Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2013, Blaðsíða 11
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 2. tbl. 89. árg. 2013 7
Þetta var mikið áfall, ekki síst að finnast
maður bara vera prósenta á blaði en
ekki væri horft í mannauð og áralanga
starfreynslu og sérhæfingu. En ég ákvað
að láta þetta ekki buga mig og tók upp
þráðinn í náminu og skráði mig í klínísku
leiðina í meistaranáminu. Þar er ég með
heilsugæslu barna sem aðaláherslu og
brjóstagjöf sem undirgrein en þessu námi
er ég að ljúka nú um þessar mundir.
Haustið 2010, eða ári eftir að ég hætti
í heilsugæslunni, tók ég þá ákvörðun
að skapa mér eigið starfsumhverfi og
reyna að starfa sjálfstætt við það sem
mér þótti skemmtilegast. Ég bjó til
brjóstagjafarnámskeið sem miðaði að
því að vera fræðandi en um leið að
byggja upp sjálfsöryggi verðandi foreldra
í brjóstagjöf og umönnun nýburans.
Þetta var gert í samvinnu við Björkina,
sjálfstætt starfandi ljósmæður, og ég
fann að okkar hugmyndafræði var mjög
svipuð. Þessi námskeið voru vel sótt
frá upphafi og fljótlega bættust við fleiri
námskeið, svo sem mjúkar svefnlausnir
og námskeið um það þegar barnið
byrjar að borða. Í þeim námskeiðum
legg ég áherslu á nýja aðferð, barnið er
ekki matað á graut og mauki heldur er
settur mjúkur og viðráðanlegur matur
fyrir framan barnið sem tekur hann sjálft
upp og matast. Þetta er undir því komið
að barnið hafi þroska til að sitja upprétt
og gera þetta sjálft og stuðlar að því
að barnið borði bara nákvæmlega það
sem það þarf og fljótlega sama mat
og allir aðrir í fjölskyldunni. Í vor ætla
ég svo að byrja með ný námskeið sem
eiga uppruna sinn í Bretlandi. Þessi
námskeið heita BabyCalm og hafa notið
mikilla vinsælda, kannski vegna þess
að þar er verið að leiðbeina tilvonandi
og nýbökuðum foreldrum í að lesa í
merki barna sinna og bregðast rétt við
þeim. Það er verið að kenna það sem
ömmur miðluðu áður, af hverju grætur
barnið og hvað geta foreldrarnir gert til
að hugga það? Auðvitað halda margar
ömmur áfram að deila sinni þekkingu til
foreldra en hraðinn er orðinn svo mikill í
þjóðfélaginu, ömmur eru oft uppteknar
við annað eða ekki til staðar og foreldrar
eru stundum ráðalausir hvað þeir eiga
að gera við þetta litla nýfædda barn.
Það finnst mörgum skrítið að það þurfi
námskeið fyrir jafn einfalda hluti eins og
að hugga börn en það getur skapað
mikla streitu og vanlíðan hjá foreldrum að
ráða ekki við aðstæður.
Mér finnst að foreldrar í dag séu upp til
hópa mjög vel upplýstir. Þeir vita hvað
þeir vilja, kynna sér málið og fara ekki
endilega troðnar slóðir eða þá leið sem
aðrir, vel meinandi, segja þeim að fara.
Þess vegna verður að mæta foreldrum
á þeirra forsendum og miða fræðsluna
út frá því að kynna aðferðir en láta
foreldrana fara út með þá tilfinningu að
þeirra sé að velja hvaða leið hentar þeim
og þeirra barni best. Mér hefur stundum
fundist að það sé of mikil forræðishyggja
í heilbrigðiskerfinu. Fólki er sagt hvernig
það á að haga lífinu, allt frá því að barnið
fæðist, og stundum eru foreldrar hræddir
við hvað verði sagt í næstu barnaskoðun.
Þeir efast um eigin sannfæringu og gildi
og þurfa oft viðurkenningu annarra
foreldra til að fylgja því sem þeim sjálfum
finnst réttast. Í heilsugæslunáminu
fengum við tækifæri til að taka þátt í
námskeiði um Solihullaðferðina en hún
miðar einmitt að því að auka sjálfstæði
og kenna foreldrum að treysta sínu eigin
innsæi. Þarna fannst mér að ég væri að
lesa um nákvæmlega það sem mér hafði
alltaf fundist að væri rétt aðferð.
