starfsmannsins og ekki
eðli starfsins. Þannig næðist jöfnuður í
launum milli hinnar stóru kvennastéttar
hjúkrunarfræðinga, sem annast fólk, og
fámennari karlastétta sem sýsla með
peninga eða tæki.
Mikill fjöldi félagsmanna FÍH lagði fram
hugmyndir og vinnu í verkefninu Ímynd,
áhrif og kjör hjúkrunarfræðinga. Formlegri
kynningu á afrakstri þeirrar vinnu verður
hrundið af stað á aðalfundi félagsins
þegar nýtt útlit veggspjalda og allrar
útgáfu á vegum félagsins verður kynnt.
Markaðs og kynningarmál þurfa að skipa
stóran sess í störfum FÍH og leggja þarf
áherslu á gildi félagsins: Þekking – Færni
– Umhyggja. Tillögur liggja fyrir um að
gera félagið verkefnamiðaðra þannig að
það geti haft frumkvæði að breytingum
á skipulagi heilbrigðisþjónustu og
öðru því sem lýtur að auknum áhrifum
hjúkrunarfræðinga. Sterk og skýr ímynd
stéttarinnar og „próaktívt“ félag skilar
síðan hjúkrunarfræðingum betri kjörum.
Félagsmenn í FÍH geta haft meiri áhrif á
áherslur í starfi félagsins en í mörgum
öðrum félögum. Frá árinu 2009 hafa allir
félagsmenn með fulla aðild eða fagaðild
getað haft atkvæðisrétt á aðalfundi með
því einu að skrá sig eigi síðar en viku fyrir
aðalfundinn. Ég hvet hjúkrunarfræðinga
til að nýta sér þennan lýðræðislega rétt,
láta sig málefni félagsins varða, sýna
félagslega ábyrgð og samstöðu og mæta
á aðalfundinn 31. maí næstkomandi.
AÐ VIÐURKENNA MISTÖK OG LÆRA AF ÞEIM
Formannspistill
Elsa B. Friðfinnsdóttir.
Quattro Plus loftdýnan
• Afléttir þrýstingi til varnar legusárum
• Eykur þægindi, auðveldar hvíld og slökun
• Hljóðlaus og einföld í notkun
Guldmann - Endingargóði lyftarinn
• Ný og falleg hönnun
• Rafglenna á hjólastelli
• Seglupphengi (herðatré) auðvelt í notkun
Clean fyrir sturtu og salerni
• Léttur og aðgengilegur stóll
• Úrval aukahluta
• Endingargóður og traustur
Taurus göngugrindin
• Hæðarstilling með gaspumpu
• Hægt að nota í sturtu
• Fyrir heimili og stofnanir
Stiegelmeyer hjúkrunarrúmin
• Vönduð rúm fyrir heimili og stofnanir
• Fjórskiptur rafdrifinn leguflötur
• Fjölbreytt úrval – hagstætt verð
Vandaðar vörur fyrir heilbrigðisstofnanir og heimili
Þjónusta er byggir á þekkingu og gæðum
Eirberg ehf. • Stórhöfða 25 • Sími 569 3100 • eirberg.is