Tímarit Máls og menningar - 05.06.2001, Blaðsíða 19
bls. 19
Verðlaunasagan í sagnasamkeppni strik.is
(1975)
Þó að veikindi bróður míns hafi lagt undir sig
heimilislífið er hann orðinn enn fyrirferðarmeiri
eftir að hann dó. Ég velti því stundum fyrir mér
hvort ég muni nokkurn tíma losna við hann.
Stofan er ekki stór og núna rúmar hún ekki
annað en hann. Áður lagði hann bara undir sig
gólfið. Reisti búgarð í einu horninu: brún
plastgirðing, kýr kindur og hundar; og bóndinn
hjó gólfteppið með ljá sem var fastur við
hendur hans. Í hinu horninu reisti hann borg úr
legókubbum og borgin stækkaði og teygði sig
sífellt lengra inn á gólfið, eins og nýju húsin í
hverfinu sem sífellt spretta upp og færast nær
okkur. Stundum átti bóndinn leið til borgar-
innar í bíl sem hafði verið smíðaður þar, og þá
var hvergi hægt að stíga niður fæti á gólfinu.
Núna er dótið hans hvergi sjáanlegt en ofan
á stofuskápnum er raðað mörgum litlum
ljósmyndum af honum í leðurrömmum á fæti.
Á miðri skápröndinni stendur græni minningar-
vasinn frá spítalanum. Á morgnana hrekk ég
stundum upp af draumi um boltaleik í stofunni
um leið og boltinn skellur á vasanum.
Á veggjunum hanga tvær stórar myndir af
honum. Önnur er ljósmynd með dökkgrænum
máluðum bakgrunni. Kinnarnar eru þykkar af
bjúg en ásjónan björt og skær. Svipurinn
alvarlegur og augun ekki laus við ásökun.
Hin myndin er málverk, önnur minningargjöf frá
spítalanum. Andlitið á þeirri mynd er ekki mjög líkt
honum en skyrtan er gamalkunnug: marglitar rendur
í bítlastíl. Við áttum báðir svona skyrtur en þær hafa
fyrir löngu verið klipptar niður í afþurrkunarklúta. Um
daginn sá ég mömmu þurrka af myndinni með
leifum af annarri skyrtunni. Ég vona að það hafi
verið mín skyrta þó að það skipti ekki máli.
Daglega þarf ég að fara í kirkjugarðinn með
mömmu. Þetta geta orðið langar gönguferðir því
mamma hefur ekki bara áhuga á legstað bróður
míns heldur þarf hún að fræða mig um lífshlaup
fjölda annarra hvíldargesta garðsins.
Mest talar hún þó um allt það sem hún vill gera
fyrir leiði bróður míns. Á einu ári hefur hún skipt
þrisvar um legstein og þeir hafa verið hver öðrum
glæsilegri.
Mömmu virðist stundum einkar hlýtt til mín þegar
ég geng með henni um kirkjugarðinn. „Þú verður
ábyggilega læknir,“ segir hún og horfir ástúðlega á
mig. „Þú verður læknir og bjargar mannslífum.“ Ég
hugsa með hrolli til þess að eyða fullorðinsárunum
á spítala klæddur í hvítan slopp. Ég hef alltaf
ímyndað mér að fullorðinn verði ég loksins frjáls.
Geti eytt dögunum í að búa til blóðugar bíómyndir
og setið við sérhannað spilaborð á kvöldin og
drukkið úr viskíglasi sem fellur niður í kringlótt hólf á
borðinu þegar ég legg það frá mér.
En þegar mamma segir þetta og horfir svona
ástúðlega á mig þá virðist læknisferillinn
óhjákvæmilegur. Lengi vel langar mig ekkert heitar
en að verða læknir. Upptendraður skrifa ég ritgerð
um það í skólanum. Svo kemur eftirsjáin en ég leiði
hana hjá mér.
Í stað þess að losna við einn bróður hef ég fengið
yfir mig tvo. Annar þeirra hvílir í kirkjugarðinum en
um hinn talar mamma við morgunverðarborðið: „Þú
veist að bróðir þinn lifir áfram. Og ekki nóg með
það: núna er hann ekki veikur lengur. Hann lifir í
annarri vídd og fylgist með okkur. Hann sér okkur þó
að við getum ekki séð hann. En af því að þú ert
næmur drengur þá má vera að þú getir kannski
einhvern tíma séð hann eða í það minnsta heyrt í
honum. Þig hlýtur að langa til þess?“
Mamma túlkar þögnina sem samþykki og heldur
áfram: „Þegar þú ert einn hérna uppi þá geturðu
sest inn í stofu og gert dálítið. Það er aðferð sem
næmt fólk getur stundað. Þú lætur handleggina
hvíla á stólörmunum og opna lófana snúa upp.
Þú lokar augunum og reynir að hugsa ekki um neitt.
Tæma hugann. Þá er aldrei að vita nema að þú getir
heyrt í honum. Ef þú heyrir í honum skaltu opna
augun og þá getur verið að þú sjáir hann líka!“
Mamma leggur brúna stílabók og bláan bic-penna
á eldhúsborðið. Stílabókin lítur nákvæmlega eins út
og þær sem ég nota í skólanum, en þessi er
óskrifuð. Og þessa bók þarf ég ekki að geyma í
skólatöskunni og ég þarf ekki að leysa í henni
Hverfa út í heiminn
tmm júní 22x27 Ó 5.6.2001 19:57 Page 19