Það er miður að heilsugæslan hafi ekki
tekið meiri breytingum í þessa átt en raun
ber vitni og í reynd væri ekki svo mikið
mál að innleiða slíkar breytingar. Það
hefur auðvitað verið unnið mikið og gott
starf í þróun ung og smábarnaverndar
og skólaheilsugæslu og má þar nefna
6H heilsunnar og nýtt fræðsluefni fyrir
heimavitjanir í ungbarnavernd. En það má
alltaf gera betur og mér hefur fundist að
þessi aðferð í því hvernig fræðsla er veitt
sé ekki rétt. Hún er oftar á forsendum
fræðarans heldur en foreldranna sjálfra.
Mér finnst mikilvægt að foreldrar
geti fengið aðgengilegar og góðar
upplýsingar byggðar á nýjustu og bestu
þekkingu á hverjum tíma. Ég er með
nokkrar fésbókarsíður þar sem ég set
inn erlenda og íslenska tengla jafnóðum
um þau málefni sem eru efst á baugi hjá
foreldrum varðandi brjóstagjöf, næringu,
svefn, uppeldi og tengslamyndun.
Ég skrifa þarna um sérstök efni og
sérstaklega ef eitthvað er ofarlega í
samfélagsumræðunni. Foreldrar eru
mikið í tölvum og á spjallhópum og leita
flestra upplýsingar á netinu og þess
vegna er mikilvægt að fólk geti leitað í
áreiðanlegar upplýsingar.
Ég er sjálf í ráðgjöf alla daga og líka um
helgar og á kvöldin og mest af þessu
er sjálf boðavinna. Það koma margar
fyrirspurnir í tölvupósti, á fésbókar
síðunum og svo í spjallhópunum. Þetta
segir mér að anna ðhvort fái foreldrar ekki
þá hjálp sem þeir þurfa í heil brigðiskerfinu
eða að þetta sé fyrsti við komustaður og ef
fólk fær ekki full nægjandi lausnir í gegnum
þessi sam skipti þá leiti foreldrar annað.
Því miður er það oft þannig að fólk hefur
leitað í heilsu gæsluna og ekki fengið þá
hjálp sem það þarf eða ein faldlega rangar
upp lýsingar en sem betur fer fá flestir þar
viðeigandi aðstoð.
Hluti af mínu starfi er að fara í heimavitjanir
til mæðra til að leggja mat á brjóstagjöf
og þau vandamál sem upp hafa komið.
Ég hef kosið að fara frekar heim í vitjanir
en það er líka vegna þess að ég hef
ekki enn komið mér upp aðstöðu til að
taka á móti skjólstæðingum. Það kann
þó að breytast til batnaðar í haust. Það
er yfirleitt þannig að mæður hafa frétt
af mér í gegnum vinkonur eða síðurnar
á netinu. Það koma einnig tilvísanir frá
Landspítalanum, til dæmis vökudeildinni,
en ekki frá heilsugæslunni vegna þess að
þar eru starfandi brjóstagjafarráðgjafar
sem sinna þeim tilfellum sem þar koma
upp. Í heimavitjunum gef ég mér góðan
tíma til að heyra sögu móðurinnar.
Hvernig var meðgangan og fyrstu
klukkutímarnir eftir fæðingu? Ef þær hafa
áður haft barn á brjósti skoðum við
saman hvernig það gekk. Það skiptir
svo miklu að skoða heildarmyndina en
ekki bara það sem í fljótu bragði virðist
bjáta á. Það kemur kannski ekkert á
óvart að oft er brjóstagjöfin bara einn
þáttur af mörgum og í sumum tilfellum er
allt í lagi með hana en móðirin þarf bara
fullvissu um að hún sé að gera rétt. Oft
eru það aðrir þættir sem eru erfiðleikar
með, eins og óværð barnsins eða þreyta
móðurinnar og þá leiðbeini ég líka með
það, ekki ósvipað því sem er lögð áhersla
á í BabyCalm námskeiðunum. Þegar ég
met brjóstagjöfina horfi ég á fleiri þætti
en bara það að barnið sé að drekka.