Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2013, Blaðsíða 55
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 2. tbl. 89. árg. 2013 51
Ritrýnd fræðigrein
SCIENTIFIC PAPER
Mælitæki
Spurningalistinn var að mestu leyti saminn af höfundum,
sérstaklega fyrir þessa rannsókn. Spurt var um bakgrunn
þátttakenda, aldur, menntun, fjölskylduaðstæður, fjárhag, tíma
í skilunarmeðferð, tíma frá ígræðslu og fjölda nýrnaígræðsla.
Spurningalistinn innihélt einnig spurningar um stuðning, til dæmis
„Fékkst þú stuðning og leiðbeiningar frá heilbrigðisstarfsfólki
þegar þú varst komin með nýrnabilun á lokastigi?“ „Fékkst þú
stuðning við að finna lifandi nýragjafa þegar ljóst var að þú þurftir
á ígræðslu að halda?“ Spurt var um fræðsluefni: „Fannst þér
vanta fræðslu eða upplýsingar frá lækni/hjúkrunarfræðingi fyrir
ígræðslu?“ „Fékkst þú afhent fræðsluefni um nýrnaígræðslu?“
„Vantaði þig fræðsluefni fyrir ígræðslu?“ Spurt var um upplifun
nýraþega af því að biðja um og þiggja nýra frá lifandi gjafa:
„Fannst þér erfitt að biðja um gjafanýra?“ Einnig var spurt um
tilfinningar þegans í garð gjafans: „Hefur þú sömu tilfinningar
til gjafans fyrir og eftir aðgerð?“ Að lokum var spurt um
lyfjameðferðarheldni og heilsufar eftir nýraígræðsluna: „Hefur þú
alltaf tekið lyfin þín reglulega og samkvæmt fyrirmælum læknis?“
„Hefur þú greinst með einhverja af eftirtöldum sjúkdómum
eftir nýraígræðslu?“ (svo sem krabbamein, sykursýki, hjarta/
æðasjúkdóma, beinþynningu). Spurningalistinn innihélt einnig
lífsgæðaspurningalistann SF36v2 (SF36v2 Health Survey)
til þess að kanna núverandi lífsgæði nýraþeganna (Ware og
Sherbourne, 1992) en sá listi hefur verið þýddur og staðlaður á
íslensku undir heitinu: „Heilsa þín og vellíðan. SF36. Spurningar
um heilsu og lífsgæði.“ (Þýðing: Magnús Ólason. Verkjasvið
Reykjalundar, 2003.) Listinn metur heilsutengd lífsgæði svarenda
og inniheldur 36 spurningar þar sem þátttakendur meta líkamlega
og andlega heilsu sína, virkni og vellíðan. Spurningarnar 36
skiptast í tvo aðalþætti, þ.e. líkamlegan þátt, sem hefur fjóra
undirflokka (líkamleg færni, takmarkanir til að stunda atvinnu eða
félagslíf vegna líkamlegra óþæginda, verkir og almenn heilsa),
og andlegan þátt sem einnig hefur fjóra undirflokka (lífsþróttur,
félagsleg virkni, takmarkanir til að stunda atvinnu eða félagslíf
vegna andlegra vandamála og andleg heilsa). Svarmöguleikar
hverrar spurningar eru 36 á Likertkvarða.
Siðfræði
Fengið var leyfi hjá siðanefnd Landspítala (17/2010),
framkvæmdastjóra lækninga og yfirlækni nýrnalækninga
á Landspítala. Tilkynning var send til Persónuverndar
(S4677/2010). Leyfi var einnig fengið frá Quality Metric
Incorporated til þess að nota SF36v² spurningalistann og
tölvuforrit til að reikna út stig úr listanum og var greitt fyrir
hvorutveggja. Ekki var reiknað með að siðferðileg álitamál
kæmu upp og var þátttakendum boðin aðstoð ef erfiðar
tilfinningar kæmu upp við þátttöku. Þátttakendum var frjálst
að hafna þátttöku í rannsókninni á hvaða tímapunkti sem var.
Spurningalistarnir voru ekki rekjanlegir til einstaklinga og fullum
trúnaði var heitið.
Framkvæmd
Gögnum var safnað í apríl og maí 2010. Sendir voru út 96
spurningalistar ásamt kynningarbréfi þar sem fram kom boð
um að taka þátt í rannsókninni. Þátttaka í rannsókninni jafngilti
skriflegu upplýstu samþykki. Þremur vikum eftir að listarnir voru
sendir út fengu allir þátttakendur sent þakkarbréf og þeir sem
ekki höfðu svarað voru hvattir til þátttöku.
Úrvinnsla
Gögn voru slegin inn í Excel og síðan færð í tölvuforritið
PASW Statistics 18 (SPSS 18) þar sem unnið var úr gögnum
rannsóknarinnar. Notuð var lýsandi tölfræði þar sem fylgni
milli breyta var skoðuð. Krosstöflur, kíkvaðrat og tpróf
voru notuð til að kanna tengsl milli breyta og marktækni.
Niðurstöður spurningalistans SF36v² voru færðar í tölvuforrit
(QualityMetric Health Outcomes™ Scoring Software 4.0) og
þær síðan færðar yfir í SPSS. Tölvuforritið gaf niðurstöður
með tvennum hætti. Annars vegar var hrágögnum umbreytt
í stig á kvarðanum 0100 og hins vegar reiknaði tölvuforritið
meðaltal eða normalstig þátttakenda miðað við bandarískt
þýði frá árinu 1998. Rannsóknir hafa sýnt að bandaríska
þýðið er sambærilegt við niðurstöður frá öðrum vestrænum
löndum (Jenkinson, 1999; Keller o.fl., 1998; Ware, o.fl.,
Tafla 1. Þýði rannsóknar. Tímabilið 19702009.
Fjöldi einstaklinga sem hafa fengið ígrætt nýra 173
Einstaklingar sem hafa fengið ígrætt nýra tvisvar 22
Einstaklingar sem hafa fengið ígrætt nýra oftar en tvisvar 2
Nýraígræðsluaðgerðir alls 197
Fjöldi nýrna frá lifandi gjafa 117
Fjöldi nýrna frá látnum gjafa 80
Nýraþegar undanþegnir rannsókn 77
Látnir nýraþegar 57
Börn (yngri en 18 ára í árslok 2009) 4
Íslenskir nýraþegar búsettir erlendis 6
Fatlaðir einstaklingar og þeir sem ekki tala íslensku 9
Einn einstaklingur finnst ekki í þjóðskrá 1
Alls þátttakendur í rannsókn 